Kröfur til umsækjenda um styrk úr Þróunarsjóði atvinnu og menntunar 2021
Í Úthlutunarreglum Þróunarsjóðs um atvinnu og menntun er kveðið á um að hlutverk sjóðsins sé „að veita styrki til framhalds- og háskóla og viðurkenndra fræðsluaðila sem sérhæfa sig í námi og starfsþjálfun fullorðinna til að þróa nýjungar í námi, kennsluaðferðum og mati á fyrri reynslu og námi (þmt. raunfærnimati) með það að markmiði að treysta stöðu atvinnuleitenda á vinnumarkaði og auðvelda þeim að mæta nýjum aðstæðum og þörfum í atvinnulífinu.“
Vinnumálastofnun, í samráði við félagsmálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið, hefur ákveðið að leggja megináherslu á úrræði fyrir atvinnuleitendur, einkum þá sem verið hafa án atvinnu í 12 mánuði eða lengur. Lögð er áhersla á þróun á nýjum námsleiðum m.t.t. reglugerðarinnar um virkar vinnumarkaðsaðgerðir, þar sem gert er ráð fyrir vinnustaðaþjálfun. Framkvæmdanefnd um Nám er tækifæri mun taka við og meta umsóknir.
Við mat og val á verkefnum sem styrkt verða verður litið til nýjunga í námi og þjálfun út frá þörfum markhóps og atvinnulífs.
Öll verkefni, sem styrkt verða, þurfa að uppfylla þessar kröfur allan þann tíma sem verkefnið sem styrkt er varir. Ef umsókn uppfyllir ekki þessar kröfur verður þeim vísað frá án frekari umfjöllunar.
Kröfur til umsækjenda og samstarfsaðila
Umsækjandi þarf að uppfylla a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum:
- Vera fyrirtæki/ stofnun, sem mun tryggja viðkomandi atvinnuleitanda starfsþjálfunarpláss í tengslum við viðkomandi nám. Fyrirtæki eða stofnun verður að sækja um í samstarfi viðfræðsluaðila, sbr. lið 2.
- Vera fræðsluaðili[sem býður upp á viðkomandi nám. Fræðsluaðili verður að sækja um í samstarfi við a.m.k. eitt fyrirtæki/ stofnun, sbr. lið 1. en getur jafnframt verið í samstarfi við annan fræðsluaðila, einyrkja eða félagasamtök. (Með hugtakinu ,,fræðsluaðili“ er átt við háskóla, sbr. lög nr. 63/2006, framhaldsskóla, sbr. lög nr. 92/2008, og viðurkennda fræðsluaðila sbr. lög nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu og reglugerð nr. 1163/2011. Menntamálastofnun viðurkennir fræðsluaðila í námi fullorðinna)
- Vera einyrki eða fræðslusjóður samtaka launamanna og atvinnurekenda í samstarfi við bæði fyrirtæki/stofnun og fræðsluaðila, sbr. lið 1 og 2.
Umsókn getur tengst fleiri en einu fyrirtæki/stofnun.
Fyrirtæki/stofnun skulu leggja fram eigið framlag í menntaúrræðið. Þetta framlag getur verið í formi stuðnings við þátttakenda á meðan á náminu stendur, tengilið, kennsluaðstöðu, fæði og þess háttar. Gera skal grein fyrir eigin framlagi fyrirtækja eða stofnana í umsókninni.
Grundvöllur samstarfsaðila
Samstarfssamningur, undirritaður af stjórnendum bæði umsækjenda og samstarfsaðila, skal fylgja umsókninni. Með stjórnendum er átt við einstaklinga sem hafa umboð til að skuldbinda viðkomandi aðila þannig að hægt sé að tryggja framgang verkefnisins. Þeir samstarfsaðilar sem aðild eiga að samtarfssamningum skulu vera þeir sömu og í umsókninni.
Víki samstarfssamningurinn frá þessum reglum telst umsóknin ekki uppfylla ákvæðin og verður vísað frá.
Markhópur
Þátttakendur í þessu verkefni skulu vera atvinnuleitendur, einkum þeir sem verið hafa án atvinnu í 12 mánuði eða lengur hjá Vinnumálastofnun sem þurfa að styrkja undirstöðu þekkingu sína eða færni á íslenskum vinnumarkaði.
Fyrirtæki eða stofnun getur sótt um samning vegna vinnustaðaþjálfunar viðkomandi atvinnuleitanda á grundvelli 3. gr. reglugerðar nr. 918/2020 og um greiðslu þóknunar fyrir tengilið við fræðsluaðila og ráðgjafa Vinnumálastofnunar.
Við lok námsins getur fyrirtæki/stofnun sótt um styrk með ráðningu viðkomandi atvinnuleitanda í allt að sex mánuði á grundvelli 9., 10. eða 11. gr. reglugerðar nr. 918/2020.
Þátttaka í náminu verður að vera frjáls og án kostnaðar fyrir viðkomandi þátttakendur og óheimilt er að beita efnahagslegum þvingunum gagnvart þátttakendum í tengslum við námsferlið.
Námið
Opnað er fyrir umsóknir um þróun og kennslu hagnýts og starfstengds náms sem nýst getur atvinnuleitendum, einkum þeirra sem verið hafa án atvinnu í 12 mánuði eða lengur, til að kynna sér nýtt starfssvið eða til endurmenntunar. Gert er ráð fyrir að aukið samstarf aðila ýti undir nýungar í náms- og þjálfunarúrræðum og mæti fjölbreyttum námsþörfum og áhuga atvinnuleitenda til að bæta við sig þekkingu. Áhersla er lögð á starfs- og tækninám en einnig á uppbyggingu stafrænnar og grænnar hæfni og starfstengs tungumálastuðnings.
Lögð er áhersla á að námið sé starfstengt og að hluti af náminu fari fram á vinnustað eða á vettvangi í að lágmarki 3 vikur og hámarki 13 vikur.
Námið verður að vera skipulagt fyrir hóp, þar sem fjöldi þátttakenda sé ekki færri en 10. Heimilt verður í sérstökum tilfellum að halda námskeið fyrir færri þátttakendur í samráði við Vinnumálastofnun, en þó aldrei færri en 6. Halda verður skrá yfir mætingu þátttakenda.
Námið getur verið skipulagt í fjarnámi, þ.e. án staðsetningar, sem fari fram samtímis og er því áhersla lögð á samstarf við fræðsluaðila sem veiti nemendum stuðning/aðstöðu í fjarnámi.
Námskeiðið
Námið getur fyrst hafist 1. janúar 2022 og skal vera lokið á árinu 2022 með skýrslu skal skilað eigi síðar en tveimur mánuðum eftir lok námsins. Um er að ræða einskiptis aðgerð og samþykki á umsókn felur ekki í sér loforð eða skuldbindingu um frekari fjárstuðning. Hefji fræðsluaðili nám áður en viðkomandi hefur fengið formlegt svar er þá á eigin ábyrgð.
Framlagið
Framlagið grundvallast á tímagjaldi sem er kr. 30.000,- Þetta tímagjald á að ná yfir allan kostnað í tengslum við námið, svo sem kortlagning á þörfum/hæfni þátttakenda í upphafi náms, undirbúning, kennslu, hvatningarviðtöl, fundi með samstarfsfyrirtækjum eða -stofnunum, gerð kennsluefnis, yfirferð verkefna og mat.
Fjöldi tíma hvers námskeiðs miðast við hve marga klukkutíma kennsla fer fram með kennara í hverjum hópi. Til að hæfni fáist mögulega metin til áframhaldandi verka er lágmark virkra kenndra klukkustunda með kennara 24 klukkustundir.
Greitt verður álag vegna sérstakrar áherslu á íslenskukennslu fyrir útlendinga m.t.t. túlkunar og hvatningar. Sækja þarf sérstaklega um slíkan stuðning með framlagningu áætlunar um umfang og kostnað sem fylgi umsókninni. Miðað verður við reglur Fræðslusjóðs um greiðslur vegna túlkunar.
Lokaskýrsla
Þeir sem fá styrk verða að skrá þátttakendur í upphafi námsins og skila skýrslu um rekstur og framkvæmd í lok verkefnisins. Ef gera þarf breytingar á verkefninu skal það tilkynnt samhliða til Vinnumálastofnunar. Nám sem fær stuðning verður að framkvæma innan þess tímaramma sem lagt er upp með í umsókninni.