Réttur til fæðingarorlofs

„Fæðingarorlof er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára og töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Þá stofnast réttur til fæðingarorlofs við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu“.


Tímalengd og skipting réttar

Tímalengd er alls 12 mánuðir. Hvort foreldri um sig á rétt á 6 mánuðum og eru 6 vikur framseljanlegar.

Upphafstími fæðingarorlofs og hvenær réttur fellur niður

  • Báðir foreldrar geta byrjað fæðingarorlof allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða síðar. Þó skal móðir vera í fæðingarorlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Réttur til fæðingarorlofs fellur niður er barnið nær 24 mánaða aldri.
  • Í tilviki frumættleiðingar eða varanlegs fósturs geta báðir foreldrar byrjað fæðingarorlof þegar barn kemur inn á heimili. Ef um reynslutíma er að ræða áður en til frumættleiðingar eða varanlegs fósturs getur komið eða ef sækja þarf barnið til annarra landa er heimilt að byrja fæðingarorlof við þann tíma enda hafi barnaverndarnefnd eða viðkomandi yfirvöld staðfest ráðstöfunina. Réttur til fæðingarorlofs fellur niður 24 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.

Lenging og framsal á sjálfstæðum rétti til fæðingarorlofs

  • Einhleyp móðir sem gengist hefur undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur frumættleitt barn eða tekið í varanlegt fóstur öðlast rétt til fæðingarorlofs í 12 mánuði. Hið sama gildir um eftirlifandi foreldri hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi.Gögn sem þurfa að berast: Staðfesting á að foreldri hafi farið eitt í tæknifrjóvgun, ættleitt eða tekið barn í varanlegt fóstur.
  • Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 24 mánaða aldri færist sá réttur sem það hefur ekki nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldrisins og verður að þeim réttindum sem eftirlifandi foreldrið hefur áunnið sér. Í tilviki frumættleiðingar eða varanlegs fósturs er miðað við 24 mánuði eftir að barnið kom inn á heimilið.
  • Ef foreldri er ófært að annast um barn sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess er því heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs sem það hefur ekki nýtt sér til hins foreldrisins. Í tilviki frumættleiðingar eða varanlegs fósturs er miðað við 24 mánuði eftir að barnið kom inn á heimilið. Ástand foreldris skal staðfest með læknisvottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið sem og sé ástand þess með þeim hætti að því er ófært að veita samþykki sitt fyrir framsali réttinda.Gögn sem þurfa að berast: Vottorð sérfræðilæknis og staðfesting á að viðkomandi foreldri vilji framselja rétt sinn.
  • Ef foreldri er ófært að annast um barn sitt vegna afplánunar refsivistar á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess er því heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs sem það hefur ekki nýtt sér til hins foreldrisins. Í tilviki frumættleiðingar eða varanlegs fósturs er miðað við 24 mánuði eftir að barnið kom inn á heimilið. Fangelsismálayfirvöld skulu staðfesta að foreldrið muni afplána refsivist á fyrrgreindu tímabili.Gögn sem þurfa að berast: Staðfesting fangelsismálayfirvalda.

Forsjá barns

  • Skilyrði fyrir því að foreldri geti nýtt sér rétt sinn til fæðingarorlofs er að það fari sjálft með forsjá barnsins eða fari sameiginlega með forsjána ásamt hinu foreldrinu.
  • Forsjárlaust foreldri getur nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að það hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir.
  1. Forsjárlaust foreldri þarf að fá samþykki þess foreldris sem fer með forsjá barnsins: Umsókn um umgengnisrétt forsjárlauss foreldris í fæðingarorlofi
  2. Faðernisviðurkenning verður að fara fram og fæðingarvottorð að berast útgefið af Þjóðskrá Íslands.

Faðernisviðurkenning getur farið fram:

  1. Hjá sýslumanni.
  2. Fyrir dómara í dómsmáli til feðrunar barns.
  3. Með bréflegri yfirlýsingu og skal undirritun hennar þá staðfest af lögmanni eða tveimur vitundarvottum. Þar skal tekið fram að útgefandi yfirlýsingarinnar hafi ritað nafn sitt eða kannast við undirritun sína í viðurvist þess eða þeirra er undirskriftina staðfesta. Vitundarvottar skulu geta kennitölu sinnar eða eftir atvikum fæðingardags og heimilisfangs.

Uppsöfnun og vernd réttinda

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.

+ Réttur til starfs og vernd gegn uppsögnum

  • Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í fæðingarorlofi og skal starfsmaður eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að því loknu. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.
  • Óheimilt er að segja upp starfsmanni vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs eða er í fæðingarorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hefur alið barn.

Brottfall réttinda

  • Réttur til fæðingarorlofs fellur niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs. Í þessum tilvikum eiga kynforeldrar sameiginlegan rétt á tveggja mánaða fæðingarorlofi eftir fæðingu barns.
  • Þá fellur réttur til fæðingarorlofs niður við andlát barns. Foreldri kann að eiga rétt til sorgarleyfis. 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni