Hér eru helstu svör varðandi þjónustu við atvinnurekendur
- Þarf að greiða fyrir þjónustu Vinnumálastofnunar við atvinnurekendur?
- Hvernig skráir atvinnurekandi starf í auglýsingu hjá Vinnumálastofnun?
- Hvaða starfstengdu vinnumarkaðsúrræði getur atvinnurekandi sótt um?
- Hvernig sækir atvinnurekandi um starfstengt vinnumarkaðsúrræði?
- Hvað er EURES?
- Hvert er landfræðilegt umfang EURES ?
- Hvernig auglýsi ég starf hjá Eures, evrópskri vinnumiðlun?
Nei, öll þjónusta Vinnumálastofnunar er gjaldfrjáls.
Atvinnurekandi skráir starf í gegnum mínar síður atvinnurekenda á vef Vinnumálastofnunar. Mínar síður eru notendavæn leið fyrir atvinnurekendur til að eiga skilvirk samskipti við Vinnumálastofnun. Í gegnum mínar síður getur atvinnurekandi skráð starf í auglýsingu, skoðað umsóknir og svarað þeim, átt samskipti við ráðgjafa, skilað gögnum og fengið aðgang að fyrri samskiptum og sögu, t.d. áður skráðum störfum. Íslykils er krafist til að stofna aðgang að mínum síðum og þegar svo ber undir þá þarf atvinnurekandi að afla umboðs síns fyrirtækis áður en hægt er að skrá starf hjá Vinnumálastofnun.
Við höfum útbúið leiðbeiningar og myndbönd sem skýra ferlið nánar og er það efni aðgengilegt á vef Vinnumálastofnunar hér: https://vinnumalastofnun.is/atvinnurekandi/radningarthjonusta
Vinnumálastofnun hefur möguleika á og leitar eftir samstarfi við fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök um ráðningu atvinnuleitenda í starfstengd vinnumarkaðsúrræði. Um er að ræða tímabundin verkefni sem geta verið hagur bæði atvinnurekenda og einstaklinga í atvinnuleit. Úrræðin skiptast í starfsþjálfun og sérstök átaksverkefni þar sem atvinnurekandi getur ráðið atvinnuleitanda með samningi til starfa í allt að sex mánuði með styrk. Samning má framlengja um aðra sex mánuði ef um er að ræða skerta starfsgetu hjá atvinnuleitanda. Einnig er möguleiki að ráða atvinnuleitanda á starfsorkusamning ef um er að ræða verkefni sem tengjast nýsköpun eða þróun. Alla jafna er gert ráð fyrir 100% stöðugildi í vinnumarkaðsúrræðum.
Atvinnurekandi sækir um vinnumarkaðsúrræði með því að fylla út umsókn og senda ásamt fylgigögnum á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar, sjá hér. Að fengnu samþykki skráir atvinnurekandi starf með því að fara inn á mínar síður Atvinnurekenda með íslykli og fyllir út starfsauglýsingu. Hér má sjá ítarlegt myndband varðandi hvernig starf er skráð. Auglýsing birtist á vef stofnunarinnar þaðan sem atvinnuleitendur geta sótt um starf en auk þess leitar atvinnuráðgjafi að starfsmanni við hæfi úr hópi atvinnuleitenda og sendir umsóknir. Umsóknum um starfsorku er skilað til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem hefur umsjón með mati, eftir að umsókn hefur verið samþykkt þá hefur Vinnumálastofnun umsjón með ráðningarferli í samráði við fyrirtæki.
EURES (EURopean Employment Services) er samstarfsverkefni um opinbera vinnumiðlun á EES svæðinu, rekið af framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins. Ísland á aðild að verkefninu í gegnum EES samninginn. EURES er ætlað að stuðla að frjálsri för atvinnuleitenda á milli landa innan EES. Hjá Vinnumálastofnun er EURES hluti af ráðgjafar- og vinnumiðlunarsviði og veitir þjónustu á landsvísu til atvinnuleitenda og atvinnurekenda. Öflug vefgátt sem aðgengileg er á 26 tungumálum veitir allar upplýsingar um EURES: www.eures.europa.eu Um 850 sérþjálfaðir EURES ráðgjafar eru starfandi í Evrópu.
EURES nær yfir 28 lönd Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein.
Ef atvinnurekandi vill auglýsa hjá Eures í þeim tilgangi að leita umsókna frá atvinnuleitendum frá löndum innan EES/EFTA er um sama ferli að ræða og þegar auglýsa á almennt starf á vef Vinnumálastofnunar, sjá nánar svar varðandi skráningu starfa hjá Vinnumálastofnun. Það sem hafa verður í huga ef atvinnurekandi vill auglýsa starfið hjá Eures vinnumiðlun er að haka þarf við það sérstaklega á mínum síðum. Þegar atvinnurekandi hefur lokið við að skrá starf á mínum síðum þá hefur EURES ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun samband og fer nánar yfir skráningu með atvinnurekanda, gengur úr skugga um að allar upplýsingar liggi fyrir áður en auglýsing er birt á vef. EURES störf eru ávallt auglýst með íslenskum og enskum texta og geta EURES ráðgjafar aðstoðað atvinnurekendur við þýðingu á ensku. EURES störf eru auglýst á vef Vinnumálastofnunar og inni á vefgátt EURES: www.eures.europa.eu þar sem þau er sérstaklega merkt sem EURES störf frá Íslandi.