Eftirlit, skerðing á greiðslum og ósamrýmanleg réttindi
Foreldri getur orðið fyrir tekjumissi við það að fara í fæðingarorlof þar sem greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er ætlað að bæta hluta tekjumissis foreldris sem leggur niður störf í fæðingarorlofi. Tekjumissinn sem Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta er foreldri heimilt að fá bættan frá vinnuveitanda án þess að komi til skerðingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Eftirlit
Mánaðarlega er framkvæmt eftirlit sem felst í því að keyrðar eru saman upplýsingar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði við skrár skattyfirvalda.
Skerðing á greiðslum
- Foreldri er heimilt að fá þann tekjumissi bættan sem greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er ekki ætlað að bæta.
- Greiðslur frá vinnuveitanda sem eru ætlaðar fyrir annað tímabil en það sem foreldri var í fæðingarorlofi skerða ekki greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
- Heimilt er að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja má til breytinga á störfum foreldris fram að upphafsdegi fæðingarorlofs.
Ósamrýmanleg réttindi
- Foreldri sem nýtur greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks, greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eða foreldraorlofs.
- Foreldri sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar eða endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
- Foreldri sem nýtur greiðslna samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna getur ekki á sama tímabili nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
- Foreldri sem nýtur orlofslauna eða greiðslna vegna starfsloka getur ekki nýtt sér rétt sinn til fæðingarstyrks eða greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á sama tímabili og þær greiðslur eiga við um.
- Greiðslur frá öðrum ríkjum vegna sömu fæðingar og fyrir sama tímabil koma til frádráttar við greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Leiðrétting á greiðslum
Hafi foreldri fengið of lágar greiðslur
- Hafi foreldri fengið lægri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda ber Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til foreldris ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir til þess að foreldri hafi átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en hafi áður verið synjað um greiðslur eða reiknaðar lægri greiðslur. Þegar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum falla vextir niður.
Hafi foreldri fengið of háar greiðslur
- Hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skal niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Mikilvægi þess að tilkynna um breytingar
- Mikilvægt er að foreldri tilkynni Fæðingarorlofssjóði um öll þau tilvik sem leitt geta til of hárra greiðslna úr sjóðnum, þ.m.t. ef breytingar verða á fæðingarorlofstöku eða tekjum.
Endurúthlutun réttinda
- Foreldri kann að eiga inni rétt til fæðingarorlofs og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í kjölfar endurgreiðslu ef önnur skilyrði til þess eru uppfyllt, s.s. samkomulag við vinnuveitanda um tilhögun fæðingarorlofs og að réttur til fæðingarorlofs hafi ekki fallið niður vegna aldurs barns eða þess tíma frá því að barn kom inn á heimili við frumættleiðingu eða varanlegt fóstur.