Starfsleitar - og hvatningarnámskeið
Atvinnuleitin frá A - Ö
Á námskeiðinu er farið yfir alla þætti sem tengjast atvinnuleitinni, undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni.
Þátttakendur fá þjálfun og leiðbeiningar um hvernig haga beri atvinnuleitinni, hvar og hvernig leitað er að starfi, eignast fullbúna ferilskrá, eru undirbúnir fyrir atvinnuviðtöl og eftirfylgni og öðlast getu til að takast á við atvinnuleitina með markvissum og árangursríkum hætti.
Námskeiðið er einstaklingsmiðað og innifelur m.a. einkatíma hjá ráðgjafa þar sem veitt er persónuleg og fagleg ráðgjöf. Einnig er fjallað um helstu áskoranir, markmiðasetningu, virkni og leiðina til árangurs.
Námskeiðið skiptist í 4 hluta, 2 – 2,5 klst í senn, alls 8 – 10 klst.
Umsjón með námskeiðinu: HH Ráðgjöf - Ráðningarþjónusta og Mannauðsráðgjöf
Leiðbeinendur á námskeiðinu: Hulda Helgadóttir, Anika Ýr Böðvarsdóttir og Helga María Helgadóttir.
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.
Áttin að draumastarfi
Námskeiðið er ætlað einstaklingum sem eru á milli starfa eða hafa áhuga á að breyta til eða skipta um starfsvettvang. Kynnt verða ýmis verkfæri og aðferðir sem þátttakendur geta nýtt til að koma sér á framfæri á vinnumarkaði. Einnig verður veitt fræðsla og stuðningur varðandi atvinnutækifæri sem í boði eru.
Markmið: Að auka hæfni til að takast á við hraðar breytingar og kröfur vinnumarkaðarins. Einnig að auka trú á eigin getu og öðlast hugrekki til að stíga út fyrir eigið þægindasvið og þora að taka ákvörðun varðandi stefnu í lífinu.
Lýsing: Á námskeiðinu er lögð áhersla á að þátttakendur efli sig á uppbyggilegan og jákvæðan hátt þannig að þeir geti nýtt þau tækifæri sem bjóðast á vinnumarkaði. Farið er í gegnum ferðalag atvinnuleitarinnar allt frá því hvar viðkomandi er staddur í lífinu, skipulagningu í tengslum við atvinnuleit, hvar helstu tækifæri er að finna, umsóknir, atvinnuviðtalið og hvernig samskipti og hegðun geta haft áhrif á ferlið.
Hæfniviðmið:
- Að þátttakandi geti ýtt hindrunum úr vegi með því að hafa trú á eigin getu.
- Að þátttakandi geti tekið frumkvæði í atvinnuleit.
- Að þátttakandi geti skilgreint hvernig störf hann vill og hjá hvaða fyrirtækjum þau má finna.
- Að þátttakandi nýti þekkingu sína á verkfærum atvinnuleitar og auki þar með starfshæfni sína.
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.
Framvegis fer með umsjón námskeiðsins.
Eftirsóttir færniþættir í atvinnulífi á 21. öldinni
Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sérmenntun eða háskólamenntun.
Hagnýtt námskeið þar sem lögð er á áhersla á vellíðan og virkni þátttakenda, jákvætt og létt andrúmsloft og unnið er út frá styrkleikum hvers og eins.
Efnisþættir:
- Farið er yfir lykilþætti í atvinnuleit, s.s. frumkvæði, virkni, trúa á eigin getu, hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir í umsókarferlinu, að nýta upplýsingaflæði og tengslanet, viðhorf, sýnileika og áhugasvið.
- Styrkleikagreining unnin sem byggir á styrkleikum í samskiptum, persónulegum þáttum, vinnulagi og kjarnafærni og reynslu í vinnuumhverfi.
- Færniþættir í atvinnulífinu: styrkleikar þátttakanda tengdi við eftirsótta færniþætti í atvinnulífi á 21. öldinni og þeim gerð ítarleg skil.
- Vinnusmiðja um ferilskrá, hvað er vönduð ferilskrá sem skapar tækifæri? Rætt um fylgibréf ásamt því að fylgja eftir umsókn.
- Farið ítarlega í undirbúning fyrir atvinnuviðtal út frá aðstæðum hvers og eins.
Framkvæmd og skipulag:
Námskeiðið er í fimm skipti og stendur í 3,5 klukkustundir í hvert skipti þar sem innlögn frá kennara og hópvinna þátttakenda fer saman.
Umsjón: Sigríður Hulda Jónsdóttir, MA í náms- og starfsráðgjöf og MBA í stjórnum og viðskiptum. Sigríður Hulda er eigandi SHJ ráðgjafar sem sérhæfir sig í fræðsla og stjórnendaráðgjöf fyrir fyrirtæki, sjá www.shjradgjof.is og SHJ ráðgjöf á Facebook og Instagram. Sigríður hefur mjög mikla reynslu af fræðslu og námskeiðshaldi.
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.
Ég vil vinna
Á þessu námskeiði er farið ítarlega yfir það hvernig er hægt að auka líkurnar á að fá óskastarfið. Að auki er lögð áhersla á að takast á við atvinnuleysið með jákvætt hugarfar og aðferðir kenndar til að takast á við sjálfsefa o.fl. er tengist atvinnuleit.
- Atvinnuleitin, ferilskrá og kynningarbréf.
- Hvernig hver og einn skipuleggur atvinnuleitina.
- Seigla, sjálfsskoðun og sjálfs-hvatning.
- Aðferðir til að bugast ekki í atvinnuleitinni.
- Markmiðaáætlun.
- Breytt fjármálastaða.
- Áskoranir.
Leiðbeinandi: Hildur Jakobína, MBA og Msc. í vinnusálfræði.
Staðsetning: kemur síðar. Bæði stað- og fjarnámskeið.
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.
Fullkomin ferilskrá
Námskeiðið Fullkomin ferilskrá er ætlað fólki í atvinnuleit og er markmið þess að þátttakendur eigi vandaða, nútímalega og faglega ferilskrá og auki þar með starfshæfni sína. Boðið er upp á námskeiðið bæði í stað- og fjarnámi.
Farið verður í allt ferli starfsumsóknar. Lögð verður áhersla á að hver þátttakandi skilgreini eigin styrkleika og verður því byrjað á styrkleikamati. Niðurstöður þeirrar vinnu verða svo nýttar til að búa til starfsumsókn, vinna ferilskrá og kynna sig í atvinnuviðtali hvort sem einstaklingur mætir á staðinn eða fari í viðtal í gegnum fjarfundarbúnað.
Fagaðilar á hverju sviði sjá um að leiðbeina þátttakendum.
Námskeiðið er 12 klst sem dreifist á þrjú til fjögur skipti.
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.
Framvegis fer með umsjón námskeiðsins.
Hagnýt vinnusmiðja
Ætlað einstaklingum í atvinnuleit sem hafa ekki lokið háskólanámi. Námskeiðið samanstendur af innlögn kennara, umræðum og hópavinnu þar sem þátttakendum er skipt í minni hóp til að yfirfæra viðfangsefnið á eigin stöðu og framtíðarsýn. Þátttakendur fá afhenda verkefnamöppu í fyrsta tíma sem unnið er með allt námskeiðið. Þátttakendur setja sér markmið við lok hvers tíma sem er tekið til umræðu í byrjun næsta tíma.
Viðfangsefni og skipulag:
- Farið er yfir lykilþætti í atvinnuleit, s.s. frumkvæði, virkni, trú á eigin getu, hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir í umsóknarferlinu, að nýta upplýsingarflæði og tengslanet, viðhorf, sýnileika og áhugasvið. Leiðir til tengsla og tækifæra. Persónueinkenni, áskoranir og tækifæri.
- Innlögn um eftirsótta færniþætti í atvinnuleit á 21. öldinni. Styrkliekar þátttakenda tengdir við eftirsótta færniþætti í atvinnulífi á 21. öldinni og þeim gerð ítarleg skil. Samskiptasaga, samskipti á vinnustað, hvernig er tekist á við ágreining, vinnusaga skoðuð. Hvernig lærum við af reynslunni?
- Innlögn um vandaða ferilskrá og fjallað um fylgibréf ásamt leiðum til að fylgja eftir umsókn. Þátttakendur koma með eigin ferilskrá í tölvu eða útprentaða og skiptast á skoðunum og vinna með eigin gögn. Hvernig ferilskrá skapar tækifæri? Áhugasvið, vinnulag skoðað og skilgreint í tengslum við vinnumarkaðinn.
- Farið ítarlega í undirbúning fyrir atvinnuviðtal út frá aðstæðum hvers og eins. Innlögn og hópavinna, hlutverkaleikur. Þátttakendur koma með atvinnuauglýsingu og vinna raunhæf dæmi sem byggja á eigin reynslu og hentar að nýta í atvinnuviðtali. Rætt um ólík form atvinnuviðtala og mikilvægi þætti.
Umsjón: Sigríður Hulda Jónsdóttir, MA í náms- og starfsráðgjöf og MBA í stjórnun og viðskiptum. Sigríður Hulda er eigandi SHJ ráðgjafar sem sérhæfir sig í fræðslu og stjórnendaráðgjöf fyrir fyrirtæki, sjá www.shjradgjof.is og SHJ ráðgjöf er á Facebook og Instagram. Sigríður Hulda hefur mjög mikla reynslu af fræðslu og námskeiðshaldi.
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.
Í leit að nýju starfi
Þegar við verðum atvinnulaus og förum að leita okkur að vinnu, þá hefst atvinnuleitin oft af krafti en fljótlega finnst okkur ekkert vera að ganga.
Við fáum engin svör og ef við fáum þau, þá eru þau neikvæð. Það fjarar oft fljótt undan okkur og við missum vonina. Við upplifum að við höfum reynt allt og að þetta allt sé það eina sem hægt er að gera.
Á þessu námskeiði er atvinnuleit skoðuð á nýjum og breiðari grunni en almennt gerist. Námskeiðið vekur fólk til umhugsunar um viðhorf sitt til vinnunnar, fjölskyldunnar, lífsins sjálfs og mikilvægi þess að lifa hamingjusamari í nútímanum en festast ekki í hinu liðna. Þekkingaröflun á að vera gefandi og skemmtileg og því er þetta námskeið byggt upp á dæmisögum, myndskeiðum og opnum og frjálslegum umræðum þar sem allar skoðanir fá að njóta sín.
Viljir þú auka líkurnar á að fá starf við þitt hæfi og öðlast aukið sjálfstraust í atvinnuviðtalinu er þetta námskeið sem hentar þér. Gerðu þér grein fyrir gildi jákvæðs viðhorfs og auktu sjálfstraust þitt, horfðu bjartari augum til framtíðar og láttu ekki ótta stoppa þig í því sem þig langar til að gera.
Námskeiðið er 24 klst.
Umsjón: Ásgeir Jónsson
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.
Markviss atvinnuleit 45+
Markviss atvinnuleit 45+ er námskeið fyrir atvinnuleitendur á aldrinum 45 – 63 ára, þar sem allar mögulegar leiðir í atvinnuleitinni eru kynntar. Sérstaklega er fjallað um þær hindranir sem mætt geta fólki á þessum aldri og hvernig sigrast má á þeim.
Hvernig er hægt að hanna umsóknargögn þannig að atvinnuleitendur á þessum aldri nái í gegn og komist í atvinnuviðtal? Hvernig má sigrast á mögulegum aldursfordómum og komast í starf þar sem hæfni, þekking og reynsla viðkomandi fær að njóta sín?
Valdeflandi áherslur og hvatning í atvinnuleitinni. M.a. er fjallað um styrkleikapróf, LinkedIn og atvinnuviðtalið.
Námskeiðið er 3 klst. og gefst atvinnuleitendum kostur á að bóka viðtal hjá ráðgjafa í lok námskeiðs, þar sem viðkomandi fær frekari aðstoð við atvinnuleitina.
Kennarar: Dröfn Haraldsdóttir og Edda Björk Viðarsdóttir, ráðgjafar hjá Vinnumálastofnun
Staður: Grensásvegur 9, 1.hæð
Lengd: 3 klukkustundir
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda
Starfsleitarstofa fyrir unga atvinnuleitendur 18-29 ára
Aðstoð við að gera ferilskrá, kynningarbréf og farið verður yfir atvinnuviðtalið ásamt því að koma auga á styrkleika, þekkingu og reynslu. Farið verður yfir tímastjórnun og hvernig nota má SMART markmið til að gera aðgerðarplan. Hagnýtar ráðleggingar og einstaklingum bent á verkfæri sem geta nýst vel í atvinnuleitinni.
- Kynningarbréf.
- Tímastjórnun.
- SMART markmið.
- Leiðir við að finna vinnu/nám.
- Atvinnuviðtalið.
Skipulag: 12 klst., 3 tímar í senn.
Leiðbeinandi: Sigrún Rós Elmers, B.Ed próf í kennarafræðum, nám í MA í náms- og starfsráðgjöf. Markþjálfi og Yoga Nidra kennari. Sigrún hefur góða reynslu í að vinna með einstaklingum sem eru í atvinnuleit og af námskeiðsskeiðshaldi. Hún hefur í sínum störfum verið með námsskeið og tekið þátt í að búa til námsefni.
Kennt er í sal Vinnumálastofnunar að Grensávegi 9, 108 Reykjavík.
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.
Vinnusmiðja hjá Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar
Lýsing á námskeiði:
Á námskeiðinu eru styrkleikar, gildi og viðhorf þátttakenda kortlögð. Áhugasviðsgreining er í boði fyrir þau sem vilja. Þátttakendur vinna að einstaklingsmarkmiðum og fá hópmarkþjálfun. Þátttakendur fá stuðning við undirbúning starfsleitar s.s. að gera ferilskrá (passamyndataka), kynningarbréf og skrá sig á netsíður vinnumiðlana. Fræðsla er um vinnuvernd og bæði horft til líkamsbeitingar og sálfélagslegrar vinnuverndar, líðan í vinnu. Þátttakendur fá stuðning og ráðgjöf við að undirbúa sig fyrir atvinnuviðtal og fá æfingarviðtal. Möguleiki á sérþjónustu s.s. einstaklingsviðtölum hjá markþjálfa, fjölskylduráðgjöf og WRI mati iðjuþjálfa (Worker Role Interview). Unnið er í hópum og ákveðið hópefli og jafningastuðningur sem felst í því að vinna saman að undirbúningi. Tvö einstaklingsviðtöl eru í boði fyrir hvern og einn.
Markmið:
Markmið er að undirbúa þátttakendur fyrir virka atvinnuleit og veita markvissan stuðning við það ferli að sækja um raunhæf störf. Annað markmið er að efla trú á eigin getu og öðlast aukið innsæi á eigin hæfileika og hagnýtingu þeirra m.t.t. atvinnuþátttöku.
Markhópur:
Námskeiðið er hugsað fyrir einstaklinga sem þurfa stuðning við að undirbúa sig fyrir atvinnuleit. Getur hentað þeim sem þurfa stuðning við að hafa nauðsynleg gögn tilbúin eða geta nýtt sér sjálfeflingu, hópefli/jafningastuðning til að taka næstu skref. Hentar einnig þeim sem glíma við skort á sjálfstrausti eða eru við það að gefast upp ef atvinnuleit hefur verið árangurlaus í 6 mánuði eða meira.
Ávinningur:
Þátttakendur hafa í lok námskeið öll gögn tilbúin og hafa skráð sig á vefsíðum vinnumiðlana ásamt því að hafa jafnvel sótt um störf. Þátttakendur öðlast einnig betra innsæi á eigin getu og hæfileikum sem hjálpar þeim að vera markvissari í atvinnuleitinni.
Staðsetning: Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar
Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is
Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.