Hér eru svör við spurningum varðandi ráðgjöf og stuðning fyrir atvinnuleitendur með skerta starfsgetu


Hverjir eiga rétt á ráðgjöf og stuðningi vegna skertrar starfsgetu?

Öryrkjar og einstaklingar sem búa við skerta starfsgetu og/eða skilgreinda fötlun og þurfa aðstoð við að fá vinnu á almennum vinnumarkaði.

Hverskonar ráðgjöf og stuðningur er í boði?

  • Starfsráðgjöf
  • Aðstoð við ferilskrágerð
  • Aðstoð við starfaleit/umsóknir
  • Undirbúningur fyrir atvinnuviðtal
  • Aðstoð í ráðningarferlinu
  • Kynning á vinnusamningi öryrkja þegar við á
  • Kynning á ýmsum virkniúrræðum
  • Eftirfylgd og stuðningur í starf (atvinna með stuðningi)

Hvernig er stuðningurinn?

Stuðningur er mismikill og fer eftir þörfum hvers og eins. Sumir þurfa eingöngu ráðgjöf og aðstoð við atvinnuleitina. Aðrir þurfa einnig stuðning og eftirfylgd í starf, sú þjónusta kallast atvinna með stuðningi.

 

Fyrir þá sem þurfa atvinnu með stuðningi er í boði að fá mikinn stuðning fyrstu dagana. Ráðgjafi getur fylgt starfsmanni til vinnu og verið honum innan handar. Eftirfylgdin minnkar eftir því sem færni og öryggi eykst en vinnuveitandi og starfsmaður hafa áfram aðgang að ráðgjafa eftir þörfum.

Hvernig fer starfaleitin fram?

Sótt er um störf á almennum vinnumarkaði þar sem atvinnuleitendur hafa sömu réttindi og skyldur og gilda á almennum vinnumarkaði. Hafi atvinnuleitendur tök á eru þeir hvattir til að taka þátt í atvinnuleitinni og fylgjast með atvinnuauglýsingum.

 

Hvernig er þjónustuferlið?

  • Sótt er um á heimasíðu Vinnumálastofnunar með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Smelltu hér til að fara á umsóknarsíðu.
  • Eftir að umsókn hefur borist hefur ráðgjafi samband. Í fyrsta viðtali er farið yfir helstu atriði sem atvinnuleitandi vill koma á framfæri og fyrstu kynni komast á.
  • Þá hefst atvinnuleit í samráði við umsækjanda sem er alltaf hvattur til að vera virkur í atvinnuleitinni.
  • Fyrsta skrefið í átt að atvinnu getur verið nokkra daga starfskynning. Með þeim hætti getur einstaklingurinn kynnt sér starf og yfirmenn mátað starfsmann við starf.
  • Engin binding felst í því þegar einstaklingur kemur í starfskynningu. Komi til ráðningar fær starfsmaður laun samkvæmt kjarasamningi.
  • Vinnumálastofnun veitir starfsmanni og vinnuveitanda stuðning, ráðgjöf og eftirfylgd eftir þörfum. Eftirfylgdin minnkar eftir því sem færni og öryggi eykst.

Hvað er vinnusamningur öryrkja?

  • Vinnumálastofnun er umsjónaraðili fyrir vinnusamning öryrkja sem er endurgreiðslusamningur.
  • Atvinnurekandi greiðir starfsmanni á vinnusamningi laun og skilar mánaðarlega inn launaseðlum í atvinnurekendagátt.
  • Vinnumálastofnun endurgreiðir atvinnurekanda þá hlutfall af launum og launatengdum gjöldum skv. gildandi samningi.
  • Endurgreiðsluhlutfallið er 75% fyrstu tvö ár í starfi, hlutfallið lækkar síðan um 10% á ári þar til 25 % lágmarks endurgreiðsluhlutfalli er náð.
  • Ráðgjafar Vinnumálastofnunar sjá um gerð samninganna.
  • Rétt er að hafa í huga að einstaklingur sem er kominn með vinnu getur haft samband við Vinnumálastofnun til að komast á vinnusamning ef hann óskar þess en endurgreiðslan er ekki afturvirk.

Hvað er vernduð vinna, hæfing og dagþjónusta?

Fatlað fólk sem þarf umfangsmeiri stuðning við að sinna almennum störfum getur sótt um verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun sem sniðin er að þörfum hvers og eins hvað varðar stuðning, tímalengd og verkefni.

Hvar er sótt um verndaða vinnu, hæfingu og dagþjónustu?

  • Vinnumálastofnun tekur á móti öllum umsóknum um verndaða vinnu, hæfingu og dagþjónustu á öllu landinu. Sótt er um þjónustuna á heimasíðu Vinnumálastofnunar með rafrænum skilríkjum eða Íslykli. Smelltu hér til að sækja um
  • Sérfræðingar Vinnumálastofnunar taka á móti umsóknum og afla nauðsynlegra upplýsinga í samráði við umsækjanda. Umsókn og greinargerð er send á sveitarfélag viðkomandi umsækjanda. Sveitarfélagið ákvarðar um þjónustu og svarar umsækjanda.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni