Launafólk - tímbundinn stuðningur til greiðslu launa
Tímabundinn stuðningur til greiðslu launa til starfsfólks sem getur ekki sinnt störfum sínum á starfsstöð í Grindavíkurbæ og launagreiðslur hafa verið felldar niður.
Spurt og svarað
Hverjir eiga rétt?
1. Hverjir eiga rétt á stuðningi til greiðslu launa?
Starfsfólk sem ekki getur sinnt störfum sínum á starfsstöð í Grindavíkurbæ og laun frá atvinnurekanda hafa verið felld niður.
2. Þarf ráðningarsamband milli atvinnurekanda og starfsfólks að vera til staðar?
Já ráðningarsamband þarf að vera til staðar þó svo að laun falli niður.
3. Ef ég sem starfsmaður fæ framfærslu annarsstaðar frá – á ég þá rétt á greiðslum?
- Réttur til greiðslu nær ekki til þeirra sem þiggja greiðslur samkvæmt öðrum lögum sem ætlaðar eru til framfærslu á sama tímabili og greiðslur samkvæmt lögunum ná til.
- Ef þú færð framfærslu í gegnum annað kerfi, getur verið að þú eigir ekki rétt á þessum greiðslum.
Þetta getur átt við vegna:- Greiðslur í veikindaleyfi
- Slysadagpeninga
- Sjúkradagpeninga
- Endurhæfingalífeyrir
- Fæðingarorlof. Ef þú ert í fæðingarorlofi á móti vinnu áttu rétt á stuðningi sem miðast af starfshlutfalli.
- Sorgarleyfi
- Ef þú ert með spurningar eða ert í vafa að þá skaltu hafa samband og við aðstoðum þig með næstu skref.
Skilyrði
1. Hver eru skilyrði fyrir stuðningi til starfsfólks vegna launa sem voru felld niður?
Skilyrði fyrir greiðslum eru:
- Að starfsfólk getur ekki sinnt störfum sínum á starfsstöð atvinnurekanda í Grindavíkurbæ vegna náttúruhamfara frá tímabilinu 11. nóvember til og með 30. júní 2024.
- Að atvinnurekandi hafi fellt launagreiðslur niður í kjölfar náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.
- Að fyrirtækið sem starfsmaður hefur starfað hjá sé á almennun vinnumarkaði í Grindavíkurbæ.
2. Þarf ég að eiga lögheimili í Grindavíkurbæ til að eiga rétt á þessum stuðningi?
Nei, skilyrði fyrir stuðningi er að starfsmaður hafi stundað vinnu á starfsstöð í Grindavíkurbæ og getur ekki sinnt starfi sínu vegna náttúruhamfara. Starfmaður þarf ekki að eigi fasta búsetu þar.
3. Á ég rétt á stuðning ef mér var sagt upp störfum?
Ef þér var sagt upp störfum kannt þú að eiga rétt á stuðningi út uppsagnafrestinn. Eftir það getur þú sótt um atvinnuleysisbætur. Við mælum með að þú kynnir þér þín réttindi. Réttur til atvinnuleysisbóta. Svo er alltaf gott að spyrja snjallemnnið okkar Vinny.
4. Á ég rétt á þessum stuðningi ef ég hóf störf í Grindavíkurbæ 1. nóvember og atvinnurekandi ætlar ekki að borga mér laun?
Nei, þá áttu ekki rétt á þessum stuðningi. Viðmið fyrir stuðning er að þú hafir verið í starfi frá ágúst mánuði til októbermánaðar. Ef þú fékkst engin laun greidd á því tímabili frá atvinnurekanda eiga lögin ekki við um þínar aðstæður en þú gætir átt rétt á atvinnuleysisbótum. Hér geturðu kynnt þér þín réttindi varðandi atvinnuleysisbætur. Réttur til atvinnuleysisbóta
5. Ég er í tveimur störfum í Grindavíkurbæ. Fæ ég stuðning fyrir bæði störfin?
- Já, þú sækir um stuðning fyrir bæði störfin á Mínum síðum atvinnuleitanda ef atvinnurekandi hefur fellt niður laun í báðum störfum.
- Ef annar atvinnurekandinn hefur fellt niður laun/störf, er nóg að sækja einungis um stuðning vegna þess atvinnurekanda.
6. Á ég rétt á stuðningi ef ég var í hlutastarfi?
Já þú átt rétt á stuðningi ef þú varst í hlutastarfi. Sótt er um á Mínum síðum atvinnuleitanda.
Mínar síður
7. Ég er í hlutastarfi og með örorkumat. Á ég rétt á stuðning?
Já, þú átt rétt á stuðningi og sækir um á Mínum síðum atvinnuleitanda.
8. Ég fékk aðra vinnu sem er ekki í Grindavíkurbæ og þarf því ekki lengur á stuðningi að halda, hvað geri ég þá?
Ef það er ekki lengur ráðningarsamband að þá áttu ekki lengur rétt á stuðningi. þá skaltu hafa samband við okkur. studningur@vmst.is
Umsóknarferli
1. Hvar sæki ég um stuðning til greiðslu launa?
- Þú sækir um á Mínum síðum atvinnuleitanda hjá Vinnumálastofnun.
Mínar síður
2. Hvenær get ég sótt um?
Þú getur sótt um núna.
Upphæðir
1. Við hvað miðast upphæðir stuðnings til starfsfólks sem sækir sjálft um stuðning?
Þegar starfsfólk sækir sjálft um stuðning er tekið mið af meðallaunum frá tímabilinu ágúst til október 2023. Vinnumálastofnun ráðstafar 4% af greiðslunni til lífeyrissjóðs. Jafnframt greiðir Vinnumálastofnun 11,5% mótframlag.
2. Hvaða upphæðir miðast við stuðninginn?
- Stuðningur til greiðslu miðast við almanaksmánuð og er hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil, til dæmis ef um er að ræða hálfan mánuð í starfi.
- Greiðslur geta aldrei verið hærri en 633.000 kr. miðað við heilan almanaksmánuð auk fjárhæðar sem nemur 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð sem er samtals 705.795 kr.
3. Hvað gerist ef starfsfólk var fellt af launaskrá rétt eftir rýminguna?
- Ef starfsfólk var fellt af launaskrá atvinnurekanda t.d. 15. nóvember taka greiðslur mið af meðallaunum starfsmanns og því tímabili sem starfsmaður var launalaus.
- Dæmi: Hafi starfsmaður verið með meðallaun sem eru 600.000 kr. nemur greiðsla til hans 300.000 kr., Þá er gert ráð fyrir að við það bætist 11,5%, af þeirri fjárhæð sem Vinnumálastofnun greiðir vegna mótframlags í lífeyrissjóð (600.000.- * 0,5 = 300.000)
Greiðslur
1. Við hvað miðast greiðslur?
- Greiðslur taka mið af þeim degi sem atvinnurekandi ákvað að stöðva launagreiðslur.
- Greiðslur geta í fyrsta lagi hafist frá og með 11. nóvember 2023.
2. Hvenær er þessi stuðningur greiddur út?
- Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að útborgun greiðslna verði fyrsta virka dag í mánuði.
3. Er greitt í stéttarfélag með þessum stuðningi?
- Nei, lög um tímabundinn stuðning gera ekki ráð fyrir greiðslum í stéttarfélag. Vinnumálastofnun hvetur umsækjendur til að leita til síns stéttarfélags til að fá nánari upplýsingar um áframhaldandi greiðslur.
4. Þarf ég að greiða staðgreiðslu skatta af stuðningnum?
- Já, þú þarft að greiða staðgreiðslu af stuðningnum.
- Þú getur óskað eftir að Vinnumálastofnun nýti persónuafslátt þinn við útborgun á greiðslum. Það gerir þú á Mínum síðum.
- Athugaðu að Vinnumálastofnun gerir ekki ráð fyrir að nýta persónuafslátt vegna greiðslu fyrir nóvember 2023.
Hafa samband
- Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið studningur@vmst.is.
- Símatímar:þjónustuvers vegna stuðnings til greiðslu launa er: mánudaga til fimmtudaga milli kl. 9-11, í síma 531 7141.
- Einnig verður hægt að fá ráðgjöf og upplýsingar í Þjónustumiðstöð Grindavíkur í Tollhúsinu.
- Þá getur Snjallmennið Vinny svarað spurningum varðandi stuðning til greiðslu launa. Vinny