Minnkað starfshlutfall

Alþingi hefur samþykkt frumvarp, félags- og barnamálaráðherra, um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda. Lögin fela í sér að laun sem greidd eru samhliða minnkuðu starfshlutfalli koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun hefur umsjón með umsóknum um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls.


Frá hvaða tíma tekur nýtt frumvarp gildi og hvað gildir það lengi?

Umsóknir um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfall munu gilda afturvirkt frá þeim degi sem starfshlutfall var minnkað, allt aftur til 15. mars 2020. Lögin gilda til 1. júní 2020. Á þetta bæði við um launamenn og sjálfstætt starfandi.

Hvar og hvernig get ég sótt um?

Launamaður sem minnka þarf starfshlutfall sækir um greiðslur frá Vinnumálastofnun á þar til gerðri umsókn á mínum síðum atvinnuleitenda. Atvinnurekandi skilar inn staðfestingu á breyttu starfshlutfalli og áætlun um mánaðartekjur launamanns á mínum síðum atvinnurekenda.

 

Hvaða upplýsingar þarf ég sem launamaður að hafa til að geta sótt um?

Fyrir utan að veita almennar persónuupplýsingar um sjálfa/n þig s.s. símanúmer, netfang og bankanúmer þarft þú að tryggja að þú vitir hvað atvinnurekandi þinn heitir í fyrirtækjaskrá Skattsins.

Í umsókn vegna minnkað starfshlutfalls birtir Vinnumálastofnun í fellilista upplýsingar um þá aðila sem hafa greitt þér laun á síðustu sex mánuðum. Fyrirtæki heita stundum öðrum nöfnum í fyrirtækjaskrá Skattsins en þau ganga undir dags daglega. Það getur því verið að nafnið sem þú sérð í listanum yfir launagreiðendur í umsókn þinni sé ekki endilega það sama og það nafn sem fyrirtækið gengur dags daglega undir.

Vinnumálastofnun býr ekki yfir nánari upplýsingum um þessi fyrirtæki umfram upplýsingar í fyrirtækjaskrá Skattsins. Þú þarft því að hafa samband við þinn atvinnurekanda í þeim tilgangi að fá þessar upplýsingar frá honum til þess að getað valið réttan launagreiðanda.

Hafir þú ekki fengið greidd laun frá atvinnurekanda þínum á síðustu sex mánuðum birtist hann ekki í fellilistanum yfir launagreiðendur. Í því tilfelli skalt þú velja síðasta launagreiðanda sem birtist í listanum og senda tölvupóst á greidslustofa@vmst.is. Í þeim tölvupósti þarf að koma fram kennitala þín og upplýsingar um núverandi atvinnurekanda.

Hvernig skilar atvinnurekandi inn nauðsynlegum gögnum?

Atvinnurekendur þurfa að skila inn staðfestingu á minnkuðu starfshlutfalli í gegnum mínar síður atvinnurekenda á vef Vinnumálastofnunnar.

Athugið að til þess að atvinnurekandi geti skilað inn staðfestingu þarf launamaður að vera búin að sækja um minnkað starfshlutfall. Eftir það staðfestir atvinnurekandi minnkað starfshlufall. 

Til að skrá sig inn á mínar síður atvinnurekenda þarf atvinnurekandi að hafa Íslykil eða rafræn skilríki fyrir atvinnurekstur sinn. Upplýsingar um hvernig atvinnurekandi getur nálgast Íslykil eða rafræn skilríki fyrir sinn atvinnurekstur má nálgast hér:

https://vefur.island.is/islykill/  

https://www.skilriki.is/

Ef atvinnurekandi þarf að veita umboð að þá eru hér leiðbeiningar varðandi það:

Atvinnurekandi þarf að staðfesta að þær upplýsingar sem starfsmaður hans hefur veitt í umsókn sinni séu réttar sem og skrá inn áætluð mánaðarlaun starfsmanns í minnkuðu starfshlutfalli.

Nánari útfærsla

Þegar starfshlutfall launamanns er lækkað um 20 prósentustig hið minnsta en þó ekki neðar en í 25% koma þær tekjur sem hann fær vegna hins minnkaða starfs ekki til skerðingar atvinnuleysisbóta.

 Greiðslur frá Vinnumálastofnun nema tekjutengdum atvinnuleysisbótum í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá atvinnurekanda og greiðslur atvinnuleysisbóta geta þó samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns og aldrei meira en 700.000 kr. Mánaðarlaun fyrir 100% starf upp að 400.000 kr. eru tryggð að fullu.

Réttur úr Ábyrgðasjóði launa

Komi til þess að atvinnurekandi fari í gjaldþrot heldur launamaður rétti sínum til greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa miðað við fyrra starfshlutfall.

Hvar finn ég lagaákvæðin?

Bráðabirgðaákvæðin má nálgast á vef Alþingis hér: https://www.althingi.is/altext/150/s/1173.html


Spurt og svarað vegna minnkaðs starfshlutfalls

Vantar þig svör við spurningum vegna minnkaðs starfsfhlutfalls í tengslum við COVID-19?


Smelltu þá hér. Við höfum safnað saman spurningum og svörum sem gæti komið þér að góðum notum. 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.