Hlutabótaleið/Minnkað starfshlutfall

Hlutabótaleiðin gilti frá 15. mars 2020 til 31. maí 2021. Úrræðið er því útrunnið en fyrirtæki sem voru með starfsmenn á hlutabótum í apríl og maí 2021 geta sótt um styrk vegna aukningar á starfshlutfalli. 

Hlutabótaleiðin er sérstök tegund atvinnuleysisbóta í þeim tilfellum sem atvinnurekandi og starfsmaður gera með sér tímabundið samkomulag um minnkað starfshlutfall. Starfsmaðurinn getur svo sótt um og fengið greiddan styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem samsvarar hinu skerta starfshlutfalli.

Megintilgangur hlutabótaleiðarinnar er að aðstoða og gera atvinnurekendum og starfsmönnum þeirra, kleift að viðhalda ráðningarsambandi. Hlutabótaleiðin felur í sér að laun, að ákveðinni upphæð, sem greidd eru samhliða minnkuðu starfshlutfalli koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum.

Almennar upplýsingar


Hvar og hvernig er sótt um?

Launamaður sem minnka þarf starfshlutfall sækir um greiðslur frá Vinnumálastofnun  á mínum síðum atvinnuleitenda.
Smelltu hér til að fara á Mínar síður atvinnuleitanda.

Atvinnurekandi skilar inn staðfestingu á breyttu starfshlutfalli og áætlun um mánaðartekjur launamanns á mínum síðum atvinnurekenda.
Smelltu hér til að fara á Mínar síður atvinnurekanda.

 

Hvað gildir hlutabótaleiðin lengi?

Úrræðið um greiðslur atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli (hlutabætur) gildir til 31. maí 2021

Réttur úr Ábyrgðasjóði launa

Komi til þess að atvinnurekandi fari í gjaldþrot heldur launamaður rétti sínum til greiðslna úr Ábyrgðasjóði launa miðað við fyrra starfshlutfall.

Eftirlit, viðurlög og endurgreiðslukröfur

Vinnumálastofnun er veitt heimild til að krefjast nánari staðfestingar og gagna frá atvinnurekanda. 

Ef atvinnurekandi uppfyllir ekki skilyrðin að ofan á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2022 skal hann endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði þær atvinnuleysisbætur sem launamenn hans hafa fengið greiddar í minnkuðu starfshlutfalli að viðbættu 15% álagi. 

Einstaklingur eða lögaðili sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema brot megi teljast minni háttar. 

Nánari upplýsingar um lagabreytingar má finna á vef Alþingi, smelliðá eftirfarandi tengil til að nálgast lögin:  https://www.althingi.is/altext/150/s/1570.html 

Hvar finn ég lagaákvæðin?

Lög um atvinnuleysistryggingar má nálgast á vef Alþingis hér: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2006054.html

 


Launamaður


Hvernig sæki ég um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls?

Þú sækir um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls á Mínum síðum atvinnuleitenda. 
Smelltu hér til að fara á Mínar síður atvinnuleitanda.

Hvaða upplýsingar þarf ég sem launamaður að hafa til að geta sótt um?

Fyrir utan að veita almennar persónuupplýsingar um sjálfa/n þig s.s. símanúmer, netfang og bankanúmer þarft þú að tryggja að þú vitir hvað atvinnurekandi þinn heitir í fyrirtækjaskrá Skattsins.

Í umsókn vegna minnkað starfshlutfalls birtir Vinnumálastofnun í fellilista upplýsingar um þá aðila sem hafa greitt þér laun á síðustu sex mánuðum. Fyrirtæki heita stundum öðrum nöfnum í fyrirtækjaskrá Skattsins en þau ganga undir dags daglega. Það getur því verið að nafnið sem þú sérð í listanum yfir launagreiðendur í umsókn þinni sé ekki endilega það sama og það nafn sem fyrirtækið gengur dags daglega undir.

Vinnumálastofnun býr ekki yfir nánari upplýsingum um þessi fyrirtæki umfram upplýsingar í fyrirtækjaskrá Skattsins. Þú þarft því að hafa samband við þinn atvinnurekanda í þeim tilgangi að fá þessar upplýsingar frá honum til þess að getað valið réttan launagreiðanda.

Hafir þú ekki fengið greidd laun frá atvinnurekanda þínum á síðustu sex mánuðum birtist hann ekki í fellilistanum yfir launagreiðendur. Í því tilfelli skalt þú velja síðasta launagreiðanda sem birtist í listanum og senda tölvupóst á greidslustofa@vmst.is. Í þeim tölvupósti þarf að koma fram kennitala þín og upplýsingar um núverandi atvinnurekanda.

Hvernig nýti ég persónuafslátt minn?

Ef þú ætlar að nýta persónuafslátt þinn  vegna minnkaðs starfshlutfalls að þá ferðu á mínar síður og fyllir út  upplýsingar um nýtingu persónuafsláttar.

Nýting persónuafsláttar

Þarf ég að staðfesta að ég sé í minnkuðu starfshlutfalli?

Já, þú þarft að staðfesta að þú sért í minnkuðu starfshlutfalli á mínum síðum atvinnuleitanda milli 20. og 25. hvers mánaðar á meðan þú ert í þessu úrræði.

Hvernig eru greiðslur vegna hlutabótaleiðar/minnkaðs starfshlutfalls reiknaðar:

Hér er dæmi um forsendur útreikninga vegna hlutabótaleiðar/minnkaðs starfshlutfalls:

Af hverju hef ég ekki fengið greitt?

Ef þú fékkst ekkert greitt, þá eru miklar líkur á því að:

  • Atvinnurekandi þinn eigi eftir að staðfesta samkomulagið inni á Mínum síðum atvinnurekenda.
  • Upplýsingar um það hvort atvinnurekandi hafi staðfest samkomulag ykkar getur þú séð inni í Samskiptasögu á Mínum síðum atvinnuleitenda.

EÐA

  • Tekjur sem atvinnurekandi þinn gefur upp hafi skert atvinnuleysisbætur þínar að fullu.
  • Upplýsingar um þær tekjur sem atvinnurekandi þinn gaf upp er að finna á greiðsluseðli inni Mínum síðum atvinnuleitanda.
  • Hafir þú fengið greiðslu en finnur ekki greiðsluseðilinn inn á mínum síðum þá er kerfið að útbúa seðlana og hann mun birtast á vefnum innan skamms.

Getur verið að ég hafi fengið of lítið greitt?

Teljir þú þig hafa fengið of lítið greitt skalt þú hafa eftirfarandi atriði í huga:

  • Fjárhæð atvinnuleysisbóta getur aldrei orðið hærri en 342.303 kr. fyrir starfshlutfall sem minnkar um 75%.
    • Starfshlutfall sem minnkar um 50% þá er hámarksfjárhæðin 228.202 kr.
    • Starfshlutfall sem minnkar um 25% þá er hámarksfjárhæðin 114.050 kr.
    • Starfshlutfall sem minnkar um 20% þá er hámarksfjárhæðin 91.280 kr.
  • Laun sem þú fékkst útborguð fyrir vinnu þína gætu hafa lækkað atvinnuleysisbætur þínar þar sem samanlagðar bætur og laun mega ekki vera:
    • Hærri fjárhæð en 90% af meðaltekjum þínum síðustu þrjá mánuði.
    • Hærri fjárhæð en 700.000 kr.
    • Hærri fjárhæð en 100% af meðaltekjum síðustu þriggja mánaða fyrir 100% starf séu meðaltekjur 400.000 kr. eða lægri.
  • Upplýsingar um þær tekjur sem atvinnurekandi þinn gaf upp fyrir minnkað starfshlutfall og meðaltekjur þínar síðustu þrjá mánuði er að finna á greiðsluseðli þínum inni á Mínum síðum atvinnuleitanda.

Demo launasedill vegna apríl 2020

Nýttir þú persónuafslátt þinn?

Komi fram á greiðsluseðli þínum á mínum síðum að persónuafsláttur sé 0 kr. þá hefur þú ekki óskað eftir því að nýta persónuafslátt þinn vegna greiðslna atvinnuleysisbóta. Þú getur farið inn á mínar síður atvinnuleitanda og valið þar "Nýting persónuafsláttar" til að óska eftir að hann sé nýttur hjá Vinnumálastofnun.

Nýting persónuafsláttar

Mun þá greiðsla vegna síðasta mánaðar verða leiðrétt að teknu tilliti til beiðni þinnar um nýtingu persónuafsláttar.

Fékkst þú skuldajöfnun?

  • Ef kemur fram á greiðsluseðli þínum fyrir maí Skuldajöfnun v/ofgreiðslna atvinnuleysis þá hefur þú fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur í apríl, annaðhvort vegna ótilkynntra greiðslna eða hærri launa vegna minnkaðs starfshlutfalls en tekjuáætlun þín gaf til kynna 
  • Á greiðsluseðlinum kemur fram upphæð ofgreiddra atvinnuleysisbóta undir liðnum: Greiðslutímabilið apríl 2020 og í línunniSkuld v/ofgreiðslna atvinnuleysisbóta.
  • Línan: Skerðing v/tekna þýðir að þú hafir haft tekjur annarsstaðar frá í apríl mánuði sem Vinnumálastofnun vissi ekki af. 
  • Línan: Skerðing v/hámarksreglna þýðir að laun þín í minnkuðu starfshlutfalli hafi verið hærri en tekjuáætlun gaf til kynna.  
  • Skuldajöfnuður fyrir maí mánuð er aldrei meira en 25% af heildargreiðslum bóta fyrir maí mánuð.
  • Hægt er að kynna sér reglur um hvað skerðir atvinnuleysisbætur hér: https://www.vinnumalastofnun.is/atvinnuleitandi/fjarhaedir-og-greidslur-atvinnuleysisbota/skerding-atvinnuleysisbota 
  • Athugið að skuld verður ekki innheimt með álagi.
  • Skuld við Vinnumálastofnun er reiknuð á eftirfarandi hátt:  

Áætlun + frítekjumark =  0 + 71.262 kr. = 71.262 kr. 
Drögum þá upphæð frá rauntekjum, 666.666 kr. – 71.262 kr. = 595.404 kr. 
Deilum þeirri upphæð í tvennt (sbr. skerðingarreglunni 50 aurar á móti hverri krónu) og fáum út 297.702 kr. Sjá: 

Dæmi um skuldamyndun

Í línunni skuld v. ofgreiðslna atvinnuleysisbóta er upphæðin 181.785 kr.  Þessi tala er fengin með  því að draga 115.917 kr frá 297.702 kr.  
115.917 kr eru ofgreiddir frádráttarliðir frá síðasta launaseðli (lífeyrissjóður, verkalýðsfélög og skattur).  

Viðkomandi skuldar því 181.785 kr. kr og verður 25% af greiðslu vegna maí mánaðar dregin frá til innborgunar á þá skuld og kemur á greiðsluseðli sem „Skuldajöfnun v/ofgreiðslna atvinnuleysis 

  • Teljir þú að tekjurnar sem  um ræðir eigi ekki að skerða þá skal skila gögnum þess efnis á Mínar síður atvinnuleitenda. Þú smellir þar áSkila gögnum og hleður viðeigandi gögnum upp. Eingöngverður tekið við beiðnum um endurskoðun á skuld í gegnum mínar síður.  Leiðrétting getur tekið um tvo til  þrjá mánuði hjá Greiðslustofu. Sjá hvernig gögnum er skilað:

Beiðni um breytt viðmiðunartímabil tekna:

Einstaklingar sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli geta óskað eftir því að miðað sé við annað tímabil við útreikning á viðmiðunartekjum sínum. Hægt verður að óska eftir að miðað sé við tekjur eftir eftirfarandi reglum: 

  1. Meðaltal mánaðarlauna fyrir árið 2019. 
  1. Að miðað sé við þær tekjur sem lágu til grundvallar útreikningi á fæðingarorlofi ef viðkomandi fékk greitt fæðingarorlof á þriggja mánaða viðmiðunartímabilinu eða 
  1. Að miðað sé við tekjur viðkomandi, sem er í foreldraorlofi, síðustu þrjá mánuðina áður en farið var í foreldraorlof. 

Er hægt að sækja um minnkað starfshlutfall óháð aldri?

Já, þeir sem hafa ekki náð 18 ára aldri og þeir sem eru eldri en 70 ára eiga rétt á að sækja um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Vinnumálastofnun hvetur alla þá sem telja sig eiga rétt á þessu úrræði og hafa ekki sótt um eða fengið synjun að sækja um minnkað starfshlutfall á mínum síðum atvinnuleitanda.


Atvinnurekandi


Hvernig skilar atvinnurekandi inn nauðsynlegum gögnum?

Atvinnurekendur þurfa að skila inn staðfestingu á minnkuðu starfshlutfalli í gegnum mínar síður atvinnurekenda á vef Vinnumálastofnunnar.

Athugið að til þess að atvinnurekandi geti skilað inn staðfestingu þarf launamaður að vera búin að sækja um minnkað starfshlutfall. Eftir það staðfestir atvinnurekandi minnkað starfshlufall. 

Til að skrá sig inn á mínar síður atvinnurekenda þarf atvinnurekandi að hafa Íslykil eða rafræn skilríki fyrir atvinnurekstur sinn. Upplýsingar um hvernig atvinnurekandi getur nálgast Íslykil eða rafræn skilríki fyrir sinn atvinnurekstur má nálgast hér:

https://vefur.island.is/islykill/  

https://www.skilriki.is/

Ef atvinnurekandi þarf að veita umboð að þá eru hér leiðbeiningar varðandi það:

Atvinnurekandi þarf að staðfesta að þær upplýsingar sem starfsmaður hans hefur veitt í umsókn sinni séu réttar sem og skrá inn áætluð mánaðarlaun starfsmanns í minnkuðu starfshlutfalli.

Ég er atvinnurekandi og þarf að leiðrétta staðfestingar vegna umsókna um minnkað starfshlutfall. Hvað geri ég?

Atvinnurekendur geta nú farið inn og leiðrétt þegar innsendar staðfestingar vegna umsókna um minnkað starfshlutfall. 

skýringarmynd vegna minnkaðs starfshlutfalls

Sé smellt á „leiðrétta“ breytist línan úr því að vera grá og verður hvít og er þá hægt að leiðrétta þegar innsendar staðfestingar. Eftir að leiðrétting hefur verið gerð er smellt á „Staðfesta“.

skýringarmynd vegna staðfestingar

Þegar starfsmaður snýr aftur til starfa í fyrra starfshlutfall þá er smellt á „Afturkalla“ og dagsetningin á þeim degi þegar starfsmaður fór aftur í fyrra starfshlutfall valin. Í kjölfarið er smellt á „Staðfesta“.

Breyting á starfshlutfalli

Hafi starfshlutfall starfsmanns breyst á tímabilinu, þ.e. frá tiltekinni dagsetningu er starfsmaður í hærra/lægra starfshlutfalli, þá er smellt á „nýtt starfshlutfall“ og birtist þá ný lína fyrir neðan fyrri skráningu. Er þá hægt að skrá inn upplýsingar um hið uppfærða starfshlutfall og áætlaðar tekjur. Í kjölfarið er smellt á „Staðfesta“.

Staðfesting

Nánari útfærsla á leiðréttingum vegna staðfestingar

Þegar starfshlutfall launamanns er lækkað um 20 prósentustig hið minnsta en þó ekki neðar en í 50% koma þær tekjur sem hann fær vegna hins minnkaða starfs ekki til skerðingar atvinnuleysisbóta.

 Greiðslur frá Vinnumálastofnun nema tekjutengdum atvinnuleysisbótum í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Þær geta aldrei numið hærri fjárhæð en 342.303 kr. Laun frá atvinnurekanda og greiðslur atvinnuleysisbóta geta þó samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns og aldrei meira en 700.000 kr. Mánaðarlaun fyrir 100% starf upp að 400.000 kr. eru tryggð að fullu.

Hvaða skilyrði þarf atvinnurekandi að uppfylla?

Frá og með 1. júní 2020 skulu atvinnurekendur staðfesta á mínum síðum (smelltu hér til að fara á mínar síður) neðangreind skilyrði um nýtingu hlutabótaleiðar.  

  1. Meginreglan er sú að atvinnurekandi þurfi að bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 1. til 3. tölul. og 6. til 8. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.Nánari upplýsingar um ótakmarkaða skattskyldu er hægt að finna á vefsíðu Skattsins, vegna einstaklinga og vegna lögaðila. 
    Þetta skilyrði þýðir að starfsmenn óskattskyldra aðila, eins og t.d. sveitarfélaga og ríkisstofnana o.fl. eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Hins vegar eiga starfsmenn lögaðila sem falla undir 4.og 5. tölul., þ.e. lögaðilar sem verja hagnaði sínum einungis til almannaheilla og hafa það að einasta markmiði sínu samkvæmt samþykktum sínum og félög, sjóðir og stofnanir sem ekki reka atvinnu eiga núna rétt á hlutabótum á móti minnkuðu starfshlutfalli.
  2. Meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda frá 15. mars 2020 og til þess dags sem starfsmaður sækir um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls, hafi lækkað um a.m.k. 25%Miðað er við tekjufall frá meðal mánaðartekjum á einhverju af eftirfarandi tímabilum:
  • meðaltal mánaðartekna sama tímabils árið 2019,
  • 1.júní til 31. ágúst 2019. 
  • 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020. 
  • 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020. 

Með tekjum er átt við allar skattskyldar tekjur í rekstrinum að frátöldum hagnaði af sölu rekstrareigna. 

Nánari upplýsingar um tekjur rekstraraðila er hægt að sjá í leiðbeiningum með rekstrarframtali á eftirfararandi tengli á vef Skattsins (bls. 14-15 og 23-24). 

3. Hann muni ekki á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2022: 

  • Ákvarða úthlutun arðs.  
  • Lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa.  
  • Kaupa eigin hlutabréf. 
  • Inna af hendi aðra greiðslu til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans. 
  • Greiða óumsaminn kaupauka. 
  • Greiða af víkjandi láni fyrir gjalddaga. 
  • Veita eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna. 
  • Greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nema hærri fjárhæð en 3.000.000 kr. til hvers og eins. 

    4. Hann hafi staðið í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld á þeim degi er launamaður sækir um atvinnuleysisbætur.
     

    5. Hann hafi staðið skil á skattframtali og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum og upplýst um raunverulega eigendur. 

Eftirlit, viðurlög og endurgreiðslukröfur

Vinnumálastofnun er veitt heimild til að krefjast nánari staðfestingar og gagna frá atvinnurekanda. 

Ef atvinnurekandi uppfyllir ekki skilyrðin að ofan á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2022 skal hann endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði þær atvinnuleysisbætur sem launamenn hans hafa fengið greiddar í minnkuðu starfshlutfalli að viðbættu 15% álagi. 

Einstaklingur eða lögaðili sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veitir Vinnumálastofnun rangar eða ófullnægjandi upplýsingar skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema brot megi teljast minni háttar. 

Nánari upplýsingar um lagabreytingar má finna á vef Alþingi, smelliðá eftirfarandi tengil til að nálgast lögin:  https://www.althingi.is/altext/150/s/1570.html 


Ertu launamaður?

Ertu launamaður og ætlar að sækja um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli? 
Smelltu þá hér til að fara á Mínar síður atvinnuleitanda.

Ertu atvinnurekandi?

Ertu atvinnurekandi og ætlar að sækja um greiðslur vegna hlutabótaleiðarinnar/minnkaðs starfshlutfalls? 
Smelltu hér til að fara á Mínar síður Atvinnurekenda

Viltu vita meira?

Smelltu þá á myndina hér að neðan en þar er hægt að finna svör við ýmsum spurningum sem tengjast hlutabótaleiðinni/minnkuðu starfshlutfalli.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni