Greiðslur í sóttkví

Vinnumálastofnun annast framkvæmd laga um tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví. Markmið laganna er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, s.s. veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með þessu móti er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Lögin taka til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2021. Launamenn sem hafa sætt sóttkví en hafa ekki fengið greidd laun frá atvinnurekanda sínum fyrir þann tíma geta einnig sótt um greiðslur á grundvelli laganna. Auk þess geta sjálfstætt starfandi einstaklinga sótt um greiðslur. Umsóknir um greiðslur skulu berast Vinnumálastofnun fyrir 31. mars 2022. Eftir þá dagsetningu fellur réttur til greiðslu niður.

Skilyrði fyrir greiðslum

Skilyrði fyrir greiðslum eru m.a. að einstaklingur hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að hann hafi ekki getað sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti þaðan sem hann sætti sóttkví. Í lögunum er almennt gert ráð fyrir því að sóttkví vari í 14 daga og er ákveðin hámarksfjárhæð greiðslu fyrir hvern starfsdag sem einstaklingur sætti sóttkví. Vekur stofnunin athygli á að einungis er greitt fyrir þá starfsdaga sem viðkomandi hefði átt að vera við störf. Opnað var fyrir umsóknir um greiðslur í sóttkví þann 5. maí 2020.


Umsókn um greiðslur í sóttkví

Athugið að hægt er að sækja um greiðslur í sóttkví eftir 15. dag næsta mánaðar eftir að sóttkví lauk.

Launþegar og sjálfstætt starfandi einstaklingar sækja um um greiðslur  á mínum síðum atvinnuleitanda. Atvinnurekendur sækja um greiðslur í gegnum mínar síður atvinnurekenda. Atvinnurekendur sem ætla sér að sækja um greiðslur þurfa því að verða sér úti um Íslykil eða rafræn skilríki fyrir atvinnurekstur sinn. Það mun auðvelda og tryggja öryggi við skil á upplýsingum sem atvinnurekendur munu þurfa að senda Vinnumálastofnun. Hér má nálgast upplýsingar um Íslykil, sjá https://vefur.island.is/islykill/, eða rafræn skilríki, sjá https://www.skilriki.is/

Frestun á afgreiðslu umsókna um greiðslur í sóttkví

Vinnumálastofnun hefur tímabundið frestað frekari úrvinnslu á umsóknum um greiðslur vegna launa í sóttkví.

Er það gert þar sem réttaróvissa hefur skapast um þær reikningsforsendur sem stofnunin hefur lagt til grundvallar við ákvörðun greiðslna til umsækjenda.  Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur sem stendur mál er snýr að ofangreindri framkvæmd til meðferðar. Hefur stofnunin óskað eftir að málið njóti flýtimeðferðar hjá nefndinni með hliðsjón af þeim. Vonast stofnunin eftir að úrskurður liggi fyrir á allra næstu vikum og dráttur á úrvinnslu umsókna verði þar með óverulegur.

Þegar þau atriði, er vafi stendur um, liggja fyrir mun úrvinnsla umsókna og greiðslur verða settar í forgang hjá stofnuninni.

Fyrirvari vegna útreiknings á greiðslum í sóttkví

Með úrskurði þann 15. desember sl. var ákvörðun Vinnumálastofnunar um greiðslur í sóttkví felld úr gildi af Úrskurðarnefnd velferðarmála. Málið varðaði greiðslur vegna starfsmanns, sem gert var að sæta sóttkví og sinnti hlutastarfi.

Vinnumálastofnun telur að úrskurðarorð nefndarinnar gefi ekki ótvíræða niðurstöðu um hvernig túlka beri ákvæði laganna þegar reiknaðar eru greiðslur vegna starfsmanna sem skipað hefur verið í sóttkví. Til athugunar er hvernig bregðast skuli við úrskurði nefndarinnar, hvort draga megi þá ályktun af niðurstöðunni að hún eigi við um alla starfsmenn, einungis þá sem eru í hlutastörfum eða hvort niðurstaðan sé bundin við þetta tiltekna mál.  

Um leið og skýr niðurstaða liggur fyrir mun Vinnumálastofnun hafa samband við þá umsækjendur sem kunna að eiga rétt á endurgreiðslu á grundvelli niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.

 

 

Spurt og svarað vegna greiðslna í sóttkví

Spurt og svarað

Vantar þig svör við spurningum í tengslum við greiðslur í sóttkví. 

Smelltu þá hér. Við höfum safnað saman spurningum og svörum sem gæti komið þér að góðum notum. 

Fyrirspurnir vegna umsókna má senda á sottkvi@vmst.is

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

, má bjóða þér að prófa að spjalla við Vinný, nýtt snjallmenni Vinnumálastofnunar?
Vinný snjallmenni