Spurt og svarað vegna greiðslna í Sóttkví

Lög nr.24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera veikir.

Hér höfum við safnað saman spurningum og svörum vegna COVID-19.

1 Skilyrði fyrir greiðslum í sóttkví:


1. Hverjir geta átt rétt á greiðslum í sóttkví?

Þeir sem geta átt rétt á greiðslum samkvæmt lögunum eru:

  • Atvinnurekendur sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2022.

  • Launafólk sem sætt hefur sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda.
  • Sjálfstætt starfandi einstaklingar sem sæta sóttkví á sama tímabili.
  • opinberir starfsmenn og starfsmenn sveitarfélaga falla ekki undir úrræðið.

2. Hvað er átt við með beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda?

Með beinum fyrirmælum er átt við fyrirmæli/fyrirskipun frá Embætti landlæknis um að sæta sóttkví.

Ekki er átt við almennar leiðbeiningar Landlæknis eða fyrirmæli um samkomubann.

3. Hver eru skilyrði fyrir greiðslum til fyrirtækja vegna sóttkví starfsmanna?

Skilyrði fyrir greiðslum eru að:

  • Starfsmaður eða barn í hans forsjá hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.
  • Atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann eða barn í hans forsjá sætti sóttkví.
  • Starfsmaður hafi ekki getað sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti þaðan sem hann sætti sóttkví eða að önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað.

4. Hver eru skilyrði fyrir greiðslum vegna launataps launafólks í sóttkví?

Heimilt er að greiða launafólki launatap ef það hefur ekki fengið greidd laun vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda.

Skilyrði fyrir greiðslum skv. lögunum eru að:

  • launamaður eða barn í hans forsjá hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda,
  • launamaður hafi ekki getað sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti þaðan sem hann sætti sóttkví 
  • önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað.

Vinnumálastofnun hefur heimild til að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd og upplýsingum um ástæður þess.

5.Hver eru skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga í sóttkví?

Skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga eru að:

  • Hinn sjálfstætt starfandi einstaklingur eða barn í hans forsjá hafi sætt sóttkví.
  • Hann hafi ekki getað sinnt vinnu sinni að öllu leyti eða að hluta þaðan sem hann sætti sóttkví eða önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að hinn sjálfstætt starfandi hafi getað unnið störf sín.

    Önnur skilyrði fyrir greiðslum eru:
  • Að hinn sjálfstætt starfandi hafi verið með opinn rekstur.
  • Hann hafi staðið skil á greiðslum tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi skv. ákvörðun skattyfirvalda a.m.k. þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag eða með öðrum reglulegum hætti skv. fyrirmælum ríkisskattstjóra.

6. Hver er munurinn á vottorði heimilislæknis og vottorði sóttvarnarlæknis?

Heimilislæknir og/eða aðrir læknar geta gefið út veikindavottorð til skjólstæðinga sinna vegna fjarvista úr skóla eða vinnu. Útgáfa slíkra vottorða er hins vegar ekki staðfesting á því að einstaklingur hafi sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.

Vottorð sóttvarnarlæknis eru veitt til einstaklings sem hefur verið fyrirskipað að sæta sóttkví skv. beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þ.e. af almannavörnum eða sóttvarnarlækni og er það tilgreint á vottorði. Þeir sem hafa sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda geta sótt slík vottorð inn á https://www.heilsuvera.is/.

Athugið að ekki eru gefin út vottorð vegna skimunarsóttkvíar.

7. Hvað er átt við með heimkomusmitgát?

Heimkomusmitgát felur í sér að viðkomandi þarf að halda sér til hlés og ekki vera innan um fleiri en nauðsyn krefur. Sá sem viðhefur heimkomusmitgát má t.a.m. ekki fara í vinnu, á mannamót eða í veislur þar sem fleiri en tíu manns eru saman komnir.

8. Eiga einstaklingar rétt á greiðslum í sóttkví ef þeir voru að koma erlendis frá og fara í skimunarsóttkví?

Ekki kemur til greiðslna í sóttkví hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví enda hafi heilbrigðisyfirvöld ákveðið að þeir sem dveljast í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu.

9. Kemur til greiðslna á grundvelli laga nr. 24/2020 ef einstaklingar eru í úrvinnslusóttkví?

Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis er úrvinnslusóttkví millibilsástand sem stendur yfir á meðan unnið er að smitrakningu þar til ákvörðun liggur fyrir um hvort einstaklingur skuli sæta sóttkví. Meðan á smitrakningu stendur fylgir viðkomandi þeim leiðbeiningum sem gilda um sóttkví þar til vitað er hvort einstaklingur þurfi að fara í sóttkví og honum tilkynnt það af hálfu sóttvarnaryfirvalda. Öllu jafna stendur úrvinnslusóttkví yfir í 1 til 2 sólarhringa.

Einstaklingar sem einvörðungu fara í úrvinnslusóttkví eru ekki skráðir í sóttkví hjá embætti landlæknis. Af þeim sökum kemur ekki til greiðslna á grundvelli laga nr. 24/2020 til eða vegna þeirra einstaklinga sem fara í úrvinnslusóttkví.  Einstaklingar sem fara í sóttkví í kjölfar úrvinnslusóttkvíar teljast hafa hafið sóttkví frá þeim tíma er úrvinnslusóttkví hófst.


2. Umsóknarferli:


1. Get ég enn sótt um greiðslur?

Nei, síðasti dagur til að sækja um greiðslur var 31. mars 2023.

2. Ég er með umsókn um greiðslur í vinnslu, hvar finn ég hana?

Hægt er að nálgast umsóknir, sem ennþá eru til afgreiðslu, á Mínum síðum atvinnurekenda og Mínum síðum atvinnuleitenda.

3. Hvernig staðfesti ég umsókn sem er í vinnslu?

Staðfesta þarf umsókn á Mínum síðum atvinnurekenda og Mínum síðum atvinnuleitenda eftir atvikum. Leiðbeiningar má nálgast hér.


3. Fjárhæðir:


1. Hvað telst til launa þegar reiknuð er fjárhæð greiðslna vegna launamanna?

Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald þann mánuð sem launamanni var gert að vera í sóttkví.

2. Fjárhæðir greiðslna til atvinnurekenda.

Greiðsla til atvinnurekanda miðast við heildarlaun launamanns í þeim almanaksmánuði eða almanaksmánuðum sem hann eða barn hans var í sóttkví.

Hámarksgreiðslur fyrir hvern dag sem launamaður sætir sóttkví eða annast barn í sóttkví nema 21.100 kr.

Til að finna út fjárhæðir greiðslna fyrir hvern dag skal miða við 30 daga í mánuði.

3. Fjárhæðir greiðslna launamanna (sem ekki hafa fengið greidd laun frá atvinnurekanda).

Þegar launamaður, sem hefur þurft að sæta sóttkví, hefur ekki fengið greidd laun frá atvinnurekanda vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls, skal greiðsla miðast við heildarlaun hans fyrir undanfarandi almanaksmánuð áður en honum eða barni hans var gert að vera í sóttkví.

Heildargreiðslur til launamanns geta þó aldrei verið hærri en því sem nemur mismuni heildarlauna þann mánuð sem honum eða barni hans var gert að vera í sóttkví og heildarlauna undanfarandi mánaðar. 4% af greiðslunni fer til lífeyrissjóðs launamanns. Auk þess greiðir Vinnumálastofnun 11,5% mótframlag.

Hámarksgreiðslur fyrir hvern dag sem launamaður sætir sóttkví eða annast barn í sóttkví nema 21.100 kr.

4. Fjárhæðir greiðslna vegna sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklings samkvæmt lögunum miðast við mánaðarlegar meðaltekjur. Skal taka mið af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af og skal miða við tekjuárið 2019.

Miða skal við 30 daga í mánuði til að finna út fjárhæðir greiðslna.

Hámarksgreiðslur eru 21.100 kr. fyrir hvern dag.


4. Greiðslur í sóttkví:


1. Ef einstaklingur er í áhættuhóp og fer í sjálfskipaða sóttkví, á hann þá rétt á greiðslum skv. lögunum?

Nei, ef starfsmaður fer í sjálfskipaða sóttkví fellur hann ekki undir greiðsluþátttöku ríkisins vegna starfsfólks í sóttkví.

Greiðslur afmarkast við þá sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.

2. Ég er á atvinnuleysisbótum og þarf að fara í sóttkví. Á ég að sækja um greiðslur vegna sóttkvíar?

Atvinnulaus einstaklingur sækir ekki um heldur fær greiddar atvinnuleysisbætur áfram á meðan hann er í sóttkví.

3. Geta 70 ára og eldri sótt um greiðslur í sóttkví?

Ef að viðkomandi uppfyllir önnur skilyrði laganna fyrir greiðslum þá getur hann átt rétt á greiðslum í sóttkví.

4. Geta 16 – 18 ára sótt um greiðslur í sóttkví?

Ef að viðkomandi uppfyllir önnur skilyrði laganna fyrir greiðslum þá getur hann átt rétt á greiðslum í sóttkví.

5. Á launamaður rétt á greiðslum ef hann veikist af völdum Covid-19 á þeim tíma er hann sætir sóttkví?

Nei. Frá þeim tíma sem launamaður veikist af völdum COVID-19 nýtir hann veikindarétt sinn hjá atvinnurekanda og að honum tæmdum getur skapast réttur í sjúkrasjóðum stéttarfélaganna.

6. Er ákveðinn hámarksfjöldi daga sem hægt er að sækja um greiðslur vegna þeirra sem gert hefur verið að sæta sóttkví?

Nei, lögin setja ekki takmarkanir á dagafjölda. Því getur viðkomandi átt rétt á greiðslum fyrir alla þá daga er hann sætti sóttkví og var ófær um að sinna starfi sínu á þeim tíma, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

7. Á launamaður rétt á greiðslum á grundvelli laganna ef maki veikist alvarlega af völdum Covid-19?

Nei. Ef maki veikist alvarlega getur skapast réttur til greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaganna ef launaréttur er ekki til staðar hjá launagreiðanda.

8. Ef um þvingaða lokun fyrirtækja er að ræða s.s. snyrtistofur, eiga starfsmenn þá rétt á greiðslum?

Nei. Lögin eiga einungis við um þá sem hafa fengið bein fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví. Þau eiga ekki við um almennar leiðbeiningar eða fyrirmæli um samkomubann.

9. Eiga dagforeldrar rétt á greiðslum vegna þeirra vistunardaga sem fallið hafa niður vegna sóttkvíar fjölskyldu sem var með barn í vistun, gegn því að dagforeldri hafi fellt niður gjaldið?

Nei. Eitt af skilyrðum fyrir greiðslum í sóttkví er að einstaklingur sjálfur eða barn í hans forsjá hafi þurft að sæta sóttkví. Lögin eiga ekki við í þeim tilfellum sem vinna fellur niður sökum þess að skjólstæðingar eða viðskiptavinir fyrirtækja sæta sóttkví.

10. Á umsækjandi rétt á greiðslum á grundvelli laganna vegna einstaklinga sem þurfa að viðhafa heimkomusmitgát?

Nei. Heimkomusmitgát felur í sér að viðkomandi þarf að halda sér til hlés og ekki vera innan um fleiri en nauðsyn krefur. Felur aðgerðin í sér takmarkanir vegna sóttvarna en ekki er um að ræða sóttkví í skilningi laga um greiðslur í sóttkví. Sjá nánar á vefsíðu Embættis landlæknis. https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item42086/heimkomusmitgat-vegna-covid-19

11. Á umsækjandi rétt á greiðslum á grundvelli laganna vegna einstaklinga sem þurfa að sæta skimunarsóttkvíar (tvöföld skimun og 5-6 daga sóttkví)?

Að öðrum skilyrðum uppfylltum getur umsækjandi átt rétt á greiðslum vegna einstaklinga sem þurfa að sæta svokallaðrar skimunarsóttkvíar. Vegur þar þyngst það skilyrði að umsækjandi á ekki rétt á greiðslum hafi einstaklingur, sem sótt er um vegna, farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti að sæta sóttkví við heimkomu.

12. Á atvinnurekandi rétt á greiðslum á grundvelli laganna ef launþegi þarf að fara úr vinnu vegna sýnatöku?

Nei. Eingöngu er hægt að sækja um greiðslur á grundvelli laganna vegna þeirra sem þurfa að sæta sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.


5. Réttur forsjármanna barna í sóttkví:


1. Getur starfsmaður átt rétt á greiðslum samkvæmt lögunum ef að barn hans þarf að sæta sóttkví?

Já. Lögin ná yfir greiðslur til launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings þegar barn í hans forsjá sætir sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda enda barnið undir 13 ára aldri eða undir 18 ára aldri og þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Lögin ná ekki til forsjármanna barna sem þurfa að vera heima vegna samkomubanns eða annarrar röskunar á skólastarfi.

2. Geta forsjármenn barna í áhættuhóp sem sæta varnareinangrun átt rétt á greiðslu skv. lögunum?

Ef að barn sætir sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þá geta forsjármenn átt rétt á greiðslum samkvæmt lögunum ef önnur skilyrði laganna eru uppfyllt.

3. Starfsmaður þarf að vera heima hjá barni í sóttkví, getur hann átt rétt á greiðslum?

Já, ef að barn í hans forsjá hefur sannanlega verið í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfivalda og að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Sjá skilyrði fyrir greiðslum í sóttkví í lið 1:  Ef starfsmaður sætir sóttkví samhliða einangrun barns, sem hann hefur forsjá með, má sækja um greiðslur vegna starfsmanns enda sé viðkomandi starfsmaður sjálfur skráður í sóttkví

4. Eiga barnshafandi konur rétt á greiðslum í sóttkví?

Já, ef þær hafa fengið bein fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví og önnur skilyrði laganna eru uppfyllt.


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni