Réttindi og skyldur

Hér má nálgast upplýsingar um réttindi umsækjanda og þær skyldur sem honum ber að sinna til að viðhalda rétti til atvinnuleysisbóta.

 

 Virk atvinnuleit

Til þess að vera virkur í atvinnuleit  þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði:

 • er fær til flestra almennra starfa,
 • hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir,
 • hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
 • er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á landinu,
 • er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða, eða vaktavinnu,
 • á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema um minnkað starfshlutfall sé að ræða,
 • hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til bóta ,
 • er reiðubúinn að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur á að fá starf við hæfi,
 • er reiðubúinn til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum.

Tilkynna skal Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

Upplýsingaskylda

Atvinnuleitandi skal upplýsa Vinnumálastofnun tafarlaust um allar breytingar sem verða á högum og kunna að hafa áhrif á rétt hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur. Ef ekki er tilkynnt um slíkar breytingar getur það leitt til biðtíma eða annarra viðurlaga samkvæmt lögum. 

Dæmi um slíkar breytingar eru:

 • þátttaka í námi,
 • tilfallandi vinnu, 
 • hlutastarf,
 • fullt starf,
 • aðrar tekjur sem umsækjandi fær samhliða atvinnuleysisbótum,
 • stofnun fyrirtækis (ehf., slf., sf.) / eignarhlutur í fyrirtæki
 • veikindi umsækjanda,
 • skerta vinnufærni / óvinnufærni,
 • dvöl erlendis án U2-vottorðs,
 • orlof,
 • breytingu á heimilisfangi, símanúmeri og/eða netfangi.

Hér er hægt að sjá leiðbeiningar varðandi tilkynningu á tekjum

Ekki er heimilt að dvelja erlendis á sama tíma og umsækjandi þiggur atvinnuleysisbætur nema hafa sótt um U2-vottorð. 
Ekki er heimilt að hefja rekstur á eigin kennitölu eða taka að sér verktakavinnu án undanfarandi tilkynningar til Vinnumálastofnunar
Ef umsækjandi hyggst fara í leyfi eða frí þá skal láta Vinnumálastofnun vita og er þá umsækjandi skráður af bótum á meðan

Staðfesting á atvinnuleit

Staðfesta þarf atvinnuleit 20. - 25. dags hvers mánaðar. Atvinnuleit er staðfest frá "Mínar síður".

 • Greiðslur til umsækjenda sem staðfesta atvinnuleit frá 20. - 25. hvers mánaðar eru afgreiddar fyrsta virka dag í mánuði.
 • Greiðslur til umsækjenda sem staðfesta atvinnuleit sína milli 26. og 3. næsta mánaðar eru ekki afgreiddar fyrr en 5 virkum dögum eftir mánaðamót.
 • Greiðslur til umsækjanda sem staðfesta atvinnuleit sína eftir 3. næsta mánaðar greiðast með útborgun næstu mánaðarmót

Við staðfestingu á atvinnuleit er umsækjandi að staðfesta að hann sé enn án atvinnu og í virkri atvinnuleit. Við staðfestingu er hægt að koma nauðsynlegum upplýsingum til Vinnumálastofnunar t.d. um tilfallandi vinnu eða hlutastarf.

Þeir sem ekki staðfesta atvinnuleit á tilsettum tíma eru afskráðir.

Vakin er athygli á því að stofnunin safnar IP-tölum þeirra sem staðfesta atvinnuleit sína með rafrænni skráningu og eru þær m.a. nýttar til að kanna hvort staðfestingin hafi borist erlendis frá, enda er það skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé staddur hérlendis. Vinnumálastofnun kannar einnig uppruna á IP-tölum þegar atvinnuleitandi skráir sig inn á mínar síður.   

Berist staðfesting á atvinnuleit frá erlendum IP-tölum óskar Vinnumálastofnun eftir skýringum frá atvinnuleitanda.  Þá kann það að valda viðurlögum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar  tilkynni atvinnuleitandi ekki um dvöl sína erlendis.

Viðtöl, fundir og önnur úrræði

Atvinnuleitandi þarf að mæta í öll boðuð viðtöl og fundi til að uppfylla skilyrði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysisbætur. Einnig þarf hann að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum sem honum er boðið.

Mæti atvinnuleitandi ekki í boðað viðtal eða fund, eða hafnar þátttöku í þeim úrræðum sem honum standa til boða og án gildra skýringa þarf hann að sæta viðurlögum (sjá Biðtími og viðurlög).

Veikindi og lækniskostnaður

Frá og með 1. mars 2011 telst atvinnuleitandi vera í virkri atvinnuleit þrátt fyrir tilfallandi veikindi í allt að 5 daga samtals.

 • Heimilt er að nýta 5 daga veikindaréttinn að hámarki í tvennu lagi á hverju 12 mánaða tímabili hafi atvinnuleitandi verið skráður innan kerfisins í samtals 5 mánuði á sama tímabili.
 • Tilkynna skal um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar.
 • Jafnframt skal skila inn læknisvottorði innan viku frá því að veikindum lauk óski Vinnumálastofnun eftir því.

Lækniskostnaður:

Þann 1. maí 2017 tók gildi reglugerð nr. 314/2017 um greiðsluþáttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Við það féll úr gildi eldri reglugerð um sama efni nr. 1144/2015.

Í eldri reglugerð hafði verið kveðið á um 16. gr. um sérreglur fyrir atvinnuleitendur. Samkvæmt þeirri grein nutu þeir einstaklingar, sem voru skráðir í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun og höfðu verið í samfelldri atvinnuleit í sex mánuði eða lengur, afsláttar á sjúkrakostnaði þeim sem féll undir reglugerðina.

Með breyttu fyrirkomulagi greiðsluþáttöku sjúkratryggðra, sem tók gildi 1. maí síðastliðinn, var fyrrgreint fyrirkomulag um sérkjör atvinnuleitenda lagt niður. Vinnumálastofnun mun því frá og með 1. maí 2017 ekki gefa út staðfestingar á atvinnuleysi vegna lækniskostnaðar, fyrir einstaklinga sem hafa verið skráðir atvinnulausir í sex mánuði eða lengur.

Biðst Vinnumálastofnun velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

 

 

 

 

 

 

 

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu