Niðurfelling bótaréttar í 40 bótaréttar felld úr gildi. Gild ástæða talin vera fyrir starfslokum vegna brota á kjarasamningum og ófullnægjandi aðstæðna á vinnustað.
Nr. 29 - 2004
Úrskurður
Hinn 6. júlí 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr.29/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 á höfuðborgarsvæðinu samþykkti á fundi sínum þann 26. janúar 2004 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 22. desember 2003. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 20. desember 2003 um starfslok hennar hjá Y var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.
2.
X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 14. apríl 2004. Í bréfinu segist hún byggja kæru sína á þeim rökum að kjarasamningar hafi verið brotnir auk þess sem aðbúnaður hafi verið óviðunandi. Samkvæmt kjarasamningi skuli starfsmenn hafa a.m.k. einn frídag á hverju sjö daga tímabili. Þetta hafi ekki verið virt. Greidd laun hafi ekki verið í samræmi við vinnuframlag, iðulega hafi vantað greiðslu fyrir unna tíma og launaseðlar hafi verið ranglega færðir og óskiljanlegir. Einnig hafi vaktaskipulag breyst ört og jafnvel daglega án samráðs við starfsmenn. Varðandi aðbúnaðinn hafi engin kaffistofa verið fyrir starfsmenn mötuneytis og engir fataskápar fyrir föt starfsmanna í mötuneyti. Aðeins eitt salerni hafi verið fyrir starfsmenn mötuneytis og hafi það verið sameiginlegt fyrir konur og karla. Oft hafi verið vatnslaust og ekki hafi verið heitt vatn í krönum. Húsnæðið hafi verið illa einangrað og kalt þannig að starfsmenn í eldhúsi hafi þurft að vera klæddir í útiföt við vinnu sína. Ástand tækja og búnaðar var bágborið og oft bilað og alls ekki í samræmi við þann fjölda starfsmanna sem komu daglega í mat. Um 400 manns hafi borðað í mötuneytinu og tók það 45 mínútna bið að komast í matsalinn en hann tók aðeins 50 manns í sæti. Engin setustofa hafi verið fyrir íslenska starfsmenn og ekki hafi verið hægt að ná útsendingum íslenskra sjónvarps- eða útvarpsstöðva. Auk alls þessa hafi framkoma yfirmanna undirverktakans, Z, sem rak mötuneytið verið með þeim hætti að líkja mætti við einelti og andlega kúgun. Gríðarlegt og ómanneskjulegt vinnuálag vegna undirmönnunar hafi verið viðvarandi ástand og engar úrbætur fengist þrátt fyrir margítrekaðar óskir um að starfsmönnum í mötuneyti yrði fjölgað. Af þessum sökum hafi starfsmannavelta verið mjög mikil, sem leitt hafi til aukins álags á þá sem eftir voru.
3.
Í málinu liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá Y dags. 20. desember 2003, þar sem fram kemur að X hafi starfað við K við eldhússtörf tímabilið 5. maí 2003 til 17. desember 2003. Ástæða starfsloka er sögð að hún hafi sjálf sagt upp störfum. Haft var samband við yfirtrúnaðarmann stéttarfélagsins á svæðinu og staðfesti hann að X og aðrir starfsmenn hafi ítrekað leitað til hans vegna brota á kjarasamningum og óviðunandi aðbúnaðar. Hann hafi margoft reynt að ræða við yfirmenn Z sem rak mötuneytið um úrbætur en ekkert hafi gengið og hafi hann á endanum kallað til Vinnueftirlitið til að reyna að ná fram úrbótum. Heilbrigðiseftirlitið hafi einnig gert úttekt á staðnum og staðfest að aðstæður væri óviðunandi. Af þessum sökum hafi starfsmannavelta verið mjög mikil eða um 50%. Trúnaðarmaðurinn sendi úrskurðarnefnd skriflega staðfestingu á ofangreindu.
4.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta tók mál þetta fyrst fyrir á fundi sínum þann 26. maí 2004. Ákveðið var að fresta málinu og gefa talsmönnum Y kost á að tjá sig um málavöxtu. Í svarbréfi Y sem barst 5. júlí s.l. kemur fram að fyrirtækið vilji taka fram að því sé fullkunnugt um að starfsmenn þess urðu fyrir ýmsum óþægindum á fyrstu mánuðum í starfsemi félagsins á K. Um hafi verið að ræða aðstæður sem ekki urðu umflúnar vegna skipulagningar íslenskra yfirvalda á verkinu og þeim kröfum sem hvíldu á verktakanum um að hefja framkvæmdir af fullum krafti samhliða því sem unnið var að uppbyggingu á aðstöðu til framkvæmda og fyrir starfsmenn. Varðandi umkvartanir X er tekið fram að fram til þess tíma að uppbyggingu endanlegs húsnæðis mötuneytanna var lokið sé ekki fyrir því að synja að starfsmenn hafi ekki fengið reglubundin frí á 7 daga fresti. Frávikin hafi þó ekki verið stórvægileg og greitt hafi verið fullt verð fyrir þessi frávik eins og kjarasamningar gera ráð fyrir. Fyrst um sinn hafi verið um þráfaldlegar villur í launaútreikningum. Eftir að fyrirtækið tók sjálft að sér launaútreikninga hafa villur í útreikningum minnkað og eru nú áþekkar því sem gerist hjá öðrum fyrirtækjum með jafn umfangsmikinn rekstur. Launafulltrúi hafi raunar upplýst að hún hafi á þessu tímabili iðulega farið yfir launaseðla X þannig að hún fékk fullnægjandi skýringar. Villur sem upp komu voru leiðréttar strax og þær komu fram. Framan af hafi verið óregla á skipulagi vakta, en það hafi þó farið minnkandi eftir því sem leið á starfstíma X. Að því er varði ásakanir um skort á aðstöðu í mötuneytum voru sannanlega erfiðleikar á uppbyggingastiginu, sem lauk að mestu í desember s.l. Um framkomu einstakra stjórnenda er erfitt að fullyrða, einkanlega í fjölþjóðlegu umhverfi eins og við K. Það sem þyki eðlilegt í einu samfélagi kann að þykja argasti dónaskapur í öðru og væri ekki óeðlilegt að einhver núningur kæmi upp við þær að stæður.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Fyrir liggur að kjarasamningar voru brotnir á kæranda og að hann hafi leitað til stéttarfélagsins og kvartað yfir því ásamt óviðunandi aðbúnaði. Að sögn yfirtrúnaðarmannsins var ítrekað haft samband við vinnuveitandann og krafist útbóta fyrir hönd starfsfólksins en árangur virtist koma seint og illa í byrjun þótt ástandið virðist hafa lagast er á leið samanber bréf talsmanns Y hér að ofan. Kærandi hætti störfum þann 17. desember 2003. Samkvæmt bréfi talsmanns fyrirtækisins höfðu ástæður verið erfiðar á svæðinu þar til í desember og fyrst eftir þann tíma fóru aðstæður að komast á eðlilegt stig. Það er mat úrskurðarnefndar samkvæmt ofangreindu að kærandi hafi miðað við aðstæður á þeim tíma sem hún var við vinnu hjá Y haft gildar ástæður til að segja upp starfi sínu án þess að þurfa að sæta niðurfellingu bótaréttar af þeim sökum.
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 felld úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 26. janúar 2004 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka