Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp starfi án gildrar ástæðu. Staðfest.
Nr. 32 - 2004

 

 

Úrskurður

 

Hinn 26. maí 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 32/2004.

 

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Úthlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta á Vestfjörðum samþykkti á fundi sínum þann 13. mars 2004 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 17. mars 2004.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 19. mars 2004 um starfslok hennar hjá Y ehf. var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997, sem kveður á um það að hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, skuli það varða missi bótaréttar í 40 bótadaga.   

 

2.

 

X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 21. apríl 2004.  Í bréfinu segist hún hafa sagt upp vegna lélegra launa og lélegrar framkomu yfirmanns.  Áður en hún sagði upp hafi hún hringt í svæðisvinnumiðlun og spurt um möguleikana á því að fá bætur strax eða hvort hún myndi þurfa að bíða, og var henni sagt að hún hefði góða möguleika á að fá bætur strax.  En svo var ekki.   Framkoma yfirmanns hennar hafi hins vegar verið með þeim hætti að ef hún hefði beðið verkalýðsfélagið um að skoða hana hefði hún fengið bætur strax.  Hún hafi sent svæðisvinnumiðlun bréf  þar sem hún rökstuddi uppsögnina.  Aðeins vanti á rökstuðninginn.  Í desember síðastliðinn þegar desemberuppbótin átti að vera komin hafi hún spurt yfirmann sinn af hverju uppbótin væri ekki komin.  Hann hafi sagt að hún ætti ekki að hafa áhyggjur af uppbótinni heldur vinnunni.  Daginn eftir hafi hann svo beðið hana afsökunar þar sem hún hafi haft rétt fyrir sér með desemberuppbótina sem síðan hafi komið í framhaldinu.  Hún segir einnig í bréfi sínu að hún hafi verið eini kvenmaðurinn á þessum vinnustað.  Hún hafi verið látin þrífa ein þó að hinir hafi haft mjög lítið að gera.  Í ódagsettu bréfi X til Svæðisvinnumiðlunar Vestfjarða segist hún hafa sagt upp vegna lélegra framkomu yfirmanns og lélegra launa.  Hún væri búin að vera svolítið mikið veik síðan í byrjun janúar og sé enn hjá lækni út af þessum veikindum.  Síðast þegar hún var veik þá lét hún vita af því um morguninn eins og gera á.  Yfirmaðurinn hafi  hringt í hana eftir hádegið og spurt hverslags aumingjaskapur þetta væri, þetta gangi ekki, hún sé alltaf veik.  Hún ætti bara að vera á örorkubótum fyrst hún væri alltaf veik.  Þetta hafi komið fyrir áður, fyrir áramót þegar hún fékk tvær flensur í röð hafi hann líka verið með þessa stæla.  Hún geti ekki unnið fyrir einhvern sem heldur að hún sé aumingi.  Varðandi launin þá hafi hún verið sett á laun sem nemi kr. 5.000 undir lágmarkslaunum.  Verkalýðsfélagið sé að vinna í þeim málum og hafi verið að því  í rúman mánuð, en ennþá hafi hún ekki fengið leiðréttingu.  Þetta sé ástæðan fyrir því að hún geti ekki unnið lengur hjá þessu fyrirtæki.

 

3.

 

            Í málinu liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá Y ehf. dags. 19. mars 2004 þar sem fram kemur að X vann hjá fyrirtækinu tímabilið 1. ágúst 2003 til 12. mars 2004 er hún sagði sjálf upp störfum.  Samkvæmt fyrirliggjandi launaseðli X frá Y fyrir tímabilið 15. til 21. mars 2004 kemur fram uppgjör vegna leiðréttingar á dagvinnukaupi hennar að fjárhæð kr. 37.429.   Leiðrétting þessi kom til útborgunar þann 25. mars 2004.  Haft var samband við Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur símleiðis.  Að sögn starfsmanns verkalýðsfélagsins var X á launum undir lágmarkslaunum.  Hún kvartaði til verkalýðsfélagsins sem hafði samband við launadeild fyrirtækisins og fékk hún strax leiðréttingu.  Hún hafi hins vegar sagt upp starfi sínu samtímis.

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Sam­kvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bóta­réttar í 40 bóta­daga ef um­sækjandi um at­vinnu­leysis­bætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna.  Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglu­gerð nr. 545/1997 um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta en þar segir:  Ef um­sækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar, séu starfs­lok til­komin vegna einhverra eftir­talinna at­vika:

a.         Maki um­sækjanda hafi farið til starfa í öðrum lands­hluta og fjöl­skyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja bú­ferlum.

b.         Upp­sögn má rekja til þess að um­sækjandi, að öðru leyti vinnu­fær, hefur af heilsu­fars­á­st­æðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því til­skildu að vinnu­veitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ást­æður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknis­vott­orði þessu til stað­festingar.

Kjósi út­hlutunar­nefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar í öðrum til­vikum en að ofan greinir, skal hún til­taka sér­stak­lega í ákvörðun sinni þau at­vik og sjónar­mið sem ákvörðun byggist á.

 

 

2.

 

Að sögn kæranda sagði hann upp störfum vegna lélegra launa og lélegrar framkomu yfirmanns. Ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda um aðstæður á vinnustað, launakjör og/eða vinnutíma flokkast almennt ekki sem gildar ástæður í skilningi  4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 samkvæmt framangreindum reglum.  Kærandi virðist þó hafa fengið laun sem voru undir lágmarkslaunum.  Kærandi kvartaði réttilega til verkalýðsfélags síns sem hafði samband við atvinnuveitandann.  Atvinnuveitandinn leiðrétti þegar launamismuninn að sögn verkalýðsfélagsins, en kærandi sagði samtímis upp störfum. Samkvæmt vinnuveitandavottorði hætti kærandi störfum þann 12. mars s.l. og samkvæmt launaseðli gerði atvinnuveitandi upp launamismuninn þann 25. mars s.l.. 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast ástæður þær sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997.   Kærandi kvartaði til verkalýðsfélags síns vegna lágra launa en sagði samtímis upp störfum án þess að bíða eftir niðurstöðu málsins er verkalýðsfélagið hafði haft samband við atvinnuveitandann.  Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar á Vestfjörðum um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta á Vestfjörðum frá 13. apríl 2004 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga skv. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                Benedikt Davíðs­son

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni