Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hafnar atvinnutilboði frá vinnumiðlun, m.a. af heilsufarsástæðum sem hann hafði ekki áður getið um. Ákvörðun staðfest.
Nr. 35 - 2004

Úrskurður

 

Hinn 26. maí 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 35/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta fyrir Vesturland ákvað á fundi sínum þann 13. maí 2004, að réttur X, til atvinnuleysisbóta skyldi felldur niður í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli þess að X hafi ekki sinnt atvinnutilboði frá svæðisvinnumiðlun dags. 10. maí 2004.

 

2.

 

X kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 19. maí 2004. Í bréfinu segist hann vera mjög ósáttur við þessa ákvörðun þar sem hann hafi verið í viðræðum um starf hjá Y síðan 8. maí s.l.  er Y hafi skýrt honum frá því að það væru komnir erlendir eigendur inn í fyrirtækið og að þeir myndu vilja tala við hann.  Y hafi sagst hafa samband er hann kæmi aftur til baka frá sjávarútvegssýningu erlendis.  Y hafi hringt í hann þann 14. maí og boðað hann í viðtal við erlenda eigandann þann 19. maí.  Um morguninn 19. maí hafi Y hringt aftur og sagt að erlendi eigandinn kæmist því miður ekki fyrr en í næstu viku og færi hann þá í viðtal.  X segist hafa mjög mikinn áhuga á þessu starfi, en starf það sem svæðisvinnumiðlun hafi boðið honum kom eftir að hann byrjaði í viðræðum við Y. Samkvæmt starfstilboði svæðisvinnumiðlunar var óskað eftir vélvirkja til að vinna sem rennismiður, en vegna slyss á hné sem hann varð fyrir árið 1988 er hann var að vinna hjá Z varð til þess að hann var úrskurðaður 20% öryrki og treysti hann sér því ekki til að standa við rennibekk allan daginn.  Því fer hann fram á að ákvörðun úthlutunarnefndar verði hnekkt og að hann haldi bótum sínum.

 

3.

 

            Í gögnum málsins liggur fyrir umsókn X um atvinnu og atvinnuleysisbætur dags. 7. janúar 2004.  Þar kemur fram að hann óskar eftir fullu starfi.  Þar sem spurt er um vinnufærni segist hann vera almennt vinnufær og merkir ekki við í dálk þar sem spurt er um skerta vinnufærni.   Haft var samband við Y símleiðis þann 24. maí s.l.  Y sagði það rétt vera að hann hefði verið í viðræðum við X um starf hjá fyrirtæki hans.  Margar umsóknir hafi borist og hafi fjórir umsækjendur verið valdir úr sem kæmu til greina.  X væri einn af þeim.  Því miður hefði þó dregist að taka ákvörðun um hver þeirra yrði ráðinn þar sem tafir hafi orðið á að erlendi aðilinn kæmist til landsins til atvinnuviðtala.  Von væri á erlenda aðilanum til landsins í júní og yrði þá tekin endanleg ákvörðun um hver þeirra fjögurra yrði ráðinn, en um eina stöðu væri að ræða.  Samkvæmt Y vissi X af því að fleiri kæmu til greina til starfans.

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 545/1997 skal umsækjandi um atvinnuleysisbætur gera grein fyrir vinnufærni sinni þegar hann sækir um bæturnar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysisbætur veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um niðurfellingu bótarréttar í 40 bótadaga.

Þá er einnig bent á ákvæði 6. tölul. 2. gr. laganna þar sem það er sett sem skilyrði bótaréttar að bótaþegi sé reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa.

Þessi skilyrði er áréttuð frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt: ,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

c.         Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

2.

 

Samkvæmt greiðsluskrá kom kærandi inn á bótaskrá þann 5. janúar 2004. Hann hafði því verið lengur en 4 vikur á bótum þegar atvinnutilboð vinnumiðlunar kom fram, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.  Kærandi segist hafa hafnað starfstilboði vinnumiðlunar þar sem hann væri í viðræðum um annað starf sem hann hafði meiri áhuga á vegna skertrar vinnufærni sinnar.  Kærandi hafði þó ekki getið um skerta vinnufærin þar sem um hana var spurt á umsóknareyðublaði hjá vinnumiðlun.  Fjórir umsækjendur komu til greina í það starf sem kærandi hafði áhuga á.  Samkvæmt forsvarsmanni fyrirtækisins var  kæranda ljóst að fleiri umsækjendur kæmu til greina í það starf sem hann hafði áhuga á og hafði honum ekki verið gefnar meiri vonir en öðrum um starfið.  Um öruggt starfstilboð var því ekki að ræða.

 

 Starfstilboð vinnumiðlunar var um vinnu við rennismíðar.  Í umsókn kæranda tekur hann fram hæfni í vélvirkjun og Baaderþjónustu.  Einnig tekur hann fram að hann hafi unnið í 12 ár viðhalds- og tæknideild Z á tímabilinu 1988 til 2000. Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars vegar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara.

 

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta fyrir Vesturland um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Vesturland frá 13. maí 2004 um að X skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga með vísan til 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

 

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni