Akvörðun um einfalda endurgreiðslu bóta auk 2ja mánaða niðurfellingar bótaréttar. Starfaði að sjálfstæðum rekstri samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.
Nr. 37 - 2004
Úrskurður
Hinn 2. júní 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 37/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann17. febrúar 2004 að X bæri að endurgreiða einfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 1.213.100 auk þess sem bótaréttur hennar var felldur niður í tvo mánuði. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að komið hafði í ljós að samhliða því sem hún þáði atvinnuleysisbætur tímabilið 23. ágúst 2002 til 13. janúar 2004, eða í alls 347 bótadaga, hafi hún starfað sem markaðs- og sölustjóri við fyrirtækið Y, auk þess sem hún stofnaði til sjálfstæðs rekstrar netauglýsingastofunnar Z. Ákvörðun nefndarinnar var tekin á grundvelli 1. gr., 6. tölul. 5. gr. og 15. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 15. maí 2004. Í bréfinu segist hún vilja kæra ákvörðunina á grundvelli slæmrar málsmeðferðar. Hún telji að nefndin eigi að gefa henni skýringar á hvers vegna rökum hennar hafi einfaldlega verið hafnað. Til grundvallar leggi hún einnig vanrækslu Vinnumiðlunar, úthlutunarnefndar og annarra sem að þessu koma á að tilkynna bótaþegum um að þeim sé óheimilt að koma að rekstri eða starfsemi að nokkru tagi, jafnvel þó unnið sé algerlega launalaust. X segist ekki neita því að hafa staðið í rekstri samhliða því að hafa verið á atvinnuleysisskrá. Hún telji það sjálfsagða skyldu sína að aðstoða eiginmann sinn með hluti sem hann getur ekki sinnt sjálfur, sér í lagi þar sem rekstur hans sé samtvinnaður heimilislífi þeirra að miklu leyti og skrifstofa hans sé staðsett í svefnherbergi þeirra. Hefði hún ekki aðstoðað hann hefði hún lagt línurnar að því að hann hefði einnig orðið atvinnulaus og lent á atvinnuleysisskrá. Hún geti ekki séð hvað sé athugavert við að reyna að útvega honum verkefni svo hann geti framfleytt sér og börnum þeirra þremur.
Með rekstri auglýsingastofunnar Z hafi hún verið að reyna að skapa sér starf svo hún þyrfti ekki að vera á atvinnuleysisskrá, því allan þann tíma sem hún var á atvinnuleysiskrá hafi hún ekki fengið eitt einasta atvinnutilboð frá Vinnumiðlun. Hins vegar hafi henni verið boðið á námskeið í vefsíðugerð af hálfu Vinnumiðlunar sem hún hafi nýtt sér til að skapa sér atvinnu eins og tilgangur þessara námskeiða er. Hún hafi þó engin laun haft á því tímabili, þótt skattstjóri hafi gert þau mistök að áætla á hana einhverjar tekjur, sem hann hafi svo leiðrétt. Hún hafi m.a.s. rætt þetta verkefni við starfsmann Vinnumiðlunar og fengið leyfi til að hengja auglýsingaspjöld upp á tilkynningatöflur í húsnæði Vinnumiðlunar í Engjateigi. Hún hafi reynt að hafa upp á viðkomandi starfsmanni til að sanna mál sitt og m.a. rætt við forstöðumann Vinnumiðlunar, sem hafi kannast við starfskonuna, sem þó hafi ekki verið við er hún kom á Vinnumiðlun. Hún og forstöðukonan hafi þó verið sammála um að starfskonan myndi eflaust ekki eftir þessu þar sem meira en ár væri liðið síðan þetta átti sér stað. X segist tvisvar hafa verið kölluð til starfsleitarnámskeiða, auk þess að hafa verið á atvinnuleysisbótum þegar hún var yngri, en eina sem hún kannaðist við að hafa heyrt um þessi mál væri að bótaþegum bæri skylda til að láta vita ef þeir hefðu tekjur af öðrum rekstri. Þar sem hún hafi engar tekjur haft hafi hún ekki talið að henni bæri skylda til að tilkynna um það sem hún væri að gera í sínum eigin frítíma. X segist hafa unnið að þessum verkefnum með góðri samvisku og í þeirri trú að hún væri ekki að gera neitt rangt. Þvert á móti hafi hún verið stolt af því að reyna að skapa sjálfri sér atvinnu í stað þess að sitja og horfa út um gluggann og fá borgað fyrir það. Það sé heldur hart að fá vitneskju um það löngu síðar að hún hafi verið að brjóta lög allan þennan tíma. Vel hefði mátt koma í veg fyrir þetta þegar hún tilkynnti starfsmanni Vinnumiðlunar um þetta verkefni fyrir rúmu ári síðan.
3.
Í gögnum málsins liggur fyrir bréf X til úthlutunarnefndar dags. 13. febrúar 2004. Þar segir hún að eiginmaður hennar starfi sem sjálfstæður verktaki við ræstingar og að hann hafi markaðssett þjónustu sína undir nafninu Y. Reksturinn og virðisaukaskattnúmer séu á kennitölu hans. Hann sé með þrjá fasta samninga í gangi eins og er og 2-3 starfsmenn að jafnaði í 30-40% starfi. Öll laun séu uppgefin, bæði hans eigin svo og starfsmanna hans. Hann sé útlendur og hafi ekki náð góðu valdi á íslensku, auk þess sem hann eigi við lesblindu að stríða og eigi hann því erfitt með að sinna pappírsvinnu. Hún hafi sem eiginkona hans verið honum innanhandar varðandi tilboðs- og samningagerð, auk þess sem hún hafi aðstoðað hann í samskiptum við Vinnumiðlun í leit hans að starfsfólki. Einnig liggur fyrir bréf X til Vinnumiðlunar dags. 5. ágúst 2003 þar sem hún tilkynnir að hún hafi ráðið konu af atvinnuleysisskrá í starfsþjálfun hjá fyrirtækinu Y. Í bréfinu titlar X sig markaðs- og sölustjóra Y. Í bréfinu til úthlutunarnefndar segir X að eiginmaður hennar hafi hannað lógó og útlit fyrir reksturinn auk þess sem hann hafi ýmsar grundvallarreglur varðandi samskipti út á við. Honum finnist fagmannlegra að hún titli sig í þeim bréfum sem hún skrifar í nafni Y og tekur ekki í mál að hún sendi bréf í hans nafni. Það finnist honum líta út fyrir að verið sé að villa mönnum sýn. Ef hann aftur á móti lesi henni fyrir bréf sem hún þýðir yfir á íslensku þá setji hún nafnið hans undir, enda sé þá ætlast til þess að viðtakandi hafi samband við hann. Hann hafi einnig hannað nafnspjöld fyrir þau bæði með nafni og titli til að afhenda ef þau skyldu taka eftir því að einhversstaðar væri illa þrifið. Með sömu hugsun hafi hann ekki tekið í mál að hún afhenti öðrum nafnspjald með hans nafni, það væri ófagmannlegt. Hún sé mikið á ferðinni og rekist oft inn á staði sem mætti þrífa betur. Því ætti hún þá ekki að skilja eftir nafnspjald ef það gæti orðið til þess að nýtt verkefni bættist við. Þessi titill hennar sé ekkert nema sýndarmennska, hún sé enginn markaðs- eða sölustjóri og hafi hvorki menntun né reynslu til að geta titlað sig sem slíka. Hún hafi engin laun þegið fyrir vinnu sína, en störf hans fléttist mikið inn í venjulegt heimilislíf þeirra og oftar en ekki veiti hún honum félagsskap í vinnunni. Þetta sé fjölbreytt starf og sveigjanlegt og þyki þeim það mikill kostur að geta eytt svo miklum tíma saman og með börnum sínum, hvort sem það sé í vinnu eða utan. Samkvæmt útskrift frá skattstjóra dags. 1. júní 2004 stofnaði eiginmaður X fyrirtækið Y þann 30. mars 2001 og hefur rekið það síðan. Fram kemur að X byrjar að þiggja laun frá fyrirtækinu í aprílmánuði 2004.
Samkvæmt útskrift frá Skattstofu Reykjanesumdæmis stofnaði X auglýsingastofu á árinu 2003. Byrjunardagsetning er sögð 3. febrúar 2003 og lokadagsetning er sögð 31. desember sama ár. Samkvæmt launagreiðendaskrá reiknar hún sér kr. 60.000 í endurgjald á mánuði vegna rekstursins í tvo mánuði eða tímabilið 18. febrúar 2003 til 1. apríl 2003 er hún afskráir sig af launagreiðendaskrá. Samkvæmt útskrift skattstjóra er lagður á hana staðgreiðsluskattur í þrjá mánuði á árinu 2003 vegna rekstursins, eða kr. 23.130 á mánuði, sem síðan er felldur niður. X segist hafa tekið það fram þegar hún sótti um skráningu á virðisaukaskyldri starfsemi vegna auglýsingamiðilsins Z að endurgjald yrði kr. 0 í a.m.k. 8 mánuði á meðan verið væri að koma rekstrinum í gang. Skattstjóri hafi ekki tekið mark á þeim fyrirvara og sent henni tilkynningu um ógreidd gjöld sem síðan hafi verið leiðrétt. Reksturinn hafi verið netþjónusta, hún hafi látið smíða fyrir sig smáauglýsingavef sem hún ætlaði að selja auglýsingar á og hafi þetta verið tilraun til að skapa eigin tekjur. Hún hafi verið mjög bjartsýn, en því miður hafi þetta farið þannig að hún þurfti að loka vefnum. Nú skuldi hún nokkur hundurð þúsund og á inni virðisaukaskatt hjá skattstjóra upp á kr. 300.000. Því hafi ekki verið um neinar tekjur að ræða. Í gögnum málsins liggur fyrir útskrift af smáauglýsingavef Morgunblaðsins dags. 30. janúar 2004 þar sem fólk er hvatt til að nýta sér ókeypis smáauglýsingar á vefslóðinni Z. Vefslóðinni virðist hins vegar nú hafa verið lokað. X heldur því fram að henni hafi aldrei verið gerð grein fyrir því á Vinnumiðlun að hún mætti ekki standa í rekstri samhliða því að vera á atvinnuleysisskrá og að auki hafi starfsmaður Vinnumiðlunar gefið henni þær upplýsingar að þetta væri heimilt og leyft henni að hengja upp auglýsingar vegna rekstursins í húsnæði Vinnumiðlunar við Engjateig þar sem skráning fer fram.
Haft var samband við forstöðumann Vinnumiðlunar sem sagði að umsækjendum um atvinnuleysisbætur væri alltaf gerð grein fyrir því að atvinnuleysi væri skilyrði atvinnuleysisbóta og ekki væri heimilt að standa í sjálfstæðum rekstri samhliða bótum. Um þetta væri auk þess spurt á umsóknareyðublaði um atvinnuleysisbætur en X hafi ekki gert grein fyrir sjálfstæðri starfsemi er hún sótti um bætur. Umsækjendur um atvinnuleysisbætur færu auk þess á kynningarnámskeið í upphafi skráningar þar sem þeim er gerð grein fyrir þessu auk þess sem þeir fengju afhenda bæklinga um skilyrði atvinnuleysisbóta. Samkvæmt forstöðumanninum væri bótaþegum af þessum sökum skiljanlega ekki heimilað að hengja upp auglýsingar um eigin rekstur í húsnæði Vinnumiðlunar.
Niðurstaða
1.
Lög um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 byggja á þeirri forsendu sbr. 1. gr. laganna að þeir einir eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem eru án atvinnu enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Í 6. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að þeir sem stundi vinnu í eigin þágu sem gefi þeim tekjur eða tekjuígildi er samsvari hámarksbótum atvinnuleysistrygginga skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum.
Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta. Í greininni segir að fyrsta brot varði missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot varði missi bóta í 1-2 ár.
Í 2. mgr. 27. gr. laganna segir orðrétt: Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.
2.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi þáði atvinnuleysisbætur tímabilið 28. ágúst 2002 til 13. janúar 2004. Samtímis virðist hann hafa verið starfandi við fyrirtæki maka síns auk þess sem hann stofnaði eigin auglýsingastofu og rak tímabilið 18. febrúar 2002 til 31. desember sama ár. Samkvæmt upplýsingum kæranda neitar hann því ekki að hafa starfað við rekstur samhliða því að hafa verið á atvinnuleysisskrá. Kærandi viðurkennir að hafa aðstoðað maka sinn við pappírsvinnu og samningagerð í rekstrinum auk þess sem hann titlaði sig sem markaðs- og sölustjóra við bréfaskriftir í þágu fyrirtækisins. Einnig segist kærandi hafa starfað við öflun nýrra verkefna í þágu fyrirtækisins. Það er álit úrskurðarnefndar samkvæmt þessu að kærandi hafi verið starfandi við sjálfstæðan rekstur samhliða því sem hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna það hjá Vinnumiðlun og að kærandi hafi af þessum sökum ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 12/1997 til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum.
Með tilliti til þessa er það álit úrskurðarnefndar að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um einfalda endurgreiðslu ofgreiddra bóta að fjárhæð kr. 1.213.100 auk tveggja mánaða niðurfellingu bótaréttar með vísan til 1. gr., 6. tölul. 5. gr, 15. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 17. febrúar 2004 um að X beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði einfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 1.213.100 auk niðurfellingar bótaréttar í tvo mánuði er staðfest með vísan til 1. gr., 6. tölul. 5. gr., 15. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
Formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka