Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklings
Nr. 13 - 2003

ÚR­SKURÐUR

 

Þann 24. febrúar 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 13/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta fyrir Norðurland eystra samþykkti á fundi sínum þann 19. desember 2002 um­sókn C um at­vinnu­leysis­bætur, dags. 2. desember 2002.  C var tilkynnt um ákvörðun úthlutunarnefndar með bréfi dagsettu 19. desember 2002.

 

2.

 

Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ákvað með vísan í 4. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 að kæra ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta.  Í bréfi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs dags. 30. desember 2002 er vísað í bréf formanns úthlutunarnefndarinnar dags. 13. janúar 2003 og bréf nefndarmanns í úthlutunarnefndinni dags. 19. desember 2002.  Í bréfum þessum kemur fram að C sé hluthafi í X ehf. og situr jafnframt í stjórn félagsins.  Í bréfi nefndarmanns úthlutunarnefndarinnar kemur jafnframt fram að X ehf. sjá um sölu á framleiðslu Z hf. til einstaklinga og sé með skráð virðisaukaskattnúmer.  Þar sem C sé hluthafi félagsins og sitji jafnframt í stjórn þess hljóti að verða líta á hana sem sjálfstætt starfandi einstakling og geti þess vegna ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum nema starfsemi félagsins sé hætt og virðisaukaskattnúmeri þess skilað inn.

 

3.

 

Samkvæmt útskrift frá hlutafélagaskrá dags. 12. desember 2002 kemur fram að X hafi verið stofnað þann 9. apríl 2002 og að C hafi frá þeim degi verið stjórnarmaður í félaginu.  Einnig kemur fram að tilgangur félagsins sé að kaupa og selja grænmeti, garðplöntur og aðrar svipaðar afurðir, auk rekstrar- og ráðgjafarþjónustu.  Í vottorði stjórnarformanns X ehf. dags. 4. desember 2003 kemur fram að C sé skráð fyrir 15% hlutafé í félaginu.  Í útskrift úr virðisaukaskattskrá dags. 21. febrúar 2003 kemur fram að X ehf. sé með opið virðisaukaskattnúmer nr. 74798.

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

 

Sam­kvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997 er fé­lags­mála­ráð­herra veitt heimild til að setja nánari reglur um hvaða skil­yrðum sjálf­s­tætt starf­andi einstaklingar skulu full­nægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum. Segir í ákvæði þessu að m.a. skuli settar reglur um hvaða skil­yrðum menn verða að full­nægja til þess að teljast sjálf­s­tætt starf­andi og vera at­vinnu­lausir. Í 6. gr. reglu­gerðar nr. 740/1997 um bóta­rétt sjálf­s­tætt starf­andi einstaklinga úr At­vinnu­leysis­trygginga­sjóði segir orðrétt:

 

Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst vera atvinnulaus, þegar hann uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:

1. Er hættur rekstri, sbr. 7. - 10. gr.,

2. hefur ekki tekjur af rekstri,

3. hefur ekki hafið störf sem launamaður,

4. er sannanlega í atvinnuleit og er reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa,

5. hefur tilkynnt lok rekstrarins til opinberra aðila, sbr. 7. gr.

 

            Í 7. gr. er kveðið á um að til að tilkynning um lok rekstrar teljist fullnægjandi þurfi hún að bera með sér að:

1.  Lok sjálfstæðrar starfsemi hafi verið tilkynnt launagreiðandaskrá Ríkisskattstjóra og

2.  virðisaukaskattskyldri starfsemi hafi verið hætt.

 

            Í lögum um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997 er ekki kveðið sér­stak­lega á um réttar­stöðu þeirra sem eiga hlut í og/eða eru aðilar að stjórnun fyrir­tækja. Í reglu­gerð nr. 740/1997 um bóta­rétt sjálf­s­tætt starf­andi einstaklinga segir hins vegar orð­rétt í 11. gr.:

 

Um þá sem starfa hjá fyrir­tæki sem þeir eiga hlut í og/eða stjórna.

Maður sem star­far við eigin at­vinnu­rekstur, einn eða ás­amt maka sínum, eða við starf­semi sem hann rekur í sam­eign með öðrum aðila eða sem fer fram á vegum lög­aðila sem hann á jafnframt 50% eða meiri eignar­hluta í og/eða er aðili að stjórnun fyrir­tækisins, skal ekki á sama tíma eiga rétt á at­vinnu­leysis­bótum.  Sama gildir um þann sem vinnur við eigin at­vinnu­rekstur og á, einn eða ás­amt maka, börnum eða öðrum ná­komnum sbr. 3. tölul. 1. gr., 10 % eða meiri eignar­hluta í fyrir­tæki gegni hann jafnframt stöðu framkvæmda­stjóra, hafi prókúru þess eða á sæti í stjórn þess.

Til að öðlast rétt til at­vinnu­leysis­bóta verður hlut­að­eigandi að sýna fram á að hann hafi fram­selt eignar­hluta sinn og/eða sagt sig í raun frá stjórn fyrir­tækisins að upp­fylltum skil­yrðum 3. mgr. 9. gr. og að hann upp­fylli að öðru leyti skil­yrði laga um at­vinnu­leysis­tryggingar og þessarar reglu­gerðar fyrir bóta­rétti.

3. mgr. 9. gr. kveður síðan á um að ekki er hægt að uppfylla skilyrði um framsal eða lokun reksturs með því að afhenda reksturinn nákomnum.

 

3.

 

Ljóst er að kærandi á meira en 10% eignarhluta og situr jafnframt í stjórn X ehf. sem er í rekstri og með opið virðisaukaskattnúmer.  Samkvæmt skilgreiningu reglugerðar nr. 740/1997 hefur kærandi því stöðu sjálfstætt starfandi einstaklings.  Skilgreining þessi er óháð því hvort félagið greiði viðkomandi laun eða ekki.  Samkvæmt reglugerðinni skal hún ekki á sama tíma eiga rétt á atvinnuleysisbótum nema hún geti sýnt fram á að hún hafi framselt eignarhluta sinn eða rekstri hafi verið hætt skv. 6. gr. reglugerðarinnar.   Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur uppfylli ekki skilyrði laga um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta.   Ber af þeim sökum að fella úr gildi úrskurð úthlutunarnefndar þar sem umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var samþykkt.

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Norðurland eystra í máli C felld úr gildi.

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Norðurland eystra frá 19. desember 2002 þar sem umsókn C um atvinnuleysisbætur er samþykkt, er felld úr gildi.

           

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                             Benedikt Davíðs­son

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni