Ákvörðun um 26% bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings felld úr gildi. Bótaréttur ákvarðast 30%.
Nr. 38 - 2004
Úrskurður
Hinn 2. júní 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 38/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum umsókn X um atvinnuleysisbætur. Jafnframt ákvað nefndin að bótaréttur X væri 26%. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 316/2003 um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði, þar sem kveðið er á um að sjóðfélagi, sem greiðir mánaðarlega stargreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein, teljist vera í hlutastarfi.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 18. maí 2004. Í bréfi sínu segist hann fara fram á það að starfshlutfall hans hjá Atvinnuleysistryggingasjóði verði hækkað í 100%. Hann segist hafa unnið hjá fyrirtæki í sinni eigu síðastliðin 15 ár og að starfshlutfall hans hafi verið yfir 100% allan þann tíma. Hann hafi verið starfandi á vinnumarkaði s.l. 43 ár og greitt skatta sína til ríkisins. Nú sé svo komið að hann þurfi aðstoð frá ríkinu.
3.
Fyrir liggur í málinu útskrift úr hlutafélagaskrá dags. 1. júní 2004 þar sem fram kemur að X hefur rekið sjálfstæða undir nafninu Y ehf. til margra ára ásamt fjölskyldu sinni. X er sagður formaður stjórnar og framkvæmdastjóri með prókúruumboð og starfsemin er sögð rekstur söluturna. Samkvæmt vinnuveitandavottorði frá Y ehf., dags. 13. apríl 2004, sem X skrifar sjálfur undir, var hann í 100% starfi hjá fyrirtækinu tímabilið 1988 til 1. apríl 2004. Ástæða starfsloka er sögð sú að fyrirtækið hafi verið selt. Samkvæmt reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald ber þeim sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða starfar á vegum einkahlutafélags þar sem hann hefur ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar að reikna sér mánaðarlegt endurgjald fyrir vinnu sína. Samkvæmt reglunum fellur starfsemi X undir flokk B(4), þ.e. starfsemi við hvers konar verslun og viðskipti. Samkvæmt viðmiðunarreglum átti hann að reikna sér kr. 285.000 í endurgjald á mánuði árið 2004 miðað við 100% vinnu og skila af því 5.73% í tryggingagjald. Á árinu 2003 átti hann að reikna sér kr. 270.000 í endurgjald á mánuði miðað við 100% starfshlutfall. X fékk heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald. Samkvæmt úrskrift frá ríkisskattstjóra reiknaði hann sér kr. 90.000 í endurgjald í þrjá mánuði á árinu 2004 eða janúar til mars s.l. Allt árið 2003 fékk hann heimild til að reikna sér kr. 80.00 í endurgjald á mánuði.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 eiga sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr sjóðnum samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga nr. 12/1997 sbr. 5. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 316/2003 um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði er skilyrði að þeir hafi á síðustu tólf mánuðum áður en þeir stöðvuðu rekstur eða urðu atvinnulausir staðið mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi í a.m.k. þrjá mánuði áður en rekstur stöðvaðist, en hlutfallslega lengur hafi tekjur af rekstri verið lægri en viðmiðun reiknaðs endurgjalds í hlutaðeigandi starfsgrein samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra.
Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 316/2003 telst sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein vera í fullu starfi. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar telst einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaháðherra í viðkomandi starfsgrein vera í hlutastarfi. Starfshlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sjóðfélaga og viðmiðunarfjárhæðar.
2.
Samkvæmt auglýsingu fjármálaráðherra um reiknað endurgjald fellur starfsemi kæranda undir flokk B(4). Samkvæmt viðmiðunarreglum átti hann að reikna sér 285.000 í endurgjald á mánuði miðað við 100% vinnu á árinu 2004 og kr. 270.000 á mánuði á árinu 2003. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal, til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga, miða við skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu 12 mánuði sem starfsemi var í gangi. Á þessu tímabili fékk kærandi heimild skattstjóra til að reikna sér lægra endurgjald en viðmiðunarreglur um reiknað endurgjald kveða á um eða kr. 90.000 á mánuði í þrjá mánuði árið 2004 og kr. 80.000 á mánuði allt árið 2003. Samkvæmt þessu reiknast starfshlutfall kæranda 30% og bótaréttur hans til atvinnuleysisbóta samsvarandi.
Samkvæmt ofangreindu er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar um 26% bótahlutfall kæranda. Bótaréttur kæranda ákvarðast 30% með vísan í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar og 6. gr. rgl. 316/2003 um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið um 26% bótahlutfall X er felld úr gildi. Bótaréttur hans ákvarðast 30% með vísan til 5 og 6. gr. rgl. 316/2003 um rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði svo og reglna fjármálaráðherra um reiknað endurgjald sbr. 3. málsl. 1. mgr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka