Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hafnar atvinnutilboði. Staðfest.
Nr. 39 - 2004

 Úrskurður

 

Hinn 2. júní 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 39/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta fyrir Vestfirði ákvað á fundi 11. maí 2004, að réttur X til atvinnuleysisbóta skyldi felldur niður í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli þess að X hafði hafnað atvinnutilboði dags. 4. maí 2004 um starf hjá Y ehf.

 

2.

 

X kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 24. maí 2004. Í bréfinu segir hann að þegar honum hafi boðist að fara sem matsveinn á Z sem Y ehf. gerir út, þá hafi hann ekki getað orðið við því af ýmsum ástæðum.  Hann þekki vel til á þessum bát og viti að greiðslur, hvort sem um er að ræða laun eða launatengd gjöld, séu í hinu mesta fári og hafi lengi verið.  Svo sé nú komið að menn um borð í skipinu hafi fyrir stuttu verið að ræða um sín á milli að leggja fram kæru á hendur útgerðinni vegna vanefnda á kjarasamningum.  Einnig sé það svo að matsveinn á þessu skipi þurfi að fara á dekk og gegna þar öllum stöfum.  Þetta sé honum algjörlega framandi þar sem hann hafi aldrei unnið á dekki frá því hann byrjaði á sjó árið 1991.  Þó svo allt hefði verið í lagi með greiðslur hefði hann aldrei staðið undir því sem ætlast hefði verið til af honum í þessu starfi, hann sé ekki lengur tvítugur heldur 52ja ára gamall.

X segir að á sínum tíma hafi hann og fleiri varað svæðisvinnumiðlun við ákveðnu fyrirtæki á S.  Fyrirtæki þetta hafi alltaf vantað fólk þar sem mikil vanhöld hafi verið á launagreiðslum.  Á fundi hjá svæðisvinnumiðlun haf eitt sinn verið sagt frá því að enga vinnu væri að fá nema hjá áðurnefndu fyrirtæki, en svæðisvinnumiðlun mælti þó ekki með því að neinn þeirra færi þangað í vinnu vegna vanefndanna.  Þetta hafi honum fundist hárrétt ákvörðun.  Nákvæmlega það sama sé í gangi með Z og því finnist honum óskiljanlegt að hann sé tekinn af bótum og sendur í svona óvissu.  Þó svo vinnan hefði hentað sér, sem hún gerði þó ekki eins og hann hafi áður lýst, þá hafi aðeins verið um einn eða tvo túra að ræða.  Hann vilji einnig taka fram að hann hafi leyst af sem matsveinn á H frá áramótum og farið í nokkrar veiðiferðir.  Það hafi verið samningur í gangi um að hann myndi leysa þar af væri hann ekki kominn með fast starf.  Ef hann hefði leyst af á Z hefði hann e.t.v. ekki getað staðið við samninginn og því ekki verið maður orða sinna eins og hann vilji vera.  Hann sé nú búinn að sækja um þrjú störf, tvö í Reykjavík og eitt þarna á svæðinu, en það verði að koma í ljós hvernig það fari. 

 

3.

 

            Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð frá Y ehf. dags. 4. maí 2004 um afleysingastarf matsveins í 1-2 veiðiferðir.  Ástæða höfnunar vinnutilboðs er sögð að X treysti ekki fyrirtækinu til að greiða samningsbundin laun og ef frekari skýringa sé þörf hafi hann vitni af þessu.  Samkvæmt símtali svæðisvinnumiðlunar við forstöðumann fyrirtækisins hafði X samþykkt að taka að sér þetta starf áður en leitað var til svæðisvinnumiðlunar, en síðan hætt við.  Að mati úthlutunarnefndar hafnaði X starfi án gildra ástæðna, þ.e. að vinnuveitandi myndi hugsanlega ekki greiða samningsbundin laun.

 

Niður­staða

 

1.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 545/1997 skal umsækjandi um atvinnuleysisbætur gera grein fyrir vinnufærni sinni þegar hann sækir um bæturnar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysisbætur veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um niðurfellingu bótarréttar í 40 bótadaga.

Þá er einnig bent á ákvæði 6. tölul. 2. gr. laganna þar sem það er sett sem skilyrði bótaréttar að bótaþegi sé reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa.

Þessi skilyrði eru áréttuð frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt: ,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

c.         Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

2.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi atvinnutilboði dags. 4. maí 2004 hafnaði kærandi tímabundnu starfi matsveins á togskipi.  Samkvæmt atvinnutilboðinu skyldu starfskjör vera samkvæmt kjarasamningum sjómannafélaga.  Kærandi segist hafa hafnað starfstilboðinu þar sem hann treysti fyrirtækinu ekki til að greiða sér samningsbundin laun, auk þess sem hann treysti sér ekki til að sinna störfum á dekki samhliða matsveinsstarfinu eins og gera þurfi á þessum togara. Kærandi segir að þó að í lagi hefði verið með launamálin þá hefði hann samt sem áður hafnað starfinu þar sem hann treysti sér ekki til að sinna starfi á dekki þar sem hann hafi aldrei gert það áður og þar sem hann sé ekki lengur tvítugur.  Fram kemur að kærandi er 52ja ára gamall maður sem stundað hefur fiskvinnslu og sjómennsku til margra ára.  Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar er það m.a. skilyrði greiðslna atvinnuleysisbóta að umsækjendur séu fullfærir til starfa og tilbúnir að taka öllum almennum störfum.  Í umsókn kæranda um atvinnu og atvinnuleysisbætur dags. 9. febrúar 2004 neitar hann skertri vinnufærni og segist vera almennt vinnufær.  Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars vegar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta verður ekki talið að kærandi hafi haft gilda ástæðu í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar til hafna starfinu.   

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta fyrir Vestfirði um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Vestfirði frá 4. maí 2004 um að X skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga með vísan til 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er staðfest.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

 

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni