Ákvörðun um tvöfalda endurgreiðslu ofgreiddra bóta auk sex mánaða niðurfellingu bótaréttar felld úr gildi. Einföld endurgreiðsla ákveðin þess í stað ásamt sex mánaða niðurfellingu bótaréttar.
Nr. 41 - 2004
úSKUrður
Hinn 6. júlí 2004 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 41/2004.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 11. maí 2004 að X bæri að endurgreiða tvöfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur, alls kr. 3.034.458, auk þess sem bótaréttur hennar var felldur niður í sex mánuði. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að samkvæmt vinnuveitandavottorði frá Y ehf. dags. 24. mars 2004 hafði hún starfað hjá fyrirtækinu í 100% starfi samhliða 100% bótagreiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði tímabilið frá 2. júlí 2002 þar til bótagreiðslur til hennar voru stöðvaðar þann 31. desember 2003, eða í alls 360 bótadaga, samtals kr. 1.517.290. Þetta hafi hún gert án þess að tilkynna Vinnumiðlun eða úthlutunarnefnd um vinnuna. Auk þess hafi hún starfað við ræstingar í ótiltekinn tímafjölda hjá Z á tímabilinu mars til september 2003 samkvæmt greiddum félagsgjöldum í Eflingu, stéttarfélag. Hún hafi heldur ekki tilkynnt um þessa vinnu fyrr en bótagreiðslur til hennar voru stöðvaðar þar sem nafn hennar kom fram á samkeyrslulista RSK og Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þegar X var beðin um skýringar kvað hún það vera vegna vinnu hjá Z og fullyrti að hún hefði ekki gleymt að tilkynna neina aðra vinnu. Síðan hafi komið í ljós að á sama tíma var hún í fullri vinnu hjá Y ehf. X var boðið að koma með skriflegar skýringar. Í bréfi dags. 28. apríl 2004 segir hún að hún hafi ekki þekkt reglur um atvinnuleysisbætur og fullyrðir að vinnuveitandi hennar hafi tjáð sér að það væri í lagi að stunda vinnu samhliða bótum án þess að slíkt hefði áhrif á bótarétt. Mat úthlutunarnefndarinnar er að hér sé um mjög alvarlegt brot að ræða og að X hafi ætlað að afla sér bóta með því að gefa upp rangar upplýsingar um stöðu sína á vinnumarkaði. Það var því niðurstaða úthlutunarnefndar að X bæri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði tvöfalda þá upphæð sem hún hefur ranglega fengið greidda, eða alls kr. 3.034.580, auk þess að bótaréttur hennar er felldur niður í sex mánuði með vísan til 15. gr. og 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 28. maí 2004, þar sem hún óskar eftir að ákvörðunin verði felld úr gildi og til vara að endurgreiðsla skv. úrskurðinum verði lækkuð. Málavextir séu þeir að hún hafi ekki verið í 100% starfi hjá Y ehf, heldur hafi hún unnið þar tíma samkvæmt útkalli. Aldrei hafi verið um fastar vaktir eða fastan vinnutíma að ræða. Y ehf. hafi sagt henni upp störfum snemma sumars 2002 og skráði hún sig þá atvinnulausa. Nokkru síðar var henni boðin íhlaupavinna, þ.e. að kallað yrði í hana til vinnu þegar á þyrfti að halda. Vinnuveitandinn hafi tjáð henni að þetta hefði ekki áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta og hún hafi því verið í góðri trú um að henni væri þetta heimilt, enda aðeins um tímavinnu skv. útkalli endrum og eins. Hún sé fimm barna einstæð móðir. Atvinnuleysisbætur dugi engan veginn til framfærslu fjölskyldunnar og því hafi hún tekið því fegins hendi að fá þessa vinnutíma. Af þessum sökum óskar hún eftir því að 15. og 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði ekki beitt í máli sínu. Hún hafi verið í góðri trú þegar hún þáði bætur þennan tíma og það myndi rústa fjárhag hennar ef ákvæðum þessum yrði beitt.
3.
Í málinu liggur fyrir vinnuveitandavottorð dags. 24. mars. 2004 frá fyrirtækinu Y ehf. Þar kemur fram að X vann hjá fyrirtækinu sem ræstitæknir í 100% starfi tímabilið 12. júlí 2001 til 24. febrúar 2004. Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi hætt sjálf og farið í aðra vinnu. Samkvæmt úrskrift frá Ríkisskattstjóra dags. 8. júní 2004 var X í vinnu hjá Y ehf. tvo fyrstu mánuði ársins 2004 og þáði um kr. 205.000 í laun hvorn mánuð. Á árinu 2003 þiggur hún laun frá Y ehf. mánuðina janúar, febrúar, mars, maí, september, október, nóvember og desember. Mánuðina mars, apríl, maí, júní og ágúst þiggur hún laun frá Z. Í september 2003 þiggur hún að auki laun frá R ehf. Alla þessa mánuði þiggur hún atvinnuleysisbætur. Vinnulaun hennar eru á þessu ári fara hæst í 171.560 á mánuði og lægst í tæp 40.000 á mánuði auk fullra bóta frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Á árinu 2002 var hún á launaskrá hjá Y ehf. september til desember auk þess að þiggja atvinnuleysisbætur. Vinnulaun hennar hjá Y ehf. voru á þessu tímabili lægst 78.234 á mánuði og hæst 135.000 á mánuði.
Niðurstaða
1.
Lög um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 byggja á þeirri forsendu sbr. 1. gr. laganna að þeir einir eigi rétt á atvinnuleysisbótum sem eru án atvinnu enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta. Einnig segir að fyrsta brot varði missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot varði missi bóta í 1-2 ár.
Í 2. mgr. 27. gr. laganna segir orðrétt: Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.
2.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi var í fullri vinnu tímabilið 12. mars. 2001 til 24. febrúar 2004. Hann þáði jafnframt atvinnuleysisbætur tímabilið 2. júlí 2002 til 31. desember 2003 er bótagreiðslur til hans voru stöðvaðar. Að mati úrskurðarnefndar gaf kærandi því villandi upplýsingar hjá vinnumiðlun og leyndi upplýsingum um hagi sína til að afla sér bóta. Að mati úrskurðarnefndar er þó rétt að taka tillit til þess að um konu er að ræða sem er að erlendu bergi brotin og e.t.v. um tungumálaerfiðleika að ræða. Einnig er um 5 barna móður að ræða, og er það mat úrskurðarnefndar að einföld endurgreiðsla verði látin næga. Að öðru leyti stendur ákvörðun úthlutunarnefndar um 6 mánaða niðurfellingu bótaréttar óröskuð með vísan til 15. gr. og 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 11. maí 2004 um að X beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði tvöfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur er felld úr gildi. Í stað þess ber henni að greiða einfaldar ofgreiddar bætur, alls að fjárhæð kr. 1.517.290, auk niðurfellingar bótaréttar í sex mánuði með vísan til 15. gr. og 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka