Ótímabundin niðurfelling bótaréttar. Hafnar tveimur atvinnutilboðum vegna fjarlægðar vinnustaðar frá heimili. Fellt úr gildi. Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadga ákveðin þess í stað.
Nr. 42 - 2004

ÚR­SKURÐUR

 

Þann 6. júlí 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 42/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Máls­at­vik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta fyrir Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga ákvað á fundi sínum þann 18. maí 20­04, að fella bótarétt X niður ótímabundið á grundvelli 4. tölul. 8. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997.   Ákvörðun þessu var tekin með vísan til þess að X hefði tvisvar hafnað atvinnutilboði á vegum svæðisvinnumiðlunar.

 

2.

X kærði framan­greinda ákvörðun til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi dags. 31. maí 2004. Í bréfi sínu segist hún hafa stundað búskap ásamt manni sínum nær alla sína starfsævi á bænum Y.  Vegna heilsuleysis manns hennar urðu þau að hætta búrekstri á síðasta ári og tóku dóttir hennar og tengdasonur við búinu. Hún og maður hennar búa áfram á jörðinni en hafa ekki haft neinar tekjur af rekstrinum og hefur hún því verið án atvinnu síðan þau hætti búskap og þegið atvinnuleysisbætur.  X segir að þann 28. apríl hafi Svæðisvinnumiðlun Vesturlands boðið henni vinnu í Borgarnesi.  Til að sækja vinnu í Borgarnesi þurfi hún að aka 150 km. daglega.  Hún verði 65 ára síðar á þessu ári og segist óvön að keyra langar vegalengdir.  Hún hafi því skrifað Svæðisvinnumiðlun bréf þar sem fram hafi komið að atvinna svo fjarri heimili hennar gagnaðist henni ekki.  Hún hafi aftur fengið boð um atvinnu að Z á Snæfellsnesi.  Sú vinna hefði kallað á 100 km keyrslu á dag.  Hún treysti sér heldur ekki til að þiggja þá vinnu sökum fjarlægðar.  Hún hafi því skrifað Svæðisvinnumiðlun bréf og bent á að umrædd vinna væri utan þeirra fjarlægðarmarka sem hún treysti sér til að ferðast daglega. 

 

3.

 

            Í gögnum málsins liggja fyrir tvö atvinnutilboð dags. 3. maí 2004 frá Svæðisvinnumiðlun.  Annað er um starf við pökkun á kjötvörum í Borgarnesi og hitt er starf við að sjá um morgunverð og þrif á herbergjum á Z á Snæfellsnesi.  Bæði störfin miðast við 100% starfshlutfall.  Fram kemur að Ásta hafnaði báðum atvinnutilboðunum vegna fjarlægðar frá heimili hennar, sem er bóndabýli á sunnanverðu Snæfellsnesi.  Haft samband við Vegagerðina til að fá  nánari upplýsingar um fjarlægðir frá heimili hennar til þeirra staða sem henni var boðin vinna á.  Fram kom að milli heimilis hennar og Borgarnes eru 72 km.  Z er í næsta hreppi við hrepp þann sem X býr í.  Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar eru 42 km. til Z frá heimili hennar.  Næstu þéttbýlisstaðir við heimili X eru Borgarnes og Stykkishólmur, sem er í svipaðri fjarlægð frá heimili hennar og Z.  Á umsókn sinni um atvinnu og atvinnuleysisbætur hjá Svæðisvinnumiðlun tekur X fram að hún óski eftir fullri vinnu og að hún hafi bílpróf og bifreið til umráða. Miðað við venjulegan ökuhraða er um hálftíma akstur frá heimili X til Z.

 

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 4. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997 eiga sjóðfélagar sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr sjóðnum samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein, sbr. 4. mgr. 15. gr., gilda ákvæði 4. tölul. 8. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um niðurfellingu bótarréttar í 40 bótadaga í fyrsta sinn og að bótatímabil skerðist  sem því nemur.  Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju nema hann sanni að hann hafi stundað tryggingaskylda vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.  Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. metur úthlutunarnefnd hvort það skuli varða missi bótaréttar þegar hafnað er vinnu fjarri heimili og skal þá gætt m.a. heimilisaðstæðna umsækjanda.  

Þá er einnig bent á ákvæði 7. tölul. 4. gr. laganna þar sem það er sett sem skilyrði bótaréttar að bótaþegi sé reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa.

 

2.

Kærandi býr í sveit og engir þéttbýlisstaðir eru í næsta nágrenni við heimili hans.  Atvinnutækifæri í nágrenni heimilis kæranda eru því takmörkuð.  Hann hafnaði atvinnutilboði í næstu sveit vegna fjarlægðar.  Um hálftímaakstur er frá heimili kæranda og vinnustaðarins.  Að mati úr­skurð­ar­n­efndar at­vinnu­leysis­bóta verður að líta svo á að heimili kæranda og Z séu á einu og sama atvinnusvæði í skilningi laga um at­vinnu­leysis­tryggingar og laga um vinnu­markaðs­að­gerðir. Frá þessu verður einungis vikið ef sér­stakar að­stæður hjá bóta­þega réttlæti að hann geti að einhverju leyti tak­markað at­vinnu­leit við svæði innan framan­greinds at­vinnu­­svæðis. Kærandi hefur að mati úrskurðarnefndar ekki fært fram neinar þær ástæður sem réttlæta höfnun umrædds atvinnutilboð.  Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars vegar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara.  Hvað varðar tilboð til kæranda um vinnu í Borgarnesi telur úrskurðarnefndin frekar leika vafa á skyldu kæranda til að þiggja það starf vegna fjarlægðar.  Er það mat nefndarinnar að kærandi eigi að njóta vafans og að hann verði ekki látinn sæta ítrekunarákvæðis lagana um ótímabundna niðurfellingu bóta.  Kærandi verður þess í stað látinn sæta 40 daga niðurfellingu bótaréttar.

 

Með vísan til framan­ritaðs er ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar kæranda samkvæmt 4. tölul. 8. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997 felld úr gildi.  Í stað þess skal kærandi sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 15. gr. sbr. 4. tölul. 8. gr. laga nr. 46/1997.

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga frá 18. maí 2004 um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar X er felld úr gildi.  Í stað þess skal hún sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 15. gr. laga um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 46/1997.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                             Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni