2004-082 Bótaréttur einstaklings á meðan stéttarfélag hans er í verkfalli.
Nr. 82 - 2004

 

Úrskurður

 

Hinn 9. nóvember 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 82/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Úthlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið tók þá ákvörðun, sbr. bréf dags. 30. september 2004, að fella niður atvinnuleysisbætur Y meðan á verkfalli grunnskólakennara stendur með vísan í 1. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar, sem kveður á um  að þeir sem taka þátt í verkfalli eða verkbann tekur til eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Í bréfi úthlutunarnefndar sagði að samkvæmt upplýsingum Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins greiði Y til KÍ.  Hann  hafi því verið afskráður af atvinnuleysisskrá með vísan til áðurnefndar lagagreinar.  Ekki verði um atvinnuleysisbótagreiðslur frá upphafsdegi verkfallsins.  Hafi staða hans ekkert breyst þegar verkfalli lýkur er hann beðinn um að láta Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins vita svo hægt sé að skrá hann aftur.

 

2.

Ákvörðun úthlutunarnefndar var kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi frá lögmanni Y dags 26. október 2004. Í bréfinu segir að Y uni ekki þessari ákvörðun og telji hana alls ekki hafa stoð í hinni tilvitnuðu lagagrein.  Meginskilyrði þess að menn öðlist rétt til atvinnuleysisbóta komi fram í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem kveði á um að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, eigi rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.  Samkvæmt þessari meginreglu eigi vinnufærir og atvinnulausir menn rétt á atvinnuleysisbótum meðan þeir eru atvinnulausir nema þau atvik séu fyrir hendi sem takmarki þann rétt.  Lögmaðurinn vísar í bréfi sínu í III. kafla laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna þar sem kveðið sé á um verkföll og verkfallsboðun.  Í 14. grein laganna segir að það teljist til verkfalla í skilningi laganna þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti.  Einnig er vísað til 15. gr. laganna sem kveður á um verkfallsboðun.  Þar segir að til að samþykkja verkfallsboðun þurfi a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti samþykkt hana.  Þessi grein sýni augljóslega að atvinnulausir félagsmen hafi ekki atkvæðisrétt um boðun verkfallsins, skilyrði atkvæðisréttar er að þeir séu starfandi hjá þeim sem verkfallið beinist að.  Þeir hafi heldur ekki atkvæðisrétt um kjarasamninginn sjálfan því þeir taki ekki laun samkvæmt ákvæðum hans.

Í bréfinu segir að ákvæði 1. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 taki eftir efni sínu til þeirra sem eru í verkfalli eða bundnir af verkbanni.  Verkbann geti ekki beinst að öðrum en þeim sem eiga í vinnudeilu og atvinnulausir menn geta ekki efnt til verkfalls hjá tilteknum vinnuveitanda til að stuðla að framgangi krafna sinna í vinnudeilu.    Tilgangur ákvæðisins sé m.a. að koma í veg fyrir að þeir sem efna til verkfalls geti verið á atvinnuleysisbótum á meðan þeir standi í vinnudeilu.  Þess er að lokum krafist að úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta felli umrædda ákvörðun úthlutunarnefndar úr gildi.

 

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1977 eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt Í 1. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að þeir sem taka þátt í verkfalli eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum.  Sama gildir um þá sem verkbann tekur til.

Samkvæmt 14. gr. laga um vinnudeildur og stéttarfélög nr. 80/1938, með síðari breytingum, er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum heimilt að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum þessum með þeim skilyrðum og takmörkunum einum sem settar eru í lögum.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna telst það til verkfalla í skilningi laganna þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði.  Það sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir að hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla.

Í 2. málslið 15. gr. laganna segir að til að samþykkja verkfallsboðun þurfi a.m.k. helmingur þeirra félagsmann, sem starfa hjá þeim sem verkfallið beinist gegn, að hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni og meiri hluti þeirra að hafa samþykkt hana.

Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er það sett sem skilyrði bótaréttar að bótaþegi sé reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa.  Þessi skilyrði er áréttuð frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt: ,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

 

2.

Regla 1. töluliðar 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á fyrst og fremst við um þá launþega sem verða atvinnulausir vegna þátttöku sinnar í verkfalli.  Þeir fara í verkfall vegna aðildar sinnar að því stéttarfélagi sem lýsir yfir verkfalli á vinnustað eða atvinnusvæði þeirra. Samkvæmt 14. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna telst það til verkfalla í skilningi laganna að starfsmenn leggi niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti.  Þeir sem eru atvinnulausir leggja ekki niður nein störf vegna verkfalls og geta því ekki fallið undir þessi skilyrði.  Að auki er skilyrði aðkvæðaréttar um verkfallsboðun að viðkomandi starfi hjá þeim sem verkfallsboðun beinist að.  Þetta á ekki við um þá sem eru atvinnulausir, þeir hafa hvorki atkvæðarétt um verkfallsboðun eða kjarasamninga og eru ekki í vinnudeilu. Verkbann getur ekki beinst að öðrum en þeim sem eru í vinnudeilu.   Rúm túlkun 1. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefur það að markmiði að koma í veg fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður með greiðslu atvinnuleysisbóta taki með beinum eða óbeinum hætti þátt í deilu aðila vinnumarkaðsins.

Einnig má nefna að samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 545/1997 er skilyrði greiðslu atvinnuleysisbóta að bótaþegi sé reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa.  Þannig verður grunnskólakennari sem þiggur atvinnuleysisbætur að þiggja alla almenna vinnu sem honum býðst þó að hún liggi utan fagsviðs hans.  Það er því alls ekki víst að hann fái vinnu í sínu fagi og njóti nokkurs af því sem ávinnst í verkfalli grunnskólakennara.

 

Að teknu tilliti til þessa er það mat úrskurðarnefndarinnar að fella beri úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar niðurfellingu bótaréttar kæranda á meðan á verkfalli grunnskólakennara stendur með vísan í 1. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, enda komi greiddur verkfallsstyrkur til frádráttar greiddum atvinnuleysisbótum.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 30. september  2004 um niðurfellingu bótaréttar Y á meðan á verkfalli grunnskólakennara stendur með vísan til 1. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 14. gr. og 15. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er felld úr gildi, enda komi greiddur verkfallsstyrkur til frádráttar greiddum atvinnuleysisbótum.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni