Niðurfelling bótaréttar vegna atvinnutilboðs sem felur í sér fasta yfirvinnu
Nr. 10 - 2005
Úrskurður
Hinn 16. febrúar 2005 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 10/2005.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 18. október 2004 að réttur Y til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að hann hafnaði atvinnutilboði svæðisvinnumiðlunar frá I sem dagsett var þann 12. október 2004.
2.
Y kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 14. janúar 2005. Í bréfi sínu segist hann hafa hafnað vinnunni vegna skyldubundinnar fastrar yfirvinnu. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar dags. 29. nóvember 2004 var sagt að hann hafi hafnað vinnunni skýringarlaust. Þetta sé rangt, það hafi bæði komið fram í bréfi hans til úthlutunarnefndar svo og í skjali frá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins að hann hafi hafnað vinnunni vegna þessarar skyldubundnu yfirvinnu og vísað í lög nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku. Þetta sé einfalt reikningsdæmi, vinnutíminn hafi átt að vera frá kl. 8:00 til 18:00og þá verði vinnustundir fleiri en 40 og því um fasta yfirvinnu að ræða. Hann sé fús til að taka að sér hverja þá vinnu þar sem ekki sé um skyldubundna yfirvinnu að ræða. Það liggi ýmsar persónulegar ástæður fyrir því að hann geti ekki sem stendur tekið að sér störf sem fela í sér fasta yfirvinnu. Ekki sé sjálfgefið að menn geti alltaf ráðið sig í slík störf, þetta ætti að vera grundvallaratriði ef lögin um 40 stunda vinnuviku séu raunverulega gild.
3.
Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð dags. 12. október 2004 frá I. Um er að ræða verkamannavinnu við byggingar og vinnutími sagður kl. 8:00 til 18:00. Samkvæmt atvinnutilboðinu hafnaði Y vinnunni þar sem hún væri með fastri yfirvinnu. Í atvinnutilboðinu kemur fram að vinnutími sé áætlaður á tímabilinu 8-18. Ekki kemur fram að um skyldubundna yfirvinnu hafi verið að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá vinnumiðlun hafnaði Y vinnunni á vinnumiðlun án þess að hafa samband við atvinnurekandann og kanna hvort raunverulega um skyldubundna yfirvinnu væri að ræða eða hvort einungis væri um það að ræða að vinnan skyldi framkvæmd innan þessara tímamarka eða að tilfallandi yfirvinna yrði innan þessara tímamarka.
Samkvæmt umsókn Y um atvinnu og atvinnuleysisbætur hjá vinnumiðlun dags. 1. ágúst 2003 óskar hann eftir fullri vinnu. Óskir um vinnu eru m.a. næturvinna. Fram kemur að Y er ógiftur og á eitt barn sem býr ekki á heimili hans. Að hans sögn er hann almennt vinnufær og ekki með skerta vinnufærni.
4.
Úrskurðarnefndin sendi Y í framhaldi af þessu fyrirspurn og óskað eftir upplýsingum um það hvort hann hafi látið á það reyna hvort um skyldubundna yfirvinnu hafi verið að ræða og hvort umrætt starf hefði staðið honum til boða án yfirvinnu. Einnig óskaði nefndin eftir upplýsingum frá honum um ástæður þess að hann teldi sig ekki geta þegið vinnu sem feli í sér tveggja tíma yfirvinnu virka daga. Y svaraði fyrirspurninni með bréfi dags. 15. febrúar 2005. Í bréfi sínu segist hann ekki hafa látið á það reyna hvort hann hefði átt möguleika á að ráða sig hjá I í 8 tíma vinnu á dag. Hann hafi hafnað tilboðinu á skrifstofu Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins á grundvelli þeirra upplýsinga sem þar lágu fyrir. Hann hafi verið byggingaverkamaður í alls 3-4 ár og viti að þessi vinnutími er reglan í byggingaiðnaði og þyki í rauninni lágmark. Þess vegna datt honum ekki í hug að athuga málið frekar.
Ástæður þess að hann gat ekki þegið vinnu sem felur í sér yfirvinnu sem felur í sér 1-2 tíma á dag séu af tvennum toga spunnar. Annars vegar sé hann í kvöldskóla og hefjist kennslustundir þar suma dagana kl. 17:30. Hann muni ljúka stúdentsprófi um næstu jól. Á miðvikudögum hafi hann síðan haft ákveðnum föðurskyldum að gegna á sjötta tímanum og það sama gildi um annan hvern föstudag.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1977 eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laganna hafa þeir rétt til bóta sem eru reiðubúnir til að ráða sig til allra almennra starfa.
Þessi skilyrði er áréttuð frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir orðrétt: ,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a. Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
b. Að vera fullfær til vinnu.
c. Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda að ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um niðurfellingu bótarréttar í 40 bótadaga.
Lög um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971 fjalla um lengd dagvinnutíma. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna skulu dagvinnutímar ekki vera fleiri en 40 í hverri viku. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skulu að jafnaði unnar 8 klukkustundir í dagvinnu á degi hverjum frá mánudegi til föstudags, nema annar vinnutími henti betur og um það sé samið af aðilum. Þegar dagvinnu er skilað með 8 stunda vinnu á dag frá mánudegi til föstudags skal næturvinna taka við á föstudögum strax og lögboðinni eða umsaminni vinnuviku er lokið.
2.
Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars verar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara. Við mat á því hvort höfnun vinnutilboðs leiði til missis bótaréttar er kannað hvort sú vinna sem bótaþega stóð til boða hafi verið heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við gildandi kjarasamninga. Einnig er kannað hvort bótaþegi, að öðru leyti vinnufær, búi yfir þeirri menntun og/eða fyrri starfsreynslu sem vinnuveitandi gerir kröfu um. Uppfylli hinn atvinnulausi þessi almennu skilyrði en hafni engu að síður tilboði um vinnu leiðir það almennt til þess að viðkomandi missir rétt til atvinnuleysisbóta.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta bendir á að í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit sinni stendur. Sú atvinnuleit má ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa eða ákveðinn vinnutími komi til greina þannig að önnur störf séu útilokuð. Úrskurðarnefndin telur þó eðlilegt að taka tillit til heimilisaðstæðna þegar starfi er hafnað vegna vinnutíma t.d. þegar um mæður barna er að ræða sem ekki geta starfað utan þess tíma sem hægt er að fá barnapössun. Slíkar aðstæður gætu einnig leitt til þess að hafna megi yfirvinnu. Kærandi er aftur á móti einhleypur maður sem ekki hefur forsjá barna.
Fram hefur komið að kærandi segist tilbúinn að taka allri almennri vinnu. Kærandi hefur 3-4 ára reynslu af byggingavinnu og segir að þar sem algilt að vinnutími sé frá kl. 8 til 18. Kærandi taldist því hæfur miðað við kröfur vinnuveitanda um starfsreynslu til að taka starfinu. Vinnutími sem gefinn var upp á atvinnutilboði var sagður kl. 8:00-18:00. Ekki kom fram um hvort um væri að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði að unnið væri allan þennan tíma. Kærandi hafði ekki samband við atvinnuveitandann. Hann hafnaði framkomnu atvinnutilboði án frekari fyrirvara og án þess að hafa samband við atvinnurekandann og kanna hvort raunverulega um skyldubundna yfirvinnu væri að ræða eða hvort einungis væri um það að ræða að vinnan skyldi framkvæmd innan þessara tímamarka eða að tilfallandi yfirvinna yrði innan þessara tímamarka. Að mati úrskurðarnefndar bar kæranda að athuga nánar ætlaða vinnutilhögun áður en hann hafnaði starfstilboðinu og hvort vinnan stæði honum til boða án yfirvinnu.
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1. fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga með vísan til 1. mgr. 13. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. lagaum atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 18. október 2004 um niðurfellingu bótaréttar Y í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 13. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 er staðfest.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Bentsdóttir
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka