Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga.
Nr. 15 - 2003

 

Úrskurður

 

Hinn 24. janúar 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 15/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

 

1.

 

Á fundi sínum þann 30. desember 2002 ákvað úthlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið að réttur A til atvinnuleysisbóta skyldi felldur niður í 40 bótadaga  á grundvelli 1. mgr. 13. gr. sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna starfsloka hans hjá fyrirtækinu X.

 

2.

 

A kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 4. febrúar 2003.  Í bréfi sínu gerir hann kröfu um að niðurfelling bóta til hans í 40 daga verði felld úr gildi og vísar í rökstuðning í greinargerð sinni til úthlutunarnefndar dags. 27. desember 2002.  Í greinargerðinni segir hann hafa farið í atvinnuviðtal þann 28. nóvember s.l. til fyrirtækisins X.  Honum hafi skilist að hann kæmi til greina sem tæknilegur umsjónarmaður við tölvukerfi fyrirtækisins og einnig að hann myndi sinna sölustörfum að einhverju leyti.  Honum hafi verið tjáð að fyrirtækið væri að fara að endurnýja allan tölvubúnað, bæði vélbúnað og hugbúnað og að fyrirtækið gæti nýtt reynslu hans í þess háttar verkefni.  Hann hafi farið í alls þrjú viðtöl hjá fyrirtækinu áður en til ráðningar kom.  Fram hafi komið að hann þyrfti að hafa bíl til umráða sem hann hafi sagst hafa.  Hann hafi þó ekki tjáð þeim að um væri að ræða lánsbíl sem hann gæti notað takmarkað.  Þegar hann hafi síðan hafið störf hjá fyrirtækinu hafi hann samdægurs verið sendur út í sölustörf til fyrirtækja.  Hann hafi strax séð að hann hefði ekki vald á slíku starfi, enda sé hann tæknimaður og ekki sölumaður.  Hann hafi einnig strax orðið var við að fyrirtækið ætlaði ekki að nýta sér þekkingu hans í tölvumálum eins og um hafi verið rætt.  Hann hafi starfað þennan eina dag og strax næsta vinnudag farið til yfirmanns síns og lagt spilin á borðið því honum fannst það hið eina heiðarlega sem hann gæti gert í stöðunni.

 

3.

            Fyrir liggur í málinu bréf vinnuveitanda, fyrirtækinu X, dags. 19. desember 2002.  Bréfið er undirritað af Y sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins samkvæmt upplýsingum á vefsíðu fyrirtækisins.  Í bréfinu kemur fram að fyrirtækið hafi tilkynnt vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins að það vantaði reynda sölumenn í störf.  A hafi verið einn þeirra aðila sem ráðinn hafi verið til reynslu.  Í ljós hafi komið eftir einn og hálfan dag að A hafi hvorki haft reynslu né getu í það starf sem honum hafi verið boðið og þess vegna hafi hann hætt störfum.

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980.   Samkvæmt 4 mgr. 13. gr. gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna um missi bótaréttar samkvæmt greininni.  4. tölul 5. gr. laganna segir að bótaréttur þeirra sem sagt hafa starfi sínu lausu án gildra ástæðna falli niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og að bótatímabil skerðist sem því nemur.  Sama gildir ef umsækjandi hefur misst vinnu af ástæðum er hann sjálfur á sök á.

 

Að mati úr­skurð­ar­n­efndar at­vinnu­leysis­bóta þykir ekki sýnt að starfslok í hinu nýja starfi hafi verið af ástæðum er kærandi átti sök á.  Göng málsins benda frekar til þess að misskilningur hafi verið uppi um væntanlegt starfssvið, án þess að fyrir liggi að kærandi hafi átt sök á þeim misskilningi.  Í ljós hafi komið að kærandi hafi hvorki haft hæfni né reynslu á því sviði sem honum var ætlað að starfa.  Að sögn kæranda sé hann tæknimaður og taldi sig vera að ráða sig í starf sem aðallega ætti að felast í tæknilegri umsjón tölvukerfis.  Í ljós hafi síðan komið að fyrirtækið var að leita að reyndum sölumönnum.  Eftir einn og hálfan dag hafi honum verið orðið ljóst að hann hefði ekki vald á slíku starfi.  Hann hafi því hætt starfinu í samráði við vinnuveitandann.  Að teknu tilliti til þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um 40 daga niðurfellingu bótaréttar kæranda úr gildi.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið dags. 30. desember 2002 um að A skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga er felld úr gildi.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni