Ótekið orlof í upphafi atvinnuleysis
Nr. 60 - 2004

Úrskurður

 

Hinn 20. ágúst 2004 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 60/2004.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Úthlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 12. júlí 2004 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 22. júní 2004.  Úthlutunarnefnd vísaði til upplýsinga á vinnuveitandavottorði dags. 2. júlí 2004  þar sem fram kæmi að við starfslok þann 30. júní 2004 hafi hann átt 24 daga ótekið orlof.  Var greiðslum til hans því frestað þar til orlofi væri lokið.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að samkvæmt reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta á umsækjandi um atvinnuleysisbætur ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og hann fær greidd laun frá vinnuveitanda sínum s.s. vegna ótekins orlofs, launa við starfslok eða launa í uppsagnarfresti.

2.

X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 19. júlí 2004.  Í bréfinu segist hann fara fram á að atvinnuleysisbætur verði greiddar óháð orlofi.  Orlof sé tekið út af frjálsum vilja hvers starfsmanns.  Orlofsreikningur sé eign hvers manns jafnt og venjubundinn bankareikningur.

 

3.

            Í gögnum máls þessa liggur fyrir vinnuveitandavottorð dags. 2. júlí 2004 frá A ehf..  Þar kemur fram að X var á námssamningi sem gullsmíðanemi hjá fyrirtækinu tímabilið 1. júlí 2001 til 30. júní 2004.  Ástæða starfsloka er sögð að um tímabundna ráðningu hafi verið að ræða.  Ekkert kemur fram um ótekið orlof á vottorðinu.  Haft var samband símleiðis við vinnuveitandann.  Að sögn hans var X í bóklegu námi tímabilið 1. janúar 2004 til enda maí.  Þessa daga var hann launalaus og ekki að ávinna sér orlof.  Aðra mánuði orlofsársins var hann að ávinna sér orlof, þ.e. 2 daga í mánuði í 8 mánuði eða alls 16 daga.  Þar af hafði hann tekið út 5 orlofsdaga. Að sögn vinnuveitanda fékk hann þá 11 orlofsdaga sem eftir stóðu af orlofsárinu 2003 til 2004 uppgerða þann 1. apríl 2004 með greiðslu inn á bankareikning.  Síðan vann hann sér inn 2 orlofsdaga á nýju orlofsári í júnímánuði 2004 sem hann fékk uppgerða er hann hætti störfum þann 30.  júní s.l.

 

 

Niður­staða

 

1.

Í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 er kveðið á um að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, eigi rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

Samkvæmt 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eiga einstaklingar sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum rétt á atvinnuleysisbótum:

1.      Eru orðir 16 ára að aldri en yngri en 70 ára.

2.      Eru búsettir hér á landi eða hafa fengið leyfi til atvinnuleitar í EES-landi.

3.      Hafa óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi.

4.      Hafa á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldsskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða, sbr. þó 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993. 

5.      Hafa í upphafi bótatímabils verið skráðir sem atvinnulausir í þrjá daga samfellt.

6.      Eru reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa.

 

 2.

Samkvæmt 18. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta á umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem á kröfu um laun í uppsagnarfresti á hendur vinnuveitanda sem ekki hefur verið úrskurðarður gjaldþrota ekki rétt á atvinuleysisbótum fyrr en uppsagnarfrestur er liðinn.

 

 3.

            Þá almennu viðmiðun ber að hafa að leiðarljósi að umsækjandi um atvinnuleysisbætur á ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og hann fær greidd laun frá vinnuveitanda sínum, s.s. vegna ótekins orlofs, launa við starfslok eða launa í uppsagnarfresti.  Á umsækjandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en það tímabil sem greiðslan er fyrir er liðið.  Umsækjandi um atvinnuleysisbætur getur þó ákveðið að taka orlof sitt síðar á orlofstímanum.  Hann getur því valið á milli þess að greiðslu atvinnuleysisbóta sé frestað strax í jafnmarga daga og sem nemur fjölda orlofsdaganna eða að tiltaka hvenær á orlofstímabilinu hann hyggst fara í frí.

 

2.

Er kærandi skráði sig hjá vinnumiðlun og sótti um atvinnuleysisbætur átti hann inni ótekið orlof frá fyrri vinnuveitanda sínum.  Á orlofsárinu 2003 til 2004 vann hann sér alls inn 16 orlofsdaga.  Þar hafði hann tekið út 5 daga orlof og fékk 11 daga orlof greidda út 1. apríl er hann var í bóklegu námi og launalaus.  Að loknu námi á vorönn 2004, eða í júní,  ávann hann sér 2 orlofsdaga.  Þessa daga fékk hann uppgerða þann 1. júlí er hann lauk störfum.

 Það er almenn regla laga um atvinnuleysisbætur, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta, að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og hann fær greidd laun frá vinnuveitanda sínum, s.s. í uppsagnarfresti, við starfslok eða vegna ótekins orlofs.  Þegar atvinnuveitandi greiðir hins vegar út áunnið orlof í lok hvers launamánaðar eða þegar launþegi hættir störfum utan orlofstímabil og fær þá gert upp áunnið orlof hefur ekki verið litið svo á að greiðslur atvinnuleysisbætur hæfust fyrst að loknum áunnum orlofsdögum alls orlofsársins.  Óuppgert orlof kæranda við starfslok voru 2 dagar. Kærandi gat þess ekki á umsókn sinni hjá svæðisvinnumiðlun né við starfsfólk vinnumiðlunar að hann hefði sérstakar óskir um hvenær á orlofstímabilinu hann hygðist fara í frí.  Úthlutunarnefnd hafði ákveðið að greiðslur atvinnuleysisbóta hæfust fyrst að loknum 24 óteknum orlofsdögum.  Samkvæmt upplýsingum vinnuveitanda átti kærandi þó aðeins 2 óuppgerða orlofsdaga er hann hætti störfum.  Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta nr. 1 á höfuðborgarsvæðinu um að greiðslur atvinnuleysisbóta hefjist fyrst að liðnum 24 orlofsdögum eða þann 4. ágúst 2004 felld úr gildi.  Greiðslur atvinnuleysisbóta skulu  þess í stað hefjast að loknum 2 orlofsdögum frá skráningu sem samsvarar óteknu orlofi kæranda.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 á höfuðborgarsvæðinu frá 12. júlí 2004 um að greiðslur atvinnuleysisbóta til X skuli fyrst hefjast að loknum 24 orlofsdögum er felld úr gildi.  Þess í stað skulu greiðslur atvinnuleysisbóta hefjast að loknum 2 bótadögum sem samsvarar áunnum óteknum orlofsdögum við skráningu hjá vinnumiðlun með vísan til meginreglu laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 og 18. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                Benedikt Davíðs­son

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni