Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklings.
Nr. 16 - 2003

Úrskurður

 

Hinn 24. febrúar 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 16/2003.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland eystra ákvað á fundi sínum þann 21. janúar 2003 að synja umsókn A dags. 8. janúar 2003 um atvinnuleysisbætur.  Í bréfi úthlutunarnefndar til A dags. 27. janúar s.l. er ákvörðun nefndarinnar rökstudd með vísan til 6. og 7. gr.  reglugerðar nr. 740/1997 um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga þar sem segir að einstaklingar með opið virðisaukaskattnúmer eigi ekki samtímis rétt á atvinnuleysisbótum.

 

2.

A kærði ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi, dags. 1. febrúar 2003 og gerir kröfu um að úrskurður nefndarinnar verði  felldur úr gildi og honum greiddar atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi.  A segist í bréfi sínu hafa verið launamaður á þriðja tug ára að aðalstarfi í 75% starfshlutfalli.  Allan þann tíma hafi vinnuveitendur hans greitt lögboðin gjöld sem renni m.a. í Atvinnuleysistryggingasjóð.  Hann telur úrskurð úthlutunarnefndar byggðan á misskilningi, hann sé ekki að sækja um bætur sem áður sjálfstætt starfandi einstaklingur, heldur sem fyrrverandi launþegi í 75% starfi.  Hann segir vera með bústofn sem telji 55 kindur og 4 geldneyti.  Að loka virðisaukaskattnúmerinu myndi kosta hann veruleg fjárútlát vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti auk annarra óþæginda.

 

 

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

 

Sam­kvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar nr. 12/1997 er fé­lags­mála­ráð­herra veitt heimild til að setja nánari reglur um hvaða skil­yrðum sjálf­s­tætt starf­andi einstaklingar skulu full­nægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum. Segir í ákvæði þessu að m.a. skuli settar reglur um hvaða skil­yrðum menn verða að full­nægja til þess að teljast sjálf­s­tætt starf­andi og vera at­vinnu­lausir. Í 6. gr. reglu­gerðar nr. 740/1997 um bóta­rétt sjálf­s­tætt starf­andi einstaklinga úr At­vinnu­leysis­trygginga­sjóði segir orðrétt:

 

Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst vera atvinnulaus, þegar hann uppfyllir öll eftirtalin skilyrði:

1. Er hættur rekstri, sbr. 7. - 10. gr.,

2. hefur ekki tekjur af rekstri,

3. hefur ekki hafið störf sem launamaður,

4. er sannanlega í atvinnuleit og er reiðubúinn að ráða sig til allra almennra starfa,

5. hefur tilkynnt lok rekstrarins til opinberra aðila, sbr. 7. gr.

 

            Í 7. gr. er kveðið á um að til að tilkynning um lok rekstrar teljist fullnægjandi þurfi hún að bera með sér að:

1.  Lok sjálfstæðrar starfsemi hafi verið tilkynnt launagreiðandaskrá Ríkisskattstjóra og

2.  virðisaukaskattskyldri starfsemi hafi verið hætt.

 

 

 

2.

Kærandi byggir kröfu sína á því að vinna hans sem launamaður veiti honum rétt til atvinnuleysisbóta.  Hann hefur að eigin sögn samhliða launavinnu sinni og eftir að hann missti launavinnuna verið með búrekstur á jörð sinni.  Bústofninn sé 55 kindur og 4 geldneyti.  Vegna þessarar starfsemi þurfi hann að hafa virðisaukaskattnúmer.

 Kærandi hefur samkvæmt þessu lagalega stöðu sjálfstætt starfandi einstaklings eins og hún er skilgreind í 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.  Samkvæmt lögum ætti hann því að eiga rétt á atvinnuleysisbótum ef hann uppfyllir önnur skilyrði laganna, m.a. skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga 12/1997 um að teljast atvinnulaus.   Reglugerð um bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklinga nr. 740/1997, sem sett er skv. heimild í 2. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kveður eins og áður segir á um hvaða skilyrðum sjálfstætt starfandi einstaklingar verða að fullnægja til að teljast atvinnulausir.  Samkvæmt 6. og 7. gr. reglugerðarinnar verður sjálfstæðri starfsemi að hafa lokið, þ.e. einstaklingur verður að hafa hætt rekstrinum.  Hvenær reksturinn telst vera hættur segir svo nánar í nefndum greinum.  Kærandi uppfyllir ekki þessi skilyrði, m.a. með því að vera með opið virðisaukaskattnúmer.  Samkvæmt því sem að framan segir um réttarstöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að kærandi sé ekki atvinnulaus í skilningi laganna og að umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur uppfylli þar af leiðandi ekki skilyrði laga um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta.   Ber af þeim sökum að staðfesta úrskurð úthlutunarnefndar.

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Norðurland eystra frá 21. janúar 2003 um synjun á umsókn A um atvinnuleysisbætur er staðfest.  

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Frið­jón Guðröðarson

for­maður

 

Árni Benedikts­son                                            Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni