Ákvörðun um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta felld úr gildi.
Nr. 11 - 2006
Úrskurður
Þann 6. mars 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 11/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Vestfirði ákvað á fundi sínum þann 25. október 2004, að fella niður rétt X til atvinnuleysisbóta frá og með 25. ágúst 2005. Jafnframt ákvað nefndin að X bæri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 34.266. Úthlutunarnefndin tók ákvörðun sína á grundvelli 5. gr. reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta, og 27. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysisbætur. Nefndin tók ákvörðun sína með vísan til þess að X hefði verið í fullu námi við H samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.
2.
X kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 30. desember 2005. Í bréfi sínu segist hún hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá því í júlí 2005. Bótaréttur hennar hafi verið 40-50%. Er hún fékk bæturnar hafi hún ekki verið búin að fá námslán. Til að fá greidd námslán þurfi fyrst að hafa staðist próf fyrstu annar og ef það gengi eftir komi fyrsta greiðslan í febrúar. Hún hafi byrjað í fullu fjarnámi við H í september sl. Áður en námið hófst hafi hún spurst fyrir á skráningarskrifstofu svæðisvinnumiðlunar í B um það hvort leyfilegt væri að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða fjarnámi. Hún hafi fengið þau svör að það væri í lagi ef um fjarnám væri að ræða og ef hún gæti hugsað sér að vinna eitthvað með náminu. Hún hafi alveg getað hugsað sér að vinna með náminu á þessum tíma. Hún hafi ekki ætlað að leyna upplýsingum um að hún væri í námi til að fá greiddar bætur. Um misskilning hafi verið að ræða þar, sem hún hafi ekki fengið nægar upplýsingar þegar hún spurðist fyrir.
Samkvæmt staðfestingu H frá 3. mars. 2006 er X í 80% námi við skólann. Samkvæmt útskrift úr nemendalista skólans er X skráð í nám á fjármálabraut á 1. ári. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er fjarnám í háskóla lánshæft að fullu ef námið nær 75% af fullu námi.
Samkvæmt bréfi frá Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða hafði X verið boðið afleysingarstarf við G. Er haft var samband við skólastjóra grunnskólans kom hins vegar í ljós að hún hafi ekki getað tekið starfinu vegna anna í námi við H. Í bréfinu kemur einnig fram að skráningaraðilinn í B sem sér um atvinnuleysisskráningar hafi haft samband við vinnumiðlunina og tilkynnt að hún hafi haft spurnir af því að X væri í háskóla í fjarnámi sem ekki væri leyfilegt samhliða atvinnuleysisbótum.
Samkvæmt greiðslusögu X þáði hún atvinnuleysisbætur tímabilið 4. júlí til 23. september 2005 er bótagreiðslur til hennar voru felldar niður vegna höfnunar á atvinnutilboði. Samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar var ákveðið að fella niður bótarétt hennar frá byrjun haustannar eða 25. ágúst og endurkrefja hana um bætur sem hún hafði þegið frá 25. ágúst samhliða námi.
Niðurstaða
1.
Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 12/1997 , um atvinnuleysistryggingar ,segir eftirfarandi:
Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.
2. mgr. 27. gr. laganna hljóðar svo:
Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.
5. gr. reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta hljóðar svo:
Námsmenn eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma, nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.
2.
Samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eiga þeir rétt á bótum sem verða atvinnulausir, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu, og reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi stundað 80% fjarnám við H frá upphafi haustannar 2005 eða 25. ágúst sl. Jafnframt þáði hún atvinnuleysisbætur til 23. september 2005. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er fjarnám í háskóla lánshæft að fullu ef um er að ræða 75% af fullu námi. Fyrir liggur að kærandi hafnaði tveimur atvinnutilboðum og með ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta á Vestfjörðum þann 26. október 2005 voru felldar niður bætur til hennar m.a. á þeim grundvelli. Var þar annars vegar um að ræða starf við afgreiðslu í verslun V sem kærandi kveðst hafa hafnað vegna þess að hún hefði ekki haft bíl til umráða. Hins vegar starf við G sem var afleysingastarf í tvær vikur og kærandi kveður ekki hafa verið alveg á sínu sviði. Að mati úrskurðarnefndar verður af þessu ekki annað ráðið en að kærandi sé ekki reiðubúin að ráða sig til allra almennra starfa, enda í fullu háskólanámi eins og að framan greinir.
Kærandi kveðst hafa fengið þær upplýsingar á skráningarskrifstofu svæðisvinnumiðlunar í B áður en hún hóf nám sitt að leyfilegt væri að þiggja atvinnuleysisbætur samhliða fjarnámi, ef hún gæti hugsað sér að vinna eitthvað með náminu, en það hafi hún getað hugsað sér á þeim tíma. Hafi ekki verið ætlun hennar að leyna upplýsingum um að hún væri í námi til að fá greiddar bætur. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi meðvitað ætlað að afla sér bóta með þeim hætti sem lýst er í ákvæðum 15. og 27. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, en ákvæðunum verður ekki beitt nema sýnt sé fram á að svo hafi verið, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4186/2004. Samkvæmt þeirri niðurstöðu er ekki heimilt að beita framangreindum ákvæðum nema sýnt sé að um ásetning hjá bótaþega hafi verið að ræða.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta um niðurfellingu bótaréttar kæranda. Hins vegar er felld úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndarinnar um að kæranda beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá og með 25. ágúst 2005 þar sem að lagaskilyrði slíkrar ákvörðunar þykja ekki fyrir hendi.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Vestfirði frá 25. október 2005 um niðurfellingu bótaréttar X. Felld er úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndarinnar um að X beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 34.266.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka