Ótímabundin niðurfelling bótaréttar. Mætir ekki á starfsleitarnámskeið. Ítrekun. Hafði áður sagt upp starfi án gildrar ástæðu. Staðfest.
Nr. 6 - 2006
Úrskurður
Hinn 27. desember 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 6/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 3. október 2005 að fella ótímabundið niður rétt X til atvinnuleysisbóta. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli þess að X mætti ekki á áður boðað námskeið Vinnumiðlunar sem haldið var dagana 26. til 29. september 2005. Um ítrekun var að ræða þar sem hún hafði þann 4. júlí 2005 fengið 40 daga niðurfellingu bótaréttar vegna starfsloka hjá H.
2.
X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 5. nóvember 2005. Í bréf sínu segist hún hafa unnið á H síðan í febrúar 2004. Hún hafi sagt upp í byrjun júlí 2005 og fengið 40 daga bið vegna þess að hún hafi ekki unnið uppsagnarfrestinn. Hún hafi strax skráð sig hjá Vinnumiðlun og verið boðið að fara á námskeið. Hún hafi ákveðið að skrá sig á sjálfstyrkingarnámskeið dagana 26. til 29. september sl. X segist stunda nám í kvöldskóla í F. Hún hafi átt að fara í próf mánudaginn 26. september sl. Hún hafi verið búin að læra undir prófið helgina á undan en ekki fundist hún vera nógu vel undirbúin. Hún hafi því tekið þá ákvörðun að sleppa þessu námskeiði og hringt strax þann 26. sept. sl. í Vinnumiðlun til að tilkynna það. Hún hafi verið beðin um að skrifa bréf til skýringar á því hvers vegna hún mætti ekki. X segist ekki hafa haft hugmynd um að hún gæti misst atvinnuleysisbætur af þessum sökum, henni hafi fundist að námið yrði að ganga fyrir, því með aukinni menntun fengist betri vinna. Hún hefði auðvitað átt að skipuleggja þetta betur, en segir að sér finnist heldur langt gengið að fella niður bótarétt sinn, og biður um endurskoðun á ákvörðun þessari. Í bréfi X frá 28. ágúst 2005 segist hún hafa sagt upp vinnu sinni hjá H vegna þess að hún hafi lent í einelti og ýmsum öðrum vandamálum. Það hafi verið slæmt andrúmsloft á deildinni þar sem hún vann. Hún hafi kvartað en lítið hafi verið gert. Henni hafi verið boðin vinna á annarri deild en hún hafi afþakkað boðið. Hún hefði ekkert gert af sér og fannst ósanngjarnt að þurfa að færa sig í aðra deild.
Í gögnum málsins liggur fyrir boðun á sjálfstyrkinganámskeið frá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins. Námskeiðið átti að vera frá kl. 8:45 til 12:30 dagana 26. til 29. september sl. Boðunin var dagsett 14. september sl. og samþykkti X hana sama dag með undirritun sinni. Í boðuninni sagði feitletrað að það gæti valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tæki ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgdi ekki slíkri áætlun. Ennfremur sagði í boðuninni að mikilvægt væri að viðkomandi mætti á námskeiðið. Farið var fram á að forföll yrðu tilkynnt með góðum fyrirvara.
Fyrir liggur bréf frá F frá 13. desember 2005 þar sem staðfest er að X hafi á haustönn 2005 stundað nám í kvöldskóla í heilbrigðisfræði og líffæra- og lífeðlisfræði. Einnig liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá H frá 5. júlí 2005. Þar segir að X hafi starfað á stofnuninni við aðhlynningu til 1. júlí 2005 er hún sagði sjálf upp störfum.
Niðurstaða
1.
1. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, hljóðar svo:
Samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar getur það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar skv. e-lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Um missi bótaréttar gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laga þessara.
Í 10. gr. laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, er fjallað um verkefni svæðisvinnumiðlunar. E-liður 1. mgr. 10. gr. hljóðar svo:
Að sjá til þess að atvinnulausir eigi kost á ráðgjöf og úrræðum, svo sem námi eða starfsþjálfun, sem miðast við þarfir og aðstæður hvers og eins og hafa það að markmiði að auka starfsgetu og starfsmöguleika hins atvinnulausa.
Í 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að eftirfarandi einstaklingar eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. 4. töluliður greinarinnar hljóðar svo:
Þeir sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
2.
Kærandi samþykkti með undirritun sinni þann 14. september 2005 að mæta á sjálfstyrkingarnámskeið á vegum Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins sem haldið skyldi dagana 26. til 29. september eða tæpum tveimur vikum eftir að kærandi samþykkti að fara á námskeiðið. Kærandi tilkynnti forföll sama dag og námskeiðið átti að byrja og gaf þá skýringu að hún þyrfti að læra undir próf sem átti að vera sama kvöld. Í boðuninni sagði greinilega að það gæti varðað missi bótaréttar ef hún mætti ekki á námskeiðið án gildra forfalla og að forföll skyldu tilkynnt með góðum fyrirvara. Um ítrekun var að ræða þar sem kærandi hafði áður sætt niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga vegna starfsloka sinna hjá H. Að mati úrskurðarnefndar eru ástæður þær sem kærandi gaf fyrir fjarveru sinni frá námskeiðinu ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Að teknu tilliti til ofangreinds er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar kæranda staðfest með vísan til 1. mgr. 12. gr. sbr. 4. tölulið 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Kærandi öðlast fyrst bótarétt að nýju er hún sannar að hún hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hún missti bótaréttinn.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 3. október 2005 um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar X.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka