Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga
Nr. 17 - 2003
Úrskurður
Þann 24. febrúar 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 17/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 13. janúar 2002 umsókn A um atvinuleysisbætur. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði um starfslok hans hjá X var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils skv. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
2.
A kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 6. febrúar 2003. Í bréfi sínu segist hann hafa fengið 50% starf hjá X í nóvember 2002. Starfið hafi farið fram á kvöldin. Eftir að hafa prófað starfið komst hann að því að hann hefði þurft að eiga bifreið til að geta verið þessu starfi þar sem það hafi farið fram á tveimur stöðum. Hann eigi hins vegar enga bifreið. Í bréfi A til úthlutunarnefndar dags. 6. janúar 2003 segir hann fjarlægð hafa verið mikla á milli staðanna. Hann hafi ekki fengið greitt fyrir þann tíma sem fór í að ferðast milli staða og hafi verið um töluverða tímaeyðslu hjá honum að ræða þar sem hann þurfi að ferðast með strætisvagni. Einnig hafi getað farið svo að vinnan væri ekki búin fyrr en eftir kl. 24:00 og þá gangi strætisvagnar ekki. Hann mótmælir því einnig að hann skuli tapa 100% bótum þar sem starf þetta hafi aðeins verið 50% og fer fram á að fá a.m.k. 50% bætur ef ákvörðun úthlutunarnefndar verði staðfest.
3.
Í gögnum málsins kemur fram að A hafði verið atvinnuleysisbótum frá 2. september 2002 er hann fékk starf hjá X þann 25. nóvember 2002. Einnig kemur fram að hann hafi aðeins farið einn dag í vinnu hjá X og hætt svo. Að sögn ræstingastjóra hafi hann sagt að starfið hentaði honum ekki. Samkvæmt ræstingastjóra mátti hefja starfið kl. 17:00 og voru starfslok fyrir miðnætti. Í viðtali við A kom fram að um tvo vinnustaði hafi verið að ræða, báða í Z-bæjarhluta. Að sögn A er um 10 til 15 mínútna gangur milli staðanna. Hann telji þó ekki hægt að ganga á milli í vetrarveðrum. Starfið hafi að auki tekið lengri tíma en gefið var upp og greitt fyrir. Fyrir annað starfið voru greiddar 2 tímar og 20 mín. Hann telji sig hafa þurft lágmark 3 tíma til að vinna það verk. Fyrir hitt starfið voru greiddir 3 tímar og segir hann að það hafi bara getað gengið upp miðað við bestu mögulegar aðstæður. Einungis hafi verið greiddar kr. 50.000 fyrir starfið sem honum finnist lágt.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Það er hlutverk vinnumiðlunar að miðla til atvinnuleitanda, sem þiggja bætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, störfum sem vinnuveitendur hafa tilkynnt að laus séu. Er gert ráð fyrir því að vinnumiðlun velji af atvinnuleysisskrá þá einstaklinga sem hún telur koma til greina í slík störf. Ákvörðun vinnumiðlunar um að afhenda bótaþega tiltekið atvinnutilboð felur annars vegar í sér það mat vinnumiðlunar að hann teljist hæfur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnuveitanda til að taka starfinu og hins vegar kvöð á bótaþega að sinna því tilboði án frekari fyrirvara.
3.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar metur úthlutunarnefnd hvort það skuli varða missi bótaréttar ef hafnað er starfi þar sem starfshlutfall er minna en bótaréttur umsækjanda og á úthlutunarnefndin við mat sitt að hafa hliðsjón af möguleikum hans á fullu starfi. A hafið verið á atvinnuleysisbótum í næstum þrjá mánuði er hann hafnaði starfinu. Ekki verður talið að starfsaðstæður eða fjarlægð milli vinnustaða hafi verið með þeim hætti að réttlæti höfnun starfs. Að mati úrskurðarnefndar má fallast á varakröfu kæranda um að aðeins 50% bótaréttur falli niður í 40 daga þar sem starf það sem hann hafnaði hafi verið 50% og bótaréttur hans sé 100%. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest að öðru leyti en því að niðurfellingin verði 50%.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 13. janúar 2003 um að A skuli missa rétt til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils er staðfest að öðru leyti en því að niðurfellingin miðast við 50% bótahlutfalls.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka