Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hafnar atvinnutilboði. Staðfest.
Nr. 9 - 2006
Úrskurður
Hinn 21. febrúar 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 9/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Austurland ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 5. október 2005 að réttur Y til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að Y hafnaði atvinnutilboði frá H frá 14. september 2005. Úthlutunarnefndin tók mál Y aftur fyrir á fundi sínum 19. október og staðfesti fyrri ákvörðun sína.
2.
Y kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 25. október 2005. Í bréfinu vísar hann í fyrri bréf sín til úthlutunarnefndar. Í bréfi 10. október segir hann rangt sem haldið er fram að hann hafi ekki svarað atvinnutilboði frá H um starf sjúkraliða. Hann hafði haft samband við atvinnurekandann 16. september, sem sagði honum að hann hefði fengið rangar upplýsingar, ekki hefði verið ráðgert að hefja atvinnuviðtöl fyrr en um 20. september. Hann hafi tilkynnt svæðisvinnumiðlun þetta. Hún hafði samband við hann 20. eða 21. september og spurt hvort hann hefði gert eitthvað í málinu. Hann hafi tjáð þeim að hann hefði ekkert gert þar sem hann vissi ekki hvert framhald málsins ætti að vera. Hann hafi einnig látið þess getið að skrýtið væri að bjóða manni, sem aldrei hefði sýnt neina tilburði til að vilja sinna sjúkum, slíkt starf. Hann hafi þó samþykkt að mæta í viðtalið. Þar hafi hann strax sagt að þar sem honum líði illa innan um veikt fólk, hvað þá að annast um það, þá myndi honum aldrei líða vel í því starfi. Atvinnurekandinn sagðist skilja það og bauð honum í framhaldi afleysingastarf í eldhúsi, þvottahúsi eða við ræstingar sem hefjast skyldu um miðjan október. Þar sem svo langt var í þessar afleysingar hafi hann óskað eftir umþóttunartíma, ekki síst þar sem hann hafi verið að skoða annað atvinnutilboð og bíða eftir svari hvort af því yrði. Hann hafi síðan því miður ekki náð í fulltrúa H fyrr en 8 dögum seinna, og hafi hann þá tjáð honum að hann væri að taka við öðru starfi.
Y segir að af ofangreindu megi sjá að hann hafi svarað atvinnutilboðinu, þó hann hafi ekki þegið starfið þar sem hann hafi sjálfur verið að reyna að útvega sér vinnu án hjálpar svæðisvinnumiðlunar. Y segist vilja taka það fram að um vaktavinnu hafi verið að ræða, sem m.a. fæli í sér að vinnu á stórhátíðum. Ef hann þekki vinnulöggjöfina rétt, þá sé engum skylt að vinna á stórhátíðum nema ráðningarsamningur kveði á um það. Því hefði aldrei verið hægt að skylda hann til að vinna á stórhátíðum.
Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð frá H frá 14. september 2005. Um var að ræða vaktavinnu við umönnun, ræstingu, störf í þvottahúsi og aðstoð í eldhúsi. Samkvæmt fulltrúa vinnuveitanda gat Y ekki svarað því hvort hann vildi þessa vinnu, þar sem hann biði eftir svari vegna annarrar vinnu. Y hafi einnig sagt að hann treysti sér ekki til að vinna við aðhlynningu.
Samkvæmt bréfi frá úthlutunarnefnd skráði Y sig atvinnulausan þann 4. ágúst 2005. Í umsókninni óskaði hann eftir fullu starfi og sagðist geta hafið störf strax. Í umsókninni sagðist hann vera vinnufær og almennt geta gert það sem hann væri beðinn um að gera. Úthlutunarnefndin tekur fram að Y hafi tekið við atvinnutilboðinu um starf sjúkraliða athugasemdalaust og undirritað það. Hann hafi farið í atvinnuviðtal þann 22. september. Þá hafi hann ákveðið taka sér frest til 30. september til að svara tilboðinu. Nefndin tekur fram að hún hafi ekki talið nein rök til að veita slíkan umþóttunartíma og þess vegna hafi bótaréttur hans verið felldur niður í 40 bótadaga.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laganna er skilyrði bótaréttar að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa.
Þetta skilyrði er áréttað frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir eftirfarandi:
,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a. Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
b. Að vera fullfær til vinnu.
c. Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna um missi bótaréttar samkvæmt greininni. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
2.
Kærandi fékk tilboð um starf við umönnun og fleira á H. Er hann mætti í atvinnuviðtalið tók hann sér viku umhugsunarfrest til að svara tilboðinu og sagðist vera að bíða eftir svari við annarri vinnu. Hann tók jafnframt fram að hann treysti sér ekki í umönnunarstörf.
Í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit stendur. Sú atvinnuleit má almennt ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa eða ákveðinn vinnutími komi til greina þannig að önnur störf séu útilokuð, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997 þar sem segir að þeir sem eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum skuli vera reiðubúnir til að ráða sig til allra almennra starfa. Að mati úrskurðarnefndar bar kæranda að þiggja framkomið atvinnutilboð.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Austurland hafi gefið kæranda kost á andmælum áður en hún tók ákvörðun sína um niðurfellingu bóta þann 5. október 2005, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta gerir athugasemdir við þá málsmeðferð, en telur ekki ástæðu til að fella ákvörðunina úr gildi á þeim forsendum, þar sem að hann hefur komið sjónarmiðum sínum að í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Austurland frá 5. október 2005 um að Y skuli sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka