Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hafnar atvinnutilboði. Staðfest.
Nr. 10 - 2006
Úrskurður
Hinn 21. febrúar 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 10/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta á Norðurlandi vestra ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 28. september 2005 að réttur Y til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að Y hafnaði atvinnutilboði hjá Svæðisvinnumiðlun Norðurlands vestra frá 21. september sl.
2.
Y kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 4. desember 2005. Í bréfinu segist hann hafa tilkynnt starfsmanni svæðisvinnumiðlunar að hann þyrfti nauðsynlega að ganga frá þremur smáhýsum fyrir veturinn sem þyldu enga bið. Þetta hafi að hans mati verið fullgild ástæða til þess að hafna atvinnutilboðinu. Strax að loknu þessu verki hefði hann hins vegar getað farið í vinnu sem hann hafi og gert.
Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð frá K frá 21. september 2005. Um var að ræða tímabundna vinnu í einn mánuð í sláturhúsi. Í atvinnutilboðinu segir að hann hafi hafnað starfinu með þeim rökum að hann væri búinn að fá annað starf og að hann myndi byrja daginn eftir. Samkvæmt starfsmanni svæðisvinnumiðlunar mætti hann hins vegar til skráningar á svæðisvinnumiðlun þann 26. september og var þá ekki byrjaður í nýju starfi. Að sögn Y hafði hann ekki haft samband við atvinnurekandann.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laganna er skilyrði bótaréttar að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa.
Þetta skilyrði er áréttað frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir eftirfarandi:
,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a. Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
b. Að vera fullfær til vinnu.
c. Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna um missi bótaréttar samkvæmt greininni. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
2.
Kærandi kveðst hafa hafnað atvinnutilboði vegna þess að hann þurfti að ganga frá þremur smáhýsum sem þoldu enga bið.
Í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit stendur. Sú atvinnuleit má almennt ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa eða ákveðinn vinnutími komi til greina þannig að önnur störf séu útilokuð, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997, þar sem segir að þeir sem eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum skuli vera reiðubúnir til að ráða sig til allra almennra starfa. Við mat á hvort höfnun vinnutilboðs leiði til missis bótaréttar er kannað hvort sú vinna sem bótaþega stóð til boða hafi verið heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við gildandi kjarasamninga. Einnig er kannað hvort bótaþegi, að öðru leyti vinnufær, búi yfir þeirri menntun og/eða fyrri starfsreynslu sem vinnuveitandi gerir kröfu um. Uppfylli hinn atvinnulausi þessi almennu skilyrði en hafni engu að síður tilboði um vinnu leiðir það almennt til þess að viðkomandi missir rétt til atvinnuleysisbóta. Að mati úrskurðarnefndar bar kæranda að þiggja framkomið atvinnutilboð.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Norðurland vestra frá 28. september 2005 um að Y skuli sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka