Ákvörðun um 52% bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings fellt úr gildi. Bótaréttur ákveðinn 67%.
Nr. 17 - 2006

Úrskurður

 

Hinn 6. mars 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 17/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga samþykkti á fundi sínum þann 15. desember 2005 umsókn Y um atvinnuleysisbætur.  Jafnframt ákvað nefndin að hlutfall bótaréttar Y væri 46% miðað við skil á tryggingagjaldi. Um hlutfall bótaútreiknings vísaði nefndin til laga nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga.  Við endurútreikning bótaréttar Y þann 9. desember sl. ákvað úthlutunarnefndin að bótahlutfall Y væri 52%.

 

2.

 

Y kærði ákvörðun út­hlutunar­nefndar til úr­skurð­ar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta með bréfi, mótt. 9. janúar 2006.  Í bréfi sínu segist hann vera óánægður með útreikning bótahlutfalls síns.  Síðastliðinn vetur hafi reiknað bótahlutfall hans verið 86%.  Hann hafi alltaf greitt það tryggingagjald sem krafist hafi verið af honum og hann hafi talið að sér bæri að greiða.

Samkvæmt gögnum málsins hefur Y starfað sjálfstætt við vörubifreiðaakstur nokkra mánuði á ári undanfarin ár.  Aðra mánuði ársins hefur hann þegið atvinnuleysisbætur frá úthlutunarnefnd nr. 2 og var reiknað bótahlutfall hans 86%.  Þá mánuði sem hann starfaði sem vörubifreiðastjóri hefur hann reiknað sér endurgjald og greitt tryggingagjald af því lögum samkvæmt.  Samkvæmt staðfestingu skattstjóra stöðvaði Y rekstur 31. október 2005.  Samkvæmt útskrift frá skattstjóra féll starfsemi Y undir flokk E(4) í reglum um reiknað endurgjald á árinu 2005 og flokk E(2) á árinu 2004.  Samkvæmt skattstjóra greiddi Y kr. 44.702 í tryggingagjald á árinu 2005 eða kr. 6.386 að meðaltali á mánuði miðað við þá sjö mánuði sem hann þáði ekki atvinnuleysisbætur.  Á árinu 2004 greiddi hann samtals kr. 69.240 í tryggingagjald á árinu eða kr. 8.655 að meðaltali á mánuði miðað við þá átta mánuði sem hann þáði ekki atvinnuleysisbætur.

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, eiga sjóðfélagar sem uppfylla skilyrði laganna rétt á atvinnuleysisbótum  Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. eru sjóðfélagar bændur, vörubifreiðastjórar og smábátaeigendur.  

 

4. gr. laganna kveður á um almenn skilyrði bótaréttar.  Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. skulu sjóðfélagar uppfylla eftirfarandi skilyrði:

Hafa á síðustu tólf mánuðum áður en þeir stöðvuðu rekstur eða urðu atvinnulausir staðið  mánaðarlega í skilum með greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi í a.m.k. þrjá mánuði áður en rekstur stöðvaðist, en hlutfallslega lengur hafi tekjur af rekstri verið lægri en viðmiðun reiknaðs endurgjalds í hlutaðeigandi starfsgrein samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra.  Hafi sjóðfélagi unnið sem launþegi þegar hann varð atvinnulaus skal hann eiga rétt á bótum úr sjóðnum hafi hann unnið samtals í a.m.k. tíu vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða.

 

1. mgr. 5. gr. laganna kveður á um að eitt af skilyrðum bótaréttar sé lok sjálfstæðrar starfsemi.  Greinin hljóðar svo:

Sjóðfélagi skal samkvæmt lögum þessum teljast atvinnulaus:

1.      Ef hann hefur stöðvað rekstur.

2.      Hefur ekki tekjur eða tekjuígildi af rekstri.

3.      Hefur ekki hafið störf sem launþegi.

4.      Er sannanlega í atvinnuleit og getur tekið tilboðum um atvinnu.

 

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 317/2003, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, telst sjóðfélagi sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfgrein vera í fullu starfi.    Samkvæmt 5. gr. telst einstaklingur vera í hlutastarfi ef hann greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein.  Starfshlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sjóðfélaga og viðmiðunarfjárhæðar. 

 

Samkvæmt reglum fjármálaráðherra um reiknað endurgjald, sem settar eru skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, og gefnar eru út árlega, skulu þær vera til viðmiðunar fyrir reiknað endurgjald fyrir vinnu manns sem vinnur við eigin atvinurekstur eða sjálfstæða starfsemi svo og þeirra sem vinna við sameignarfélag, einkahlutafélag eða hlutafélag þar sem þeir hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.  Ýmis starfsemi einyrkja, ófaglærðra og vélstjórnenda fellur samkvæmt reglunum undir flokk E. 

2.

 

Kærandi reiknaði sér endurgjald fyrir vinnu sína og greiddi af því lögbundið tryggingagjald sem er 5,73% af reiknuðu endurgjaldi.  Á árinu 2005 átti kærandi að reikna sér 194.000 í endurgjald og greiða af því kr. 11.116 í tryggingagjald á mánuði samkvæmt lágmarksviðmiðunarfjárhæð skattstjóra.  Kærandi fékk hins vegar heimild skattstjóra til að greiða sér lægra endurgjald.  Þannig greiddi hann meðaltali kr. 6.386 á mánuði í tryggingagjald í sjö mánuði eða um 57% af lágmarksviðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra. Á árinu 2004 átti kærandi að reikna sér kr. 185.000 í endurgjald og greiða af því kr. 10.601 í tryggingagjald á mánuði.  Kærandi greiddi hins vegar að meðaltali kr. 8.655 í tryggingagjald á mánuði eða 82% af viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra.  Viðmiðunartími útreiknings bótaréttar er 12 mánaða vinnutímabil.  Samkvæmt framansögðu ávann kærandi sér inn 57% bótarétt í sjö mánuði á árinu 2005 og 82% bótarétt í fimm mánuði á árinu 2004.  Meðalbótahlutfall kæranda reiknast því 67%.

            Með hliðsjón af ofangreindu er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga um 52% bótarétt kæranda felld úr gildi.  Hlutfall bótaréttar kæranda reiknast þess í stað 67% með vísan til 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, og 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 317/2003.  

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga frá 19. desember 2005 um 52% bótahlutfall Y er felld úr gildi.  Bótahlutfall Y reiknast 67%.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

formaður

 

Elín Blöndal                                          Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni