Krafa um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta felld úr gildi. Ekki sýnt fram á meðvitaða ætlun bótaþega að svíkja ranglega út bætur.
Nr. 12 - 2006

Úrskurður

 

Þann 4. maí 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 12/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 31. október 2005 að A endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði einfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 688.116.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að S hefði samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur tímabilið ágúst 2002 til maí 2005 þegið greiðslur frá Tryggingastofnun og Lífeyrissjóðnum G án þess að tilkynna það svæðisvinnumiðlun.  Úthlutunarnefndin ákvað jafnframt að H bæri að skrá sig bótalaust hjá svæðisvinnumiðlun í 191 dag sem samsvari ofgreiddum bótum. Ákvörðunin var tekin með vísan til 27. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar og 14. gr. reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

2.

 

A kærði ákvörðun úthlutunarnefndar með bréfi þann 21. desember 2005. Í bréfi sínu segist hún óska eftir því að ákvörðun úthlutunarnefndar verði felld úr gildi og réttur hennar til atvinnuleysisbóta viðurkenndur.  Hún hafi fyrst fengið greiddar atvinnuleysisbætur í ágúst 2002.   Í apríl 2004 hafi hún síðan fengið fyrstu greiðslu frá Lífeyrissjóði F, sem í dag heitir Lífeyrissjóðurinn G.  Greiðslan hafi verið aftur í tímann eða frá ágúst 2002 að telja.  Síðan hafi hún fengið reglulegar greiðslur frá Lífeyrissjóðnum G.   Frá því að hún fór að fá endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins um mitt ár 2003 hafi hún reglulega sent úthlutunarnefnd greiðsluseðla frá Tryggingastofnun.  Síðar, þegar hún fór að fá greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna hafi þær verið sérstaklega tilgreindar á greiðsluseðli Tryggingastofnunar sem hún hafi afhent úthlutunarnefnd.  Einnig hafi hún talið þessar greiðslur fram á skattframtali sínu eins og lög geri ráð fyrir.  Þannig telji hún að hún hafi gert úthlutunarnefndinni fullnægjandi grein fyrir þeim greiðslum sem henni hafi borist frá Greiðslustofnun lífeyrissjóðanna frá upphafi.  Hún kunni hins vegar engar skýringar á því af hverju úthlutunarnefndin gerði ekkert með þessar upplýsingar.  Í ljósi framanritaðs segist A vilja mótmæla því að hún hafi ekki gefið upplýsingar um framangreindar greiðslur og þannig með vísvitandi og jafnvel saknæmum hætti tekið á móti greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem hún átti ekki rétt á.

Haft var samband við Tryggingastofnun ríkisins sem staðfesti að stofnunin hefði þar til fyrir skemmstu faxað greiðsluseðla að beiðni lífeyrisþega til annarra aðila, þ.m.t. opinberra stofnana.  Þetta hefði þó alveg verið tekið fyrir og mætti nú einungis faxa greiðsluseðla á lögheimili greiðsluþega.  Að sögn starfsmanns Tryggingastofnunar koma fram á bakhlið greiðsluseðla stofnunarinnar tekjur annars staðar frá og er þetta gert til skýringar fyrir greiðsluþega á útreikningum greiðslna.  Þetta fyrirkomulag hafi hins vegar fyrst verið tekið upp í apríl 2004, áður komu greiðslur frá lífeyrissjóðum eða öðrum aldrei fram á greiðsluseðlum Tryggingastofnunar, hvorki framhlið eða bakhlið þeirra.

Einnig var haft samband við Lífeyrissjóðinn G sem staðfesti að A hafi fengið mánaðarlegar greiðslur frá sjóðnum frá því í apríl 2003.  Fyrsta greiðslan hafi verið aftur í tímann eða allt aftur til ágúst 2002.  Fram kom að launaseðlar væru ávallt sendir út með hverri greiðslu. 

Í bréfi frá úthlutunarnefnd mótt. 8. febrúar 2006 segir að A hafi aldrei skilað inn neinum launaseðlum vegna greiðslna sem hún fékk frá Lífeyrissjóðnum G frá árinu 2002.  Greiðsluseðla frá Tryggingastofnun ríkisins hafi hún yfirleitt sent á faxi og á þeim séu engar upplýsingar um aðrar tekjur greiðsluþega, hvað þá að starfsmönnum úthlutunarnefnda sé kunnugt um tekjur bótaþega þó svo að þeir telji þær fram til skatts.  Hilma hafi ítrekað lent í greiðslustöðvun atvinnuleysisbóta vegna samlesturs atvinnuleysisskrár við gögn ríkisskattstjóra og fengið send bréf þar sem óskað var skýringa frá henni á þeim tekjum sem hún hafði.  Hún hafi aldrei gefið upplýsingar um þær tekjur sem hún hafði úr Lífeyrissjóðnum Framsýn, eingöngu um greiðslurnar frá Tryggingastofnun.  Þetta hafi gengið upp þar til kennitölur greiðenda komu fram á yfirliti til úthlutunarnefndar, en þá hafi komið í ljós að Hilma hafði tekjur frá öðrum aðila sem hún hafði aldrei gefið upp.  Samkvæmt upplýsingum frá úthlutunarnefnd var það í byrjun árs 2005 sem greiðendur voru fyrst sundurgreindir greiðendur eftir kennitölum við samlestur við gögn ríkisskattstjóra.  Áður hafi einungis verið getið um heildartekjur bótaþega.

Í gögnum málsins liggja fyrir þrjú bréf frá úthlutunarnefnd til A.  Í bréfi 29. september 2003 er hún beðin um skýringar á tekjum í maí og júní 2003 sem hún hafði ekki gefið upp hjá úthlutunarnefnd, í bréfi 28. október 2003 er hún beðin um skýringar á tekjum í ágúst 2003 sem hún hafði ekki gefið upp, og í bréfi 12. september 2005 segir að komið hafi í ljós við samlestur við gögn ríkisskattstjóra að hún hefði þegið greiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða í febrúar, mars og apríl 2005 án þess að gefa þær upp hjá úthlutunarnefnd. Samkvæmt upplýsingum úthlutunarnefndar svaraði A fyrri tveimur bréfunum munnlega hjá úthlutunarnefnd og tjáði starfsmanni hennar að um greiðslur frá Tryggingastofnun væri að ræða.  Úthlutunarnefndein sá ekki ástæðu til að kanna málið nánar og lét sér nægja fyrrgreindar skýringar. Bréfi frá september 2005 svaraði A síðan með bréfi 12. október 2005 og skýrði frá tekjum sínum frá Lífeyrissjóðnum G. 

                       

 

           

Niður­staða

1.

 

Í 15. gr. laga nr. 12/1997 segir eftirfarandi:

Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.

Fyrsta brot varðar missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot í 12 mánuði.

 

 

27. gr. laga nr.12/1997 hljóðar svo:

Það varðar sektum að gefa rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum í því skyni að fá bætur greiddar eða aðstoða við slíkt athæfi.  Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.

 

14. gr. reglugerðar nr. 545/1997 hljóðar svo:

Nú á Atvinnuleysistryggingasjóður útistandandi kröfu samkvæmt 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta þá heimilt að nota þá kröfu til skuldajöfnunar á móti atvinnuleysisbótum að því tilskildu að umsækjandi uppfylli skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um bótarétt.  Skulu þá bætur fyrst greiddar umsækjanda þegar skuld hans við Atvinnuleysistryggingasjóð er að fullu greidd.

 

 

2.

 

            Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum þáði kærandi atvinnuleysisbætur samhliða því að þiggja greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og Lífeyrissjóðnum G.  Kærandi gaf ávallt upp tekjur þær sem hún fékk frá Tryggingastofnun og lagði fram greiðsluseðla þeim til staðfestingar.  Kærandi virðist ekki hafa gefið sérstaklega upp greiðslur þær sem hún fékk frá Lífeyrissjóðnum G hjá úthlutunarnefnd né lagt fram launaseðla.  Að sögn kæranda stóð hún í þeirri trú að úthlutunarnefnd væri  kunnugt um þessar greiðslur og að þær hefðu komið fram á greiðsluseðlum frá Tryggingastofnun sem kærandi skilaði reglulega til úthlutunarnefndar.  Í byrjun árs 2005 komu fyrst fram upplýsingar um kennitölur greiðenda við samlestur við gögn ríkisskattstjóra.  Áður var einungis getið um heildartekjur bótaþega.  Í fyrirliggjandi gögnum kemur fram að úthlutunarnefnd hafi við samlestur atvinnuleysisskrár við gögn ríkisskattstjóra ítrekað borist upplýsingar frá því í apríl 2003 um að tekjur kæranda væru hærri en uppgefnar tekjur.  Úthlutunarnefndin sá þó ekki ástæðu til að kanna málið nánar og lét sér nægja þær skýringar að um greiðslur frá Tryggingastofnun væri að ræða.

Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4186/2004 er það skilyrði fyrir beitingu heimilda 15. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um endurkröfu að sýnt sé með viðhlýtandi hætti fram á meðvitaða ætlun bótaþega um að afla sér bóta með þeim hætti sem lýst er  í ákvæðunum.  Þá kemur fram í sama áliti umboðsmanns Alþingis að í lögmætisreglu stjórnsýsluréttar felist að heimild til afturköllunar slíks réttar sem greiðsla atvinnuleysisbóta er, sem þegar er orðinn virkur samkvæmt ákvörðun stjórnvalda, verði að vera skýr og glögg.  Samkvæmt ólögfestum reglum eru einnig strangari skilyrði um endurkröfur ef bótaþegi hefur þegið greiðslur í góðri trú og bæturnar eru ætlaðar til framfærslu.  Í 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er einungis minnst á endurkröfu ef bótaþegi hefur aflað sér bóta með því að leyna upplýsingum eða gefa rangar upplýsingar í þeim tilgangi að afla sér ranglega bóta.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta hefur ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að skilyrði fyrir beitingu viðurlaga 2. mgr. 27. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, sé uppfyllt.  Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru því ekki lagaskilyrði til að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur né til skuldajöfnunar skv. 14. gr. rgl. nr. 545/1997.

 

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Felld er úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta frá 31. október 2005 um að A beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 688.116 með bótalausri skráningu hjá svæðisvinnumiðlun.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                               Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni