Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadga. Sinnuleysi um atvinnutilboð jafngilti höfnun tillboðsins.
Nr. 26 - 2006

Úrskurður

 

Hinn 4. maí 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 26/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 6. mars 2006 að réttur A til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að A sinnti ekki atvinnutilboði frá S frá 13. febrúar sl.

 

2.

 

A kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 10. mars 2006.  Í bréfi sínu segist hún ekki hafa hafnað atvinnu.  Henni  hafi verið afhent atvinnutilboð hjá svæðisvinnumiðlun þar sem henni voru gefnir tveir dagar til að sækja um starfið.  Í tilboðinu var gefið upp símanúmer sem hún átti að hafa samband við.  Hún hafi hringt nær stanslaust í þessa tvo daga en enginn  hafi svarað.  Eftir þetta hafi hún hringt í starfsráðgjafa hjá svæðisvinnumiðlun og tjáð henni þetta.  Hún hafi síðan ekki vitað fyrr en að henni barst bréf þar sem sagði að bótaréttur hennar hefði verið felldur niður.

            Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð frá S frá 13. febrúar 2006.  Um var að ræða vinnu  við afgreiðslu í verslun og skyldi vinnutíminn vera frá kl. 9 til 17.  Samkvæmt atvinnutilboðinu hafði A ekki samband við fyrirtækið.  Haft var símsamband við verslunarstjóra fyrirtækisins.  Samkvæmt henni er verslunin opin frá kl. 9 á morgnana til 12 á miðnætti.  Verslunarstjórinn taldi það alls ekki geta staðist að ekki hafi verið svarað í síma í versluninni. Um álagstíma sé að ræða í hádeginu milli kl. 12 og 13 en annars sé alltaf svarað í síma.

            Að sögn starfsráðgjafa hjá svæðisvinnumiðlun er það venjan að atvinnuleitendur fái tvo daga til að komast í samband við atvinnuveitanda er þeim er afhent atvinnutilboð.  Samkvæmt starfsráðgjafanum hringdi A í hana daginn eftir og sagðist ekki hafa náð sambandi.  Starfsráðgjafinn telur sig ekki geta staðfest að hann hafi hvatt A til að fara á staðinn ef ekki væri svarað í símann.  Hún ráðleggi fólki þó alltaf að halda áfram að hringja ef þeir hafa samband og segjast ekki hafa náð símsambandi á þessum tveimur dögum, og oft segi hún fólki að fara á staðinn ef síminn svari ekki.

           

Niður­staða

 

1.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.  Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laganna er skilyrði bótaréttar að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa.

Þetta skilyrði er áréttað frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir eftirfarandi:

 

,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

c.         Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga  um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.  Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna um missi bótaréttar samkvæmt greininni.  Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.

 

2.

 

Kærandi fékk tilboð um starf við afgreiðslu í S.  Kærandi átti að hafa samband við atvinnurekandann símleiðis.  Kærandi segist hafa  reynt að hringja nær stanslaust í tvo daga í fyrirtækið en enginn hafi svarað.  Samkvæmt atvinnurekandanum er verslunin opin frá kl.  9 á morgnana til miðnættis og telur hann það óhugsandi að ekki hafi verið svarað í síma.  Þar fyrir utan gerði kærandi ekki tilraun til að fara í verslunina og athuga með vinnuna eins og eðlilegt hefði verið miðað við stöðu málsins.  Sýndi kærandi með athafnaleysi sínu áhuga- og sinnuleysi um framkomið atvinnutilboð.  Að mati úrskurðarnefndar jafngilti sinnuleysi kæranda höfnun á atvinnutilboðinu.

Í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit stendur.  Sú atvinnuleit má almennt ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa eða ákveðinn vinnutími komi til greina þannig að önnur störf séu útilokuð, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997 þar sem segir að þeir sem eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum skuli vera reiðubúnir til að ráða sig til allra almennra starfa.  Að mati úrskurðarnefndar bar kæranda að þiggja framkomið atvinnutilboð.  

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997. 

 

Úr­skurðar­orð

Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 6. mars 2006 um að A skuli sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga.

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni