Synjun á beiðni um greiðlsu atvinnuleysisbóta fyrir óstimplaða daga felld úr gildi. Ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar í sex mánuði áður felld úr gildi.
Nr. 29 - 2006
Úrskurður
Þann 4. maí 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 29/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið synjaði á fundi sínum þann 28. febrúar 2006 beiðni Y um greiðslu fyrir óstimplaða daga fyrir tímabilið frá 15. júlí 2005. Málavextir voru þeir að úthlutunarnefnd hafði áður ákveðið að Y bæri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði tvöfaldar ofgreiddar atvinnuleysisbætur, alls að fjárhæð kr. 2.571.254 auk niðurfellingar bótaréttar í sex mánuði. Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta felldi framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar úr gildi með úrskurði 27. janúar 2006. Í framhaldi af ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bótaréttar og endurgreiðslu ofgreiddra bóta hætti Y að skrá sig hjá svæðisvinnumiðlun og hóf ekki skráning á ný fyrr en framangreindur úrskurður úrskurðarnefndar lá fyrir. Ákvörðun úthlutunarnefndar var tekin með vísan til 3. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.
2.
Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar með bréfi þann 9. mars 2006. Í bréfinu segir hann að með ákvörðun úthlutunarnefndar þann 19. júlí 2005 þar sem hann var sviptur bótarétti í 6 mánuði hafi honum verið gert ómögulegt að skrá sig hjá svæðisvinnumiðlun þar sem hann hafi verið tekinn af skrá yfir atvinnulausa með ákvörðun úthlutunarnefndar. Honum hafi þannig verið ókleyft að uppfylla skilyrði 3. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sbr. og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 670/1998, um vinnumarkaðsaðgerðir. Y vekur athygli á að krafa hans lúti einungis að því að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 sjái til þess að það ástand sem skapaðist við ákvörðun hennar og hefur nú verið fellt úr gildi verði fært til rétts horfs en ekki að hann fái greidda óstimplaða daga fyrir tímabilið 15. júlí 2005 til dagsins í dag, þar sem þá væri komið langt fram yfir 6 mánaða tímabilið sem málið snúist um. Beiðni hans til úthlutunarnefndar lúti einungis að því að hann fái greiddar atvinnuleysisbætur fyrir daga innan 6 mánaða tímabilsins sem hann teldist eiga rétt á þar sem honum var á þessu tímabili gert ómögulegt að skrá sig af ástæðum sem hann gat með engu móti ráðið við.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1 mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingarsjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar skal bótaþegi missa bætur fyrir þá daga sem liðnir eru frá síðustu skráningu þar til hann skráir sig á ný hafi hann ekki skráð sig á tilskildum degi. Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 670/1998, um vinnumarkaðsaðgerðir eð þetta ítrekað með eftirfarandi hætti:
Atvinnuleitandi [...] skal að jafnaði mæta vikulega til skráningar nema um annað hafi verið samið skv. starfsleitaráætlun. Líði fresturinn án þess að atvinnuleitandi mæti til skráningar skal hann felldur út af skrá yfir atvinnulausa.
Samkvæmt reglugerð um vinnumarkaðsaðgerðir er svæðisvinnumiðlun skylt að aðstoða atvinnuleitanda við atvinnuleit ef hann óskar þess, þó svo að hann eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Samkvæmt 5. mgr. 10 . gr. reglugerðarinnar skal atvinnuleitandi sem þiggur ekki atvinnuleysisbætur skrá sig a.m.k. einu sinni í mánuði hjá svæðisvinnumiðlun nema um annað hafi verið samið skv. starfsleitaráætlun.
2.
Kærandi hætti að skrá sig sem atvinnuleitanda hjá svæðisvinnumiðlun er bótaréttur hans var felldur niður í 6 mánuði. Kærandi var atvinnulaus þennan tíma þó hann skráði sig ekki hjá svæðisvinnumiðlun. Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta felldi síðan úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bótaréttar kæranda. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta hafði kærandi ástæðu til að ætla að á meðan hann teldist ekki hafa bótarétt þá væri skráningarskylda hans hjá svæðisvinnumiðlun fallin niður og að ef úthlutunarnefndin hefði ekki fellt bótarétt hans niður þá hefði hann haldið áfram að skrá sig hjá svæðisvinnumiðlun. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eiga 3. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997 sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 670/1998 því ekki við í máli kæranda og á kærandi rétt á atvinnuleysisbótum fyrir nefnt tímabil eða frá ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bótaréttar þann 15. júlí 2005 þar til úrskurður úrskurðarnefndar lá fyrir þann 27. janúar 2006 og kærandi hóf að nýju skráningu hjá svæðisvinnumiðlun.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 frá 28. febrúar 2006 um synjun á beiðni Y um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir óstimplaða daga tímabilið 15. júlí 2005 til 27. febrúar 2006, þ.e.frá því að ákvörðun úthlutunarnefndar lá fyrir þar til úrskurðarnefnd felldi ákvörðun úthlutunarnefndar úr gildi.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka