Staðfest synjun á beiðni um greiðlsu atvinnuleysisbóta fyrir óstimplaða daga á meðan á dvöl erlendis stendur vegna veikinda dóttur
Nr. 30 - 2006
Úrskurður
Þann 4. maí 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 30/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 14. mars 2006 að hafna beiðni X um að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir óstimplaða daga tímabilið 1. júní til 24. ágúst 2006, þar sem hún þurfi að aðstoða veika dóttur sína í sumar sem býr erlendis. Ákvörðun úthlutunarnefndar var tekin á grundvelli 3. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysisbætur svo og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 670/1998, um vinnumarkaðsaðgerðir.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 20. mars 2006. Í bréfinu segist hún óska eftir því að ákvörðun úthlutunarnefndar verði endurskoðuð og biður um skjóta afgreiðslu þar sem hún þurfi að panta flugfar mjög fljótlega. Hún telji að stjórnarskáin heimili henni að fara erlendis og sinna veikri dóttur sinni án þess að hún missi réttindi sín á Íslandi, m.a. til atvinnuleysisbóta. Heimilislæknir hennar hafi staðfest að hafa mætti samband við hann ef nánari útskýringa væri þörf á veikindum dóttur hennar.
Í gögnum málsins liggur fyrir læknisvottorð frá 2. mars 2006. Þar segir að vegna alvarlegra veikinda dóttur X þurfi hún að dveljast hjá henni um þriggja mánaða skeið, en dóttirin hún búi erlendis. Óyggjandi heilsufarsástæður liggi fyrir og segist læknirinn styðja eindregið að tekið verði tillit til þessa og að X haldi atvinnuleysisbótum sínum á meðan á þessu standi.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysisbætur er þeim sem ekki hafa gert starfsleitaráætlun á vegum svæðisvinnumiðlunar skylt að láta skrá sig vikulega hjá viðurkenndum skráningaraðila.
3. mgr. 12. gr. laganna hljóðar svo:
Skrái hinn atvinnulausi sig ekki á tilskildum degi skal hann sæta missi bóta fyrir þá daga sem liðnir eru frá síðustu skráningu þar til hann skráir sig á ný.
Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 670/1998, um vinnumarkaðsaðgerðir, er skilyrði skráningar hjá svæðisvinnumiðlun ítrekað með eftirfarandi hætti:
Atvinnuleitandi sem telur sig eiga rétt til atvinnuleysisbóta skal að jafnaði mæta vikulega til skráningar nema um annað hafi verið samið samkvæmt starfsleitaráætlun. Líði fresturinn án þess að atvinnuleitandi mæti til skráningar skal hann felldur út af skrá fyrir atvinnulausa.
2.
Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er það skilyrði greiðslu atvinnuleysisbóta að bótaþegi skái sig hjá viðurkenndum skráningaraðila. Samkvæmt 1.mgr. 1. gr. laganna er einnig skilyrði bótaréttar að vera í atvinnuleit og fullfær til vinnu.
Kærandi fer framá að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir óstimplaða daga nk. sumar á meðan hún dvelur erlendis hjá veikri dóttur sinni. Það er mat úrskurðarnefrndar að á meðan kærandi dvelst erlendis teljist hún ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að vera í atvinnuleit. Í þessu skilyrði felst að bótaþegi verður að geta tekið tilboði um vinnu fyrirvaralaust þegar hún býst. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru ekki lagaskilyrði til að verða við beiðni kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir óstimplaða daga. Lögin eru skýr um það að atvinnuleitandi verði að skrá sig reglulega hjá svæðisvinnumiðlun nema um annað hafi verið samið samkvæmt starfsleitarsamningi, en ekkert slíkt samkomulag hafði verið gert við kæranda.
Samkvæmt ofansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur fyrir óstimplaða daga tímabilið 1. júní til 24. ágúst nk. með vísan til 2. og 3. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 670/1998.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 14. mars 2006 um synjun á beiðni X um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir óstimplaða daga tímabilið 1. júní til 24. ágúst 2006.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka