Ákvörðun um að bótaréttur félli niður er 1300 greiddum bótadögum væri náð. Staðfest.
Nr. 16 - 2006
Úrskurður
Þann 4. maí 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 16/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru á þá leið að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 18. apríl 2006 að réttur Y til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður er 1300 bótadögum væri náð. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 9. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðunin var tekin með vísan til þess að 31. mars 2006 voru greiddir bótadagar Y orðnir samtals 1264.
2.
Y kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 24. apríl 2006. Í bréfinu fer hann fram á að ákvörðun úthlutunarnefndar verið felld úr gildi. Hann rökstyður beiðni sína með því að enginn geri sér það að góðu að vera atvinnulaus. Það sé alveg sama hvað hann sæki um mörg störf, hann fái enga vinnu. Hann sé að verða 64 ára og þá sé erfitt að fá starf.
Í gögnum málsins liggur fyrir greiðslusaga Y hjá úthlutunarnefnd nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið. Þar kemur fram að Y hefur þegið atvinnuleysisbætur tímabilið 2. október 1997 til 15. apríl 1998, 14. september 1998 til 20. október 2000, og 2. janúar 2004 til dagsins í dag. Þann 14. apríl sl. töldust greiddir bótadagar samtals vera orðnir 1274.
Niðurstaða
1.
9. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar hljóðar svo:
Bótatímabil skal að hámarki vera fimm ár. Nú fær maður, sem er byrjaður á bótatímabili, launaða vinnu og framlengist þá bótatímabil hans sem svarar starfstímabilum. Nýtt bótatímabil getur hafist að liðnum tólf mánuðum frá því að bótatímabili lauk, enda eigi maður að baki samtals a.m.k. sex mánaða launaða vinnu eftir að bótatímabili lauk.
Fimm ára bótatímabil samkvæmt 9. gr. laga nr. 12/1997 samsvarar 1300 bótadögum. Fái maður sem byrjaður er á bótatímabili launaða vinnu þá framlengist bótatímabil hans sem svarar starfstímabilum. Viðkomandi getur því verið eitt tímabilið á atvinnuleysisbótum, það næsta í vinnu og svo koll af kolli þar til nýttir bótadagar ná samtals fimm árum sem samsvarar 1300 bótadögum. Hann getur einnig verið samfellt á atvinnuleysisbótum í fimm ár. Í báðum tilvikum gildir sú regla að þegar hann hefur verið í fimm ár samtals á atvinnuleysisbótum fellur bótaréttur hans sjálfkrafa niður. Nýtt bótatímabil getur ekki hafist fyrr en að liðnum tólf mánuðum frá því að fyrra bótatímabili lauk. Auk þess verður viðkomandi að eiga að baki samtals sex mánaða launaða vinnu eftir að bótatímabili lauk til að öðlast rétt á nýju fimm ára bótatímabili.
2.
9. gr. laga núgildandi laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar er skýrt orðuð. Samkvæmt greininni fellur bótaréttur niður er bótaþegi hefur frá upphafi bótatímabils fengið greidda samtals 1300 bótadaga og öðlast hann ekki bótarétt fyrr en að 12 mánuðum liðnum auk þess sem hann þarf að hafa verið í launaðri vinnu í a.m.k. sex mánuði.
Samkvæmt ofansögðu eru ekki lagaskilyrði til að verða við ósk kæranda um nýtt bótatímabil áður en fyrra bótatímabili hans lýkur. Samkvæmt þessu er það mat úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um að nýttir bótadagar miðað við 31. mars 2006 séu 1264 með vísan til 9. gr. laga nr. 12/1997.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 18. apríl 2006 um að nýttir bótadagar Y miðað við 30. mars 2006 séu samtals 1264.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka