Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hafnar atvinnutilboði. Staðfest.
Nr. 14 - 2006

Úrskurður

 

Hinn 4. maí 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 14/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 3. apríl 2006 að réttur Y til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga á grundvelli 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að Y hafnaði atvinnutilboði frá B frá 6. febrúar 2006.

 

2.

Y kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 6. apríl 2006.  Í bréfinu segir hann að vinnustaðurinn hafi verið of fjarri heimili hans.  Ómögulegt hefði verið fyrir hann að komast til vinnu á réttum tíma þar sem hann sé bíllaus.  Hann sé af þessum sökum að leita að annarri vinnu.

            Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð frá B frá 6. febrúar 2006. Um var að ræða starf byggingaverkamanns í S í Garðabæ og skyldi vinnutíminn vera frá kl. 8:00 á morgnana til kl.18:00.  Samkvæmt tilboðinu hafnaði Y starfinu þar sem vinnustaðurinn í Garðabæ væri of langt frá heimili hans og hann væri bíllaus.  Samkvæmt útskrift frá Strætó BS tekur 38 mínútur að komast frá heimili Y  til vinnustaðarins í Garðabæ með vögnum fyrirtækisins.  Samkvæmt upplýsingum frá Strætó BS hefst akstur um kl. 7:00 á morgnana á virkum dögum.

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.  Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laganna er skilyrði bótaréttar að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa.

Þetta skilyrði er áréttað frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir eftirfarandi:

 

,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a.         Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.

b.         Að vera fullfær til vinnu.

c.         Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.

 

 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga  um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.  Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laganna um missi bótaréttar samkvæmt greininni.  Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.

 

2.

Kærandi fékk tilboð um atvinnu og skyldi vinnutíminn vera frá kl. 8:00 til 18:00 virka daga.  Kærandi kveðst hafa hafnað atvinnutilboðinu vegna þess að hann sé bíllauss og því hafi verið ómögulegt fyrir hann að komast til vinnu á réttum tíma á morgnana.  Samkvæmt upplýsingum frá Strætó BS hefst akstur strætisvagna um kl. 7:00 á morgnana.  Samkvæmt útskrift úr heimasíðu Strætó BS væri kærandi kominn á vinnustaðinn  í Garðabæ kl. 7:55 ef hann tæki strætisvagn við heimili sitt kl. 7:17 á morgnana.

Í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit sinni stendur.  Sú atvinnuleit má almennt ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa eða ákveðinn vinnutími eða staður komi til greina þannig að önnur störf séu útilokuð, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997 þar sem segir að þeir sem eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum skuli vera reiðubúnir til að ráða sig til allra almennra starfa. Að mati úrskurðarnefndar bar kæranda að þiggja framkomið atvinnutilboð.  

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 1. mgr. 13. gr., sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997. 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 3. apríl 2006 um að Y skuli sæta niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni