Ótímabundin niðurfelling bótaréttar. Mætir ekki á starfsleitarnámskeið. Ítrekun. Hafði áður fengið 40 daga niðurfellingu bóta vegna starfsloka. Staðfest.
Nr. 21 - 2006
Úrskurður
Hinn 4. maí 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 21/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 20. mars 2006 að fella ótímabundið niður rétt X til atvinnuleysisbóta. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli þess að X mætti ekki á áður boðað námskeið Vinnumiðlunar sem haldið var dagana 6. til 17. febrúar 2006. Um ítrekun var að ræða þar sem þann 15. nóvember 2005 hafði hún fengið 40 daga niðurfellingu bótaréttar vegna starfsloka hjá H.
2.
X kærði framangreinda ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 24. apríl 2006. Í bréf sínu segist hún ekki hafa mætt á námskeiðið vegna þess að hún hafi vegna tungumálaerfiðleika ekki vitað hvar það var haldið. Hún viti að henni hafi verið boðin aðstoð með tungumálið á námskeiðinu, en því miður hafi það ekki gagnast þar sem hún hafi ekki áttað sig á því hvar námskeiðið hafi verið haldið. X segist óska eftir því að ákvörðun úthlutunarnefndar verði felld úr gildi og að hún komist aftur á atvinnuleysisbætur. Hún sé tilbúin að fara á námskeiðið ef hún fái annað tækifæri.
Í gögnum málsins liggur fyrir boðun á starfsleitarnámskeið frá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins. Námskeiðið var haldið í Alþjóðahúsinu tímabilið 6. til 17. febrúar 2006. Boðunin var dagsett 27. janúar sl. og samþykkti X hana sama dag með undirritun sinni. Í boðuninni sagði feitletrað að það gæti valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tæki ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgdi ekki slíkri áætlun. Ennfremur sagði í boðuninni að mikilvægt væri að viðkomandi mætti á námskeiðið. Farið var fram á að forföll yrðu tilkynnt með góðum fyrirvara. Samkvæmt bréfi Vinnumiðlunar þann 6. mars 2006 mætti X ekki á námskeiðið.
Að sögn deildarstjóra ráðgjafarsvið hjá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins bauðst X að fá boðunarbréfið bæði á arabísku og spænsku auk túlks á námskeiðinu. X afþakkaði þetta hinsvegar. Tekið er fram að eiginmaður X talar sæmilega íslensku. Einnig liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá H dags. 16. nóvember 2005. Þar segir að X hafi starfað sem þerna á hótelinu til 21. desember 2004 er hún hafi farið í fæðingarorlof. Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi ekki komið aftur til starfa eftir fæðingarorlof. Samkvæmt greiðsluyfirliti frá Fæðingarorlofssjóði var X í fæðingarorlofi tímabilið janúar til september 2005.
Niðurstaða
1.
1. mgr. 12. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, hljóðar svo:
Samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar getur það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar skv. e-lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Um missi bótaréttar gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laga þessara.
Í 10. gr. laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, er fjallað um verkefni svæðisvinnumiðlunar. E-liður 1. mgr. 10. gr. hljóðar svo:
Að sjá til þess að atvinnulausir eigi kost á ráðgjöf og úrræðum, svo sem námi eða starfsþjálfun, sem miðast við þarfir og aðstæður hvers og eins og hafa það að markmiði að auka starfsgetu og starfsmöguleika hins atvinnulausa.
Í 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að eftirfarandi einstaklingar eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. 4. töluliður greinarinnar hljóðar svo:
Þeir sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
2.
Kærandi samþykkti með undirritun sinni þann 27. janúar 2006 að mæta á starfsleitarnámskeið á vegum Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins sem haldið skyldi dagana 6. til 17. febrúar sl. í Alþjóðahúsinu. Kæranda, sem er af erlendum uppruna, bauðst að fá boðunarbréfið annað hvort á arabísku eða spænsku, en afþakkaði það. Kærandi mætti síðan ekki á námskeiðið, að eigin sögn vegna þess að hún vissi ekki hvar það var haldið. Um ítrekun var að ræða þar sem kærandi hafði áður sætt niðurfellingu bótaréttar í 40 bótadaga vegna starfsloka sinna hjá H. Að mati úrskurðarnefndar eru ástæður þær sem kærandi gefur fyrir fjarveru sinni frá námskeiðinu ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Að teknu tilliti til ofangreinds er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar kæranda staðfest með vísan til 1. mgr. 12. gr. sbr. 4. tölulið 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Kærandi öðlast fyrst bótarétt að nýju er hún sannar að hún hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hún missti bótaréttinn.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 20. mars 2006 um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar X.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka