Synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur felld úr gildi. Er í 6 eininga háskólanámi.
Nr. 34 - 2006

Úrskurður

 

Þann 31. mars 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 34/2006.

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 14. mars 2006, að hafna umsókn A um atvinnuleysisbætur frá 1. febrúar 2006. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 5. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta, nr. 545/1997.  Ákvörðunin var tekin með vísan til þess að A væri skráð í nám við Háskóla Íslands veturinn 2005-2006.

 

2.

A kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi mótt. 22. mars 2006.  Í  bréfi sínu segist hún vera skráð í 6 eininga nám við Háskóla Íslands.  Um sé að ræða nám sem sé skipulagt sem nám með vinnu.  Hún hafi ætlað sér að finna vinnu með náminu en ekki tekist og því hafi hún sótt um atvinnuleysisbætur.  Sex eininga nám á háskólastigi teljist ekki lánshæft nám hjá LÍN.  Þar séu gerðar kröfur um að lokið sé a.m.k. 11 einingum á önn til að námið teljist lánshæft.  Hún hafi því enga möguleika á að sjá fyrir sér eða dóttur sinni fái hún ekki atvinnuleysisbætur.  Hún hafi þar að auki tekið ákvörðun um að hætta náminu þar sem álagið við atvinnuleit og fleira hafi gert það að verkum að hún hafi ekki getað stundað námið og hafi hún ekki getað sótt tíma frá byrjun mars sl.  A óskar eftir því að ákvörðun úthlutunarnefndar verði endurskoðuð og henni greiddar atvinnuleysisbætur frá skráningardegi.

Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting frá félagsvísindadeild Háskóla Íslands frá 22. mars 2006.  Þar kemur fram að A er skráð í tvö þriggja eininga námskeið í meistaranámi í alþjóðasamskiptum á vorönn 2006 eða samtals 6 einingar.  Fjöldi kennslustunda á viku í hvoru námskeiði eru þrjár.  Tímasókn er þannig samtals um fjórar klukkustundir á viku.  Samkvæmt stundaskrá A var annað námskeiðið kennt fyrir kl. 11 á miðvikudagsmorgnum og hitt eftir kl. 16 á fimmtudögum.

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.  Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laganna er skilyrði bótaréttar að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa.

Í 5. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta, nr. 545/1997, er kveðið á um að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma, nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.

 

 2.

            Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir í máli þessu er kærandi í 6 eininga námi í alþjóðasamskiptum við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Fullt nám hjá Háskóla Íslands er 15 einingar.  Kennslan fer fram að mjög litlum hluta á dagvinnutíma. Verður ekki annað séð en að kærandi uppfylli lagaskilyrði þess að teljast atvinnulaus og í atvinnuleit sbr. framangreind ákvæði laga nr. 12/1997. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru því ekki lagaskilyrði til að synja greiðslu ativnnuleysisbóta samfara námi kæranda.  Er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur því felld úr gildi.

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 14. mars 2006 um synjun á umsókn A um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.