Endurkrafa um ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Fellt úr gildi.
Nr. 3 - 2007

Úrskurður

 

Þann 13. mars 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysisleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 3/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu ákvað þann 15. janúar 2007 að Y bæri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 70.914 með 15% álagi eða alls kr. 81.555.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að Y hefði þegið atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann hafi þegið laun frá R og F í apríl 2006 án þess að gefa upplýsingar um laun þessi hjá Vinnumálastofnun.  Ákvörðunin var tekin á grundvelli 2. og 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.

 

2.

           

            Y kærði framangreinda ákvörðun með bréfi, dags. 23. janúar 2007.  Í bréfi sínu segist hann hafa skrifað Vinnumálastofnun bréf þann 17. október 2006 þar sem hann hafi bent  á að hann væri ekki í vinnu hjá R.  Hann hefði vissulega fengið greiðslu frá þeim en hann hafi litið svo á að um leiðréttingu á launum hafi verið að ræða.  Greiðslan hafi komið eftir að honum hafi verið sagt upp störfum.  Hann hafi engar reglur brotið.  Hann hafi alltaf látið R og Eflingu vita af því að hann tæki alla þá vinnu sem honum byðist, þar á meðal fyrir F í afleysingu ef um veikindaforföll hefur verið að ræða, einhver farið í frí eða ef þá hefur vantað aðstoð um jólin.  Hann hafi vísað á Ríkisskattstjóra í tengslum við upplýsingar um greiðslur frá F og það sama hafi átt við um R.  Vinnumálastofnun hafi verið bent á að hafa beint samband við þá, enda hafi hann ekkert haft að fela.  Kærandi segist fara fram á leiðréttingu, hann eigi inni greiðslur hjá Eflingu en ekki öfugt.  Í bréfi dags. 17. október 2006 segir kærandi að greiðslurnar frá R hafi verið orlofsgreiðslur, í tilviki F gæti hafa verið um laun að ræða, ef ekki laun, þá orlof.  Kærandi segist í bréfinu að auki eiga rétt á 100% bótum en ekki 70% eins og hann hafi fengið. 

Í gögnum málsins liggur fyrir útskrift frá Ríkisskattstjóra fyrir árið 2006.  Þar kemur fram að kærandi fékk greiddar kr. 65.464 frá R í apríl og kr. 175.891 frá F í sama mánuði. Samkvæmt tölvupósti frá F frá 2. mars 2007 fékk kærandi greidd laun 30. apríl 2006 fyrir tímabilið 15. mars til 31. mars 2006 og dagana 7. og 13. apríl 2006.  Samkvæmt upplýsingum frá R hætti kærandi störfum um mánaðarmótin mars-apríl 2006 og fékk greitt orlof í apríl. Samkvæmt greiðslusögu kæranda þáði hann atvinnuleysisbætur í apríl 2006, samtals að fjárhæð kr. 90.490.  Fram kemur í greiðslusögunni að meðalbótahlutfall kæranda er 78%.  Fyrir liggur vinnuveitandavottorð frá R.  Þar kemur fram að kærandi starfaði hjá R í 100% starfshlutfalli tímabilið 1. september 2004 til 10. júní 2005.

 

Niður­staða

1.

 

            Kærandi þáði atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann fékk greidd laun í apríl 2006, eða fyrir gildistöku laga nr. 54/2006.  Eldri lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, eiga því við í máli Y.

Í 15. gr. laga nr. 12/1997 segir eftirfarandi:

Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.

Fyrsta brot varðar missi bóta í 2-6 mánuði en ítrekað brot í 12 mánuði.

 

27. gr. laga nr.12/1997 hljóðar svo:

Það varðar sektum að gefa rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum í því skyni að fá bætur greiddar eða aðstoða við slíkt athæfi.  Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.

Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.

 

2.

            Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur í apríl 2006 að fjárhæð kr. 90.491.  Í samlestri hjá Ríkisskattstjóra kom fram að í sama mánuði fékk hann greidd laun að fjárhæð kr. 241.355.  Samkvæmt staðfestingu frá atvinnuveitendunum vann kærandi í þrjá daga hjá F í apríl 2006 en ekkert hjá R.  Greiðslurnar voru vegna vinnu fyrir starfslok um mánaðarmótin mars-apríl 2006.

Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4186/2004 er það skilyrði fyrir beitingu heimilda 15. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um endurkröfu að sýnt sé með viðhlítandi hætti fram á meðvitaða ætlun bótaþega um að afla sér bóta með þeim hætti sem lýst er  í ákvæðunum.  Þá kemur fram í sama áliti umboðsmanns Alþingis að í lögmætisreglu stjórnsýsluréttar felist að heimild til afturköllunar slíks réttar sem greiðsla atvinnuleysisbóta er, sem þegar er orðinn virkur samkvæmt ákvörðun stjórnvalda, verði að vera skýr og glögg.  Samkvæmt ólögfestum reglum eru einnig strangari skilyrði um endurkröfur ef bótaþegi hefur þegið greiðslur í góðri trú og bæturnar eru ætlaðar til framfærslu.  Í 2. mgr. 27. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er einungis minnst á endurkröfu ef bótaþegi hefur aflað sér bóta með því að leyna upplýsingum eða gefa rangar upplýsingar í þeim tilgangi að afla sér ranglega bóta. 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta hefur ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að skilyrði fyrir beitingu viðurlaga 2. mgr. 27. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, sé uppfyllt og telur úrskurðanefndin að vafa þar um beri að meta kæranda í hag. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru því ekki lagaskilyrði til að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur.

 

Úr­skurðar­orð:

 

Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar atvinnuleysisbóta frá 13. janúar 2007 um að Y beri að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð kr. 81.551.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni