Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga
Nr. 19 - 2003
Úrskurður
Þann 17. mars 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 19/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 21. janúar 2002 umsókn B um atvinnuleysisbætur. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði um starfslok hans hjá X var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils skv. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997.
2.
B kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 9. febrúar 2003. Í bréfi sínu vísar hann til tveggja bréfa, ódagsettra, sem hann sendi úthlutunarnefndinni.með tölvupósti. Í bréfunum segist hann hafa starfað hjá X í 30 ár sem kerfisstjóri og við forritun. Stofnunin noti tölvukerfi sem hann hafi verið að þróa um árabil. Hann hafi hlotið lof yfirmanna og samstarfsmanna fyrir að koma vinnustað sínum í fremstu röð á Norðurlöndum í tölvuskráningu sérhæfðra gagna. Fyrir tveimur árum hafi nýr forstjóri komið til starfa. Fljótlega eftir það hafi hann farið að finna mótbyr vegna kerfisins. Fengnir hafi verið utanaðkomandi sérfræðingar til að gera úttektir á kerfinu. Hann hafi fyrstu skýrsluna undir höndum og þar komi fram að kerfið þjóni vel þörfum stofnunarinnar og engin ástæða sé til að skipta út. Hann hafi unnið við að endurskrifa elsta hluta kerfisins. Einn daginn hafi birst maður sem hann átti að uppfræða svo sá gæti gert tilboð í það verk. Honum fannst hann ekki lengur njóta trausts og hafi því sagt upp störfum til að gefa nýjum stjórnendum frjálsar hendur með framvinduna. Hann hafi hætt þann 1. nóvember 2001 eða fyrir rúmu ári. Hann hafi að mestu dvalið erlendis árið 2002 og ekki sótt um atvinnuleysisbætur fyrr en nú.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerð nr. 545/1997 um greiðslu atvinnuleysisbóta en þar segir: Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga hafi umsækjandi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna. Í ákvæði þessu er ekki kveðið á um hvort viðurlagaákvæði þessu verði beitt án tillits til þess hve langt sé liðið frá því að starfslok urðu og þar til viðkomandi sækir um atvinnuleysisbætur. Almenn lagarök þykja þó mæla með því að viðurlagaheimild þessari skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Það megi því m.ö.o. líta svo á að viðkomandi hafi í stað þess að vera í starfi tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu og valið þann kost að fara á atvinnuleysisbætur til lengri eða skemmri tíma. Kærandi sótti ekki um atvinnuleysisbætur fyrr en rúmt ár var liðið frá því hann lét af störfum. At teknu tilliti til þessa er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að fella beri ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísat til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 21. janúar 2003 um að B skuli missa rétt til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils er felld úr gildi.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Friðjón Guðröðarson
formaður
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka