Synjað um atvinnuleysisbætur vegna skorts á barnagæslu. Fellt úr gildi. Segist geta útvegað gæslu ef hún fær vinnu.
Nr. 4 - 2007

 

Úrskurður

 

Hinn 26. janúar 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 4/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Vinnumálastofnun á Austurlandi ákvað þann 29. desember 2006 að hafna umsókn X um atvinnuleysisbætur á grundvelli 14 gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til þess að X væri ekki í virkri atvinnuleit þar sem hún hefði ekki gæslu fyrir barn sitt.

 

2.

 

X kærði framangreinda ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 8. janúar 2007.  Í bréfi sínu segir hún að henni hafi verð synjað um atvinnuleysisbætur vegna þess að barnið hennar væri ekki í gæslu og þess vegna væri hún ekki í virkri atvinnuleit. Staðreyndin sé hins vegar sú að hún sé í virkri atvinnuleit og hafi víða leitað að vinnu.  Sonur hennar sé vissulega ekki í gæslu núna á meðan hún er heima.   Hún hafi þó góða aðila í kringum sig sem væru tilbúnir til að gæta sonar hennar ef hún fengi skyndilega vinnu þar til hann fari á leikskóla en það verði í byrjun apríl. 

            Í umsókn X um atvinnu og atvinnuleysisbætur frá 15. desember 2006 kemur fram að hún eigi þrjú börn, yngsta fætt í apríl 2006 og elsta fætt 1997.  Í umsókninni segist X ekki hafa gæslu fyrir börnin en hún muni fá sér barnagæslu þegar hún fái vinnu. 

 

 

 

Niður­staða

 

1.

 

Samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006 er skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að þeir séu í virkri atvinnuleit.  Í 14. gr. laganna er kveðið á um virka atvinnuleit.  Þar segir m.a. eftirfarandi:

 

,,Sá telst vera í virkri atvinnuleit sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:

a.  er fær til flestra almennra starfa,

b.  hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og uppfyllir skilyrði annarra laga,

c. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,

d.  er reiðubúinn að taka starfi hvar sem á Íslandi,

e.  er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu.

 

 

2.

 

Í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit stendur.  Sú atvinnuleit má almennt ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa eða ákveðinn vinnutími komi til greina þannig að önnur störf séu útilokuð, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.  Í því ákvæði segir m.a. að þeir sem eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum skuli vera reiðubúnir til að ráða sig til allra almennra starfa, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða

Kærandi hefur ekki verið með yngsta barn sitt í gæslu en segist hins vegar geta útvegað gæslu fái hún atvinnu.  Þá eigi hún von á leikskólaplássi í byrjun apríl.  Verður því ekki annað séð en að hún hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, sbr. ákvæði c-liðar 14. gr. laga nr. 54/2006.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að ekki séu skilyrði til að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeim grundvelli að hún sé ekki í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. laga nr. 54/2006.

 

Úr­skurðar­orð

 

Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar á Austurlandi frá 29. desember 2006 um synjun á umsókn X um atvinnuleysisbætur.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Bentsdóttir

for­maður

 

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni