Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp vinnu vegna óánægju með framkomu yfirmanns. Staðfest.
Nr. 5 - 2007

Úrskurður

 

Þann 26. janúar 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 5/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu samþykkti þann 22. desember 2006 umsókn X um atvinnuleysisbætur.  Með vísan til starfsloka hennar hjá R var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. 

 

2.

 

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi 17. janúar 2006.   Í bréfinu segir hún að hún og yfirmaður hennar hafi ekki átt samleið.  Samkvæmt lögum eigi vinnuveitandi að tryggja starfsmönnum sínum gott starfsumhverfi og sjá til þess að einelti viðgangist ekki á vinnustað.  Bregðist hann skyldum sínum getur starfsmaðurinn átt bótarétt gagnvart vinnuveitanda sínum eða gerandanum.  Á litlum vinnustöðum, eins og um sé að ræða í þessu tilviki geti starfsmenn hins vegar lítið sagt við viðkomandi hvernig sem hann hegði sér eða komi fram við sína yfirmenn.  Í framhaldi af vondri framkomu yfirmanns hennar hafi hún tekið þá ákvörðun að segja upp starfi sínu. 

Á þessum vinnustað hafi verið sex starfsmenn.  Núverandi eigandi keypti fyrirtækið um mitt ár 2005.  Fjórir af sex starfsmönnum hafi sagt upp á sama tíma og hún. Eftir að hún lauk störfum þann 20. júní sl. hafi þrír starfsmenn verið ráðnir til fyrirtækisins.  Kærandi segist hafa upplýsingar um að af þessum þremur starfsmönnum hafi tveir þegar sagt upp.  Kærandi segist hafa verið í atvinnuleit síðan hún hætti störfum ásamt því að stunda nám í mannauðsstjórnun hjá Endurmenntun HÍ sem sé nám með starfi.  Hún hafi fyrst skráð sig hjá vinnumiðlun 5. desember sl. og sótt um bætur.  Kærandi kveðst hafa starfað hjá fyrirtækinu á áttunda ár en er nýr eigandi tók við hafi hún ekki séð sér annað fært en að segja upp vegna framkomu hans.  Kærandi segir að hvorki hún né aðrir starfsmenn sem hafi hætt hafi leitað til stéttarfélags.  Kærandi óskar eftir því að ekki verði haft samband við vinnuveitandann eða aðra starfsmenn. 

 

            Í gögnum málsins liggja fyrir útskriftir frá skattstjóra. Þar kemur fram að þrír starfsmenn auk kæranda hafi hætt störfum í júnímánuði 2006.  Að auki vann einn starfsmaður í þrjá mánuði sumarið 2005 og einn mánuð sumarið 2006.  Samkvæmt heimasíðu R. voru þeir tveir starfsmenn sem síðar voru ráðnir og kærandi segir að hafi sagt upp í desember sl. enn skráðir í hópi fimm starfsmanna fyrirtækisins þann 22. janúar 2007.

            Einnig liggur fyrir vinnuveitandavottorð dags. 11. desember 2007 frá Ráðningarþjónustunni ehf. þar sem segir að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu sem ráðgjafi til 20. júní 2006.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sjálf sagt upp störfum. 

Niður­staða

 

1.

 

Ákvæði 54. gr. í X. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna.  Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.

 

 

           

2.

 

Kærandi vann sem ráðgjafi hjá R. Hún starfaði hjá fyrirtækinu í á áttunda ár.  Um mitt ár 2005 urðu eigendaskipti á fyrirtækinu. Strax komu í ljós miklir samskiptaerfiðleikar við nýja yfirmanninn.  Að sögn kæranda var um óréttmæta gagnrýni, persónulegar móðganir, háð, árásargirni, stöðugar breytingar á vinnuaðferðum og vinnutíma o.fl. Fyrir liggur að stór hluti starfsmanna umrædds fyrirtækis sögðu upp störfum þar sumarið 2006.  Jafnfram segir kærandi að starfsmannavelta hjá félaginu hafi verið umtalsverð síðan.  Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta hefur hins vegar engar upplýsingar um ástæður uppsagna þessara og hefur kærandi sérstaklega óskað eftir því að ekki verði haft samband við vinnuveitanda eða aðra starfsmenn.

Miðað við þær forsendur sem uppi eru í máli þessu er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta  að þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum teljist ekki gildar í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.  Ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað flokkast almennt ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. 

 

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga staðfest með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 staðfest..

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu frá 22. desember 2006 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni