Kæru vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn.
Nr. 7 - 2007

Úrskurður

 

Þann 13. mars 2007 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 7/2007.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu samþykkti þann 25. ágúst 2006 umsókn Y um atvinnuleysisbætur frá 27. júlí 2006. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði frá 27. júlí 2006 um starfslok hans hjá S. var réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. 

 

2.

 

Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 7. febrúar 2007.  Í bréfi sínu segist hann hafa sagt upp starfi sínu á H og flutt til Reykjavíkur í kjölfar hjónaskilnaðar.

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá S hf. frá 27. júlí 2006.  Þar segir að kærandi hafi verið starfsmaður fyrirtækisins tímabilið 1. apríl 2006 til 30. júní 2006.  Ástæða starfsloka er að hann hafi sjálfur sagt upp störfum.

  


Niður­staða

 

1.

 

12. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,  fjallar málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.  1. mgr. 12. gr. er svohljóðandi:

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.  Kæran telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.

 

           

2.

 

Kærandi hætti störfum þann 30. júní 2006 og flutti frá H til Reykjavíkur. Hann sótti í kjölfarið um atvinnu og atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu. Með bréfi Vinnumálastofnunar var umsókn hans samþykkt.  Með vísan til starfsloka hans hjá S var bótaréttur hans hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabilsins með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr 54//2006, sem kveður á um að þeir sem segja upp starfi sínu án gildra ástæðna skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að 40 dögum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.  Ákvörðun Vinnumálastofnunar er dagsett þann 25. ágúst 2006.  Kæran er dagsett 7. febrúar 2007 eða rúmum fimm mánuðum síðar.  Kærufrestur samkvæmt 12. gr. laga nr. 54/2006 er þrír mánuðir, eins og leiðbeint var um í framangreindri ákvörðun Vinnumálastofnunar, og barst kæran úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða því nokkru eftir að kærufresti lauk.  Að mati úrskurðarnefndar eru því ekki lagaskilyrði til að taka kæruna til efnislegrar meðferðar og er henni vísað frá á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 54/2006.

 

Úr­skurðar­orð

 

Kæru Y til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 2. febrúar 2007 er vísað frá.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­trygginga og vinnumarkaðsaðgerða

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni