Niðurfelling bótaréttar vegna starfsloka. Óánægja með laun og vinnutilskipun. Staðfest.
Nr. 6 - 2007
Úrskurður
Þann 27. febrúar 2007 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 6/2007.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysistrygginga samþykkti þann 7. febrúar 2007 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 2. janúar 2007. Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði frá 5. janúar 2007 um starfslok hennar hjá E ehf. og námsloka án gildra ástæðna var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. og 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi þann 16. febrúar 2007. Í bréfi sínu segist hún ekki hafa hætt námi án gildra ástæðna. Hún hafi útskrifast sem stúdent frá V í desember 2006. Hún hafi því lokið námi en ekki hætt án gildra ástæðna. Ástæða þess að hún sagði upp starfi hafi verið svik af hálfu yfirmanns og eiganda fyrirtækisins. Þegar hún var ráðin til E ehf. í október 2006 hafi henni verið lofað góðu kaupi. Hún hafi einungis ráðið sig til vinnu virk kvöld og þetta hafi verið hlutavinna með skóla. Yfirmaðurinn hafi hvað eftir annað sett hana á vakt um helgar. Hún hafi ekki verið sátt við þetta og kvartað til yfirmannsins. Hann hafi ekki sinnt óskum hennar og sagt að svona þyrfti þetta að vera vegna manneklu. Þegar hafi komið að útborgun launa hafi loforðin um kauptaxtana ekki staðist, auk þess sem hann hafi dregið af henni nokkrar klukkustundir frá heildarvinnustundum mánaðarins. Þetta hafi endurtekið sig næsta mánuð. Yfirmaðurinn hafi einnig baktalað starfsmenn sína við aðra starfsmenn. Eftir að hafa verið þarna í vinnu í tvo mánuði hafi henni verið orðið nóg boðið og sagt upp. Við athugun kæranda hafi komið í ljós að vinnuveitandi hafi einungis greitt til stéttarfélags og lífeyrissjóðs fyrir októbermánuð en ekkert fyrir nóvember og nokkra daga sem hún hafi unnið í desember.
Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá E ehf. frá 5. janúar 2007. Þar kemur fram að kærandi starfaði sem þjónn hjá fyrirtækinu tímabilið 9. október til 5. desember 2006 í 55% starfi Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sjálf sagt upp störfum. Einnig liggur fyrir yfirlit frá Einingu Iðju frá 15. febrúar 2007 um greiðslu stéttarfélagsgjalds. Þar kemur fram að E ehf. hefur sent inn skilagrein vegna iðgjalda starfsmanna sinna fyrir október 2006 en ekki nóvember. Samkvæmt yfirliti á orlofsreikningi kæranda frá 15. febrúar sl. kemur fram að ekki hefur verið greitt inn á reikninginn fyrir október og nóvember 2006. Samkvæmt yfirliti frá Kaupþingi banka hf. frá 15. febrúar hefur E ehf. ekki greitt inn á lífeyrisreikning Frjálsa lífeyrissjóðsins á tímabilinu 1. janúar til 15. febrúar 2007. Ekki koma fram hreyfingar á árinu 2006. Samkvæmt launaseðli fyrir nóvember 2006 er getið um eftirfarandi frádrátt: Orlof, kr 12.513, stéttarfélagsgjald til Einingar-Iðju kt. 1.831 og lífeyrissjóðsiðgjald til Frjálsa lífeyrissjóðsins kr. 5.634. Starfsmaður úrskurðarnefndar hafði samband símleiðis við forsvarsmann E. Hann tók ekki fyrir að vegna mistaka hafi nóvembermánuður ekki verið gerður upp hvað þetta varðar en sagðist mundu hafa samband við bókara sinn og kvaðst munu láta leiðrétta þetta strax ef rétt væri. Samkvæmt tölvubréfi frá forsvarsmanni E dags. 26. febrúar sl. hafa nú öll gjöld varðandi X verið gerð upp.
Varðandi námslok kæranda liggur fyrir staðfesting á skólavist hennar hjá V frá 11. janúar 2007. Þar kemur fram að kærandi brautskráðist frá skólanum þann 20. desember 2006. Samkvæmt bréfi Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra frá 19. febrúar sl. kemur fram að kærandi hafi lagt fram staðfestinguna eftir að henni hafi verið send ákvörðun um niðurfellingu bóta.
Niðurstaða
1.
Ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna. Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:
Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.
Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1.mgr.
2.
Kærandi var starfsmaður E ehf. í október og nóvember 2006. Hún sagði upp störfum vegna þess að hún var óánægð með launin og ósátt við að þurfa að taka vaktir um helgar, en hún í upphafi hafði farið fram á að taka aðeins kvöldvaktir á virkum dögum. Kærandi hefur fært sönnur á því að hún brautskráðist með stúdentspróf í desember 2006 og verður því ekki fjallað frekar um þann hluta málsins.
Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir. Almennt flokkast ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum. Kærandi sagði upp starfi sínu vegna óánægju í starfi og ágreinings um laun og vinnutíma. Það er mat úrskurðarnefndar að þær ástæður sem kærandi færir fram séu ekki gildar í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysisbætur
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga staðfest með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga frá 7. febrúar 2007 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka