Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Hættir námi án gildrar ástæðu. Staðfest.
Nr. 9 - 2007
Úrskurður
Þann 13. mars 2007 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 9/2007.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysistrygginga samþykkti þann 7. febrúar 2007 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 12. desember 2006. Bótaréttur hennar var hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, á grundvelli þess að hún hefði hætt námi án gildra ástæðna.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi þann 27. febrúar 2007. Í bréfi sínu segist hún hafa haft fullgilda ástæðu til að hætta námi. Hún sé ófrísk og hefði aldrei náð að ljúka við aðra námsönn. Ennfremur hafi henni aldrei verið tilkynnt að hún gæti sent Vinnumálastofnun bréf til að útskýra mál sitt.
Í gögnum málsins liggur fyrir bréf Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra frá 1. mars 2007. Þar segir að í umsókn kæranda um atvinnu og atvinnuleysisbætur hafi hún merkt við að hún kæmi úr námi hérlendis og að hún ætti von á barni í mars. Vinnumálastofnun hafi talið þetta fullnægjandi skýringu og því ekki sent kæranda frekari fyrirspurn um skýringu námslokanna. Fram kemur að kærandi sé rúmlega hálfnuð með nám á félagsfræðibraut. Einnig kemur fram að hún óski eftir tímabundnu starfi frá 1. janúar til 28. mars. Samkvæmt staðfestingu frá V frá 18. desember 2006 stundaði kærandi nám við skólann á haustönn 2006. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Skýrr er kærandi í sambúð.
Niðurstaða
1.
Ákvæði 55. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, fjallar um þau atvik er námi er hætt án gildra ástæðna. 1. mgr. 55. gr. er svohljóðandi:
Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII kafla fyrr en að 40 dögum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.
2.
Kærandi var stundaði nám á félagsfræðibraut V á haustönn 2006 og var rúmlega hálfnuð með námið. Kærandi segist ekki hafa hafið nám á vorönn 2007 þar sem hún eigi von á barni í mars nk. Kærandi sækir um tímabundna atvinnu frá 1. janúar til 28. mars.
Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur hættir námi fyrir námslok og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir. Kærandi, sem er í sambúð, hætti námi vegna þess að hún á von á barni á miðri vorönn. Það er mat úrskurðarnefndar að þær ástæður sem kærandi færir fram séu ekki gildar í skilningi 55. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysisbætur
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga staðfest með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 54/2006.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga frá 7. febrúar 2007 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka