Umsókn um atvinnuleysisbætur synjað. Tryggingagjaldi ekki skilað. Geymdur bótaréttur. Fellt úr gildi.
Nr. 36 - 2006

Úrskurður

 

Hinn 28. ágúst 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 36/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir Vesturland ákvað á fundi sínu sem haldinn var þann 27. apríl 2006 að synja umsókn Y, um atvinnuleysisbætur frá 10. apríl 2006.  Nefndin tók ákvörðun sína með vísan til 4. tölul. 2. laga nr. 12/1997.  Nefndin vísaði til þess að Y hefði ekki staðið skil á tryggingagjaldi vegna sjálfstæðs rekstrar síðustu 12 mánuði fyrir umsókn um atvinnuleysisbætur.  Úthlutunarnefndin tók mál Y aftur fyrir á fundi sínum þann 26. maí 2006 og staðfesti fyrri ákvörðun sína.  Úrskurðarnefndin tók mál Y fyrir á fundi sínum þann 13. júní sl. og ákvað að fresta málinu til næsta fundar til frekari gagnaöflunar.

 

2.

Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar með bréfi dags. 6. maí 2006.  Í bréfi sínu segist hann hafa hætt störfum í Þ þann 7. júlí 2004.  Honum hafi verið margoft ráðlagt af læknum að hætta þessari vinnu, en á heimaslóðum hans sé litla vinnu að fá.  Í mörg ár hafði hann samhliða launavinnunni framleitt og selt blómaáburð í einkafyrirtæki sínu í þeirri von að hafa af því tekjur.  Sú von hafi ekki ennþá ræst.  Hann hafi þó að kröfu skattstjóra reiknað sér kr. 60.000 á ári í endurgjald.  Honum hafi verið sagt að þar sem hann hefði sjálfur sagt upp störfum hjá Þ gæti hann ekki sótt um atvinnuleysisbætur fyrstu þrjá mánuðina og þessa mánuði reyndi hann að gera áburðarframleiðsluna og söluna að atvinnu.  Í lok september 2004 hafi hann síðan fengið byggingavinnu.  Í byrjun febrúar 2005 hafi hann aftur orðið atvinnulaus og síðan haft stopula vinnu.  Í ágúst 2005 hafi hann reynt að vinna í Þ aftur en það hafi ekki gengið.    Eina vinnan sem hann hafi haft í tvö ár án þess að vera á verktakalaunum hafi verið þessir tveir mánuðir í Þ.  Hann hafi skráð sig atvinnulausan fyrir 15 mánuðum.  Hann hafi verið beðinn um að skila inn ótal gögnum sem hann hafi gert en fyrst núna hafi hann fengið höfnun.  Af þessum sökum hafi hann hætt að skrá sig þar sem hann hafi ekki séð neinn tilgang í því.  Hann hafi gefið upp alla sína vinnu til réttra yfirvalda, skilað skilagreinum fyrir virðisaukaskatti, staðgreiðslu og tryggingagjaldi, en vegna bágrar fjárhagsstöðu sé hann mörgum mánuðum á eftir með þessi gjöld eins og allar aðrar greiðslur. 

 

Í gögnum málsins liggur yfirlýsing Y dags. 10. apríl 2006 þar sem hann lýsir því yfir að hann hafi stöðvað sjálfstæða starfsemi sína vegna samdráttar þar sem hann hafi ekki fengið nein verkefni í sinni grein sem sé byggingastarfsemi.  Í yfirlýsingunni segist Y vona að um tímabundna stöðvun sé að ræða.  Í vottorði skattstjórans í Vestfjarðaumdæmi dags. 12. ágúst 2004 er staðfest að rekstur Y hafi undanfarið verið takmarkaður og að hann hafi heimild til að reikna sér endurgjald að fjárhæð kr. 60.000 á ári og skili þar með staðgreiðslu til skattstjóra einu sinni á ári  í stað mánaðarlega.  Starfsemi Y sé í starfaflokki F(5) samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald. Samkvæmt útskrift frá sýslumanninum á P dags. 25. apríl 2006 er heildartryggingagjald ársins 2005 sagt vera kr. 66.697 og er það allt í vanskilum. 

Í gögnum málsins liggja einnig fyrir tvö vinnuveitandavottorð frá Þ.  Þar kemur fram að hann hafi starfað sem vaktformaður hjá fyrirtækinu tímabilin 1. apríl 2001 til 31. júlí 2004 og 8. ágúst 2005 til 30. september 2005.  Einnig liggur fyrir læknisvottorð dags. 5. ágúst 2004. Í vottorðinu segir að Y hafi átt við heilsufarsvandamál að stríða sem tengist þara- og þangryki í Þ sem hann hafi starfað til margra ára.  Hann hafi því af heilsufarsástæðum sagt upp á vinnustaðnum og sé ráðlagt að starfa ekki framar þar sem hætta sé á þara- eða þangryki. 

.

Í minnisblaði frá Svæðisvinnumiðlun Vesturlands dags. 29. maí 2006 segir að Y hafi fyrst komið inn á bætur 26. júlí 2004 eftir að hafa þurft að hætta hjá :Þ vegna sjúkdóms.  Hann hafi verið skráður atvinnulaus á móti hlutastarfi í sjálfstæðum rekstri og verið með undanþágu frá skattstjóra vegna þessa.  Hann hafi verið á skrá hjá svæðisvinnumiðluninni til 27. september 2004.  Hann hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur í febrúar 2005.  Þá hafi verið beðið um yfirlit yfir virðisaukahreyfingar hans og komið í ljós að hann hafi haft töluvert mikla veltu á þeim tíma sem hann var skráður atvinnulaus á árinu 2004.  Y hafi ekki getað gefið neinar skýringar á þessu.  Hann hafi síðan sótt aftur um bætur 10. apríl 2006.  Hafði áður verið að vinna sem verktaki en sótti um bætur þar sem engin verkefni væru fyrirsjáanleg.  Hann hafi skilað inn reikningum svo hægt væri að reikna út bótahlutfall hans, en á yfirliti frá sýslumanninum á P hafi komið fram að hann hafi ekki greitt af sér tryggingagjald í langan tíma.  Úthlutunarnefndin hafi synjað honum um bætur á þessum forsendum.  Hann hafi síðan skilað inn vinnuveitandavottorði frá Þ eftir synjunina þar sem fram hafi komið að hann hafi einnig unnið þar í einhvern tíma á árinu 2005.  Málið hafi verið tekið fyrir á ný og kannað hvort hann gæti átt geymdan bótarétt.  Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri heimild til að ákvarða Y bætur samkvæmt 3. gr. laga nr. 12/1997 um geymdan bótarétt og því hafi fyrri ákvörðun um synjun bótaréttar verið staðfest.

 

Niður­staða

 

1.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar eiga þeir sem uppfylla skilyrði laganna rétt á atvinnuleysisbótum.

 

2. gr. laganna kveður á um almenn skilyrði bótaréttar.  4. tölul. 1. mgr. hljóðar svo:

Hafa á síðustu tólf mánuðum unnið í samtals a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða, sbr. þó 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög n.r 46/1993.  Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði.

 

3. gr. laganna kveður á um geymdan bótarétt.  Greinin hljóðar svo:

1.      Sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt en hverfur af innlendum vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila af launum hans tryggingagjaldi heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði, frá því hann hvarf af vinnumarkaði, þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér.  Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum fellur réttur hans samkvæmt þessari grein að fullu niður.  Með sama hætti skal fara með þann sem tekur að stunda hlutastarf eða hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs.   Ákvæði þetta gildir ekki um þá sem fara í atvinnuleit til annars EES-ríkis í allt að þrjá mánuði og fá á þeim tíma greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum þessum.

 

 

 

           

 

2.

.   Þar sem segir að einstaklingur geti geymt bótarétt sinn í allt að tuttugu og fjóra mánuði er átt við þann bótarétt sem hann hafði áunnið sér 24 mánuðum áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur, og er þá miðað við bótaréttinn sem hann átti á því tímabili, þ.e. bótaréttinn sem hann ávann sér á allt að 12 mánuðum fyrir þann tíma.  Ef einstaklingur hafði 100% bótarétt allt að 24 mánuðum áður en hann sækir um, þá getur hann geymt þann rétt.  Það sama gildir um þá sem fara að stunda hlutastarf, sbr. 3. gr. laga nr. 12/1997, eins og í tilviki kæranda sem var með eigin atvinnurekstur eftir að hann lét af störfum hjá Þörungaverksmiðjunni.

Kærandi vann hjá Þ tímabilin 1. apríl 2001 til 31. júlí 2004 og 8. ágúst 2005 til 30. september 2005 í 100% starfshlutfalli.  Hann sótti um atvinnuleysisbætur þann 10.  apríl 2006.  Þannig hafði kærandi áunnið sér 100% bótarétt 24 mánuðum áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur.  3. gr. laga um atvinnuleysistrygginga um geymdan bótarétt á því við um hann.

 

            Með hliðsjón af ofangreindu er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta fyrir Vesturland um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur felld úr gildi með vísan til 3. gr. laga nr. 12/1997, sbr. 6.gr. a sömu laga og 14. gr. rgl. 316/2003.

 

Úr­skurðar­orð:

 

            Felld er úr gildi ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Vesturland frá 27. apríl um synjun á umsókn Yum atvinnuleysisbætur.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

formaður

 

Elín Blöndal                                          Arnar Þór Jónsson

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.