Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Missir vinnu af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Staðfest.
Nr. 38 - 2006
Úrskurður
Þann 13. júní 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 38/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum sem haldinn var þann 9. maí 2006 umsókn Y um atvinnuleysisbætur frá 12. apríl 2006. Jafnframt ákvað nefndin að réttur Y til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði frá 3. maí 2006 um starfslok Y hjá V ehf.
2.
Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi mótt. 23. maí 2006. Í bréfinu segist hann vilja mótmæla ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta og fer fram á að ákvörðunin verði afturkölluð. Hann hafi ekki getað komist hjá starfslokum sínum hjá V ehf. Hann hafi byrjað á kvöldnámskeiði hjá F þann 9. janúar sl. til öflunar einkaflugmannsréttinda. Námskeiðið hafi verið frá kl. 18:30 til 22:00 á kvöldin og hafi því fylgt nokkur heimavinna. Hann hafi látið verkstjóra hjá V ehf. vita af þessu með viku fyrirvara. Á sama tíma hafi hann einnig staðið í flutningum. Eftir því sem liðið hafi á námskeiðið hafi mæting hans í vinnunni orðið slakari, en verkstjórinn hafi ekki kvartað að ráði þess vegna. Hann hafi talið að hann hafi haft skilning á aðstæðum sínum, enda erfitt að vinna frá kl. 7:30 til 17:15 í Kópavogi, keyra heim til Reykjavíkur, borða, fara út með hundinn, þvo sér og mæta síðan á námskeiðið við Reykjavíkurflugvöll kl. 18:30, fara heim eftir kl. 22:00 og pakka saman búslóð, flytja hana og gera heimaverkefni fyrir námskeiðið. Hann hafi þó fengið skriflega áminningu um miðjan febrúar frá einum aðaleiganda V ehf. vegna lélegrar mætingar í janúar og febrúar. Til að missa ekki vinnuna hafi hann rætt við verkstjórann og beðið um frí frá því í byrjun mars þar til í byrjun apríl er námskeiðinu var lokið. Verkstjórinn hafi samþykkt þetta. Síðan hafi honum borist uppsagnarbréf þann 15. mars þar sem skírskotað var til áminningarbréfsins. Einnig hafi því verið haldið fram í uppsagnarbréfinu að enginn hafi kannast við að hann hafi beðið um frí og að ítrekað hafi árangurslaust verið reynt að ná í hann símleiðis. Þetta sé ekki rétt, hann hafi margoft haft samband við vinnufélaga sína í byrjun marsmánaðar, og þeir hafi aldrei minnst á að vinnuveitandinn hafi haft áhyggjur af því hvar hann væri. Y segist telja að uppsögn sín hafi frekar stafað af persónulegri andúð vinnuveitandans á honum, það hafi komið í ljós á ýmsan hátt í framkomu gagnvart honum.
Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá V ehf. frá 3. maí 2006. Þar kemur fram að Y hafi verið sagt upp störfum vegna lélegrar mætingar.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga ef umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna. Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta, en þar segir eftirfarandi:
Ef umsækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, séu starfslok tilkomin vegna einhverra eftirtalinna atvika:
a. Maki umsækjanda hafi farið til starfa í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja búferlum.
b. Uppsögn má rekja til þess að umsækjandi, að öðru leyti vinnufær, hefur af heilsufarsástæðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því tilskildu að vinnuveitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ástæður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknisvottorði þessu til staðfestingar.
Kjósi úthlutunarnefnd að beita heimild 4. tl. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í öðrum tilvikum en að ofan greinir, skal hún tiltaka sérstaklega í ákvörðun sinni þau atvik og sjónarmið sem ákvörðun byggist á.
2.
Kærandi var mikið fjarvistum frá vinnu sinni af persónulegum ástæðum, s.s. þátttöku í kvöldnámskeiði, heimavinnu, flutningum o.fl. Hann fékk áminningarbréf vegna þessa frá vinnuveitandanum. Kærandi segist hafa fengið vilyrði frá verkstjóra sínum fyrir eins mánaðar fríi af þessum sökum til að ljúka sínum málum. Kærandi fékk síðan uppsagnarbréf frá vinnuveitandanum þar sem vísað var til fjarvista hans, og jafnframt sagt að enginn á vinnustaðnum kannaðist við að hann hafi fengið frí frá vinnu og að ekki hafi verið hægt að ná í hann símleiðis þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta missti kærandi vinnu sína af ástæðum sem hann sjálfur átti sök á í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Undantekningartilvik 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 eiga ekki við í máli kæranda og eru því ekki lagaskilyrði til að verða við beiðni kæranda um að fallið verði frá 40 daga niðurfellinu bótaréttar.
Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 9. maí 2006 um að Y skuli missa rétt til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka