Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga. Segir upp starfi án gildrar ástæðu. Segirst ekki hafa efni á að borga daggæslu fyrir börnin sín tvö. Staðfest.
Nr. 42 - 2006

Úrskurður

 

Þann13. júní 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 42/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta fyrir Norðurland eystra ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 28. febrúar 2006 að samþykkja umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 7. febrúar 2006.  Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði um starfslok hennar hjá I sem rekinn er á vegum A var réttur hennar til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils.  Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.  Að ósk X tók nefndin mál hennar fyrir á ný á fundum sínum 14. mars, 28. mars og 9. maí sl. og staðfesti fyrri ákvörðun sína.

 

2.

X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 31. maí 2006.   Í bréfi sínu segist X kæra ákvörðun úthlutunarnefndar um niðurfellingu bótaréttar hennar í 40 bótadaga og krefst þess að hún fái atvinnuleysisbætur á móti hlutastarfi fyrir þann tíma sem hún var að mestu atvinnulaus.  X segist telja að uppsögn hennar falli undir undanþáguheimild 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 vegna sérstakra heimilisástæðna.  X segist hafa verið tilneydd til að segja upp starfi sínu eftir fæðingarorlof því fjölskylduaðstæður hennar hafi ekki boðið upp á það að vinna dagvinnu og borga fyrir tvö börn í pössun samhliða því. Ennfremur vísar X í mál sem virðist ekki hafa verið kært til úrskurðarnefndar, þar sem móðir varð að hætta vinnu sinni þar sem hún missti dagmóður barnsins síns, en barnið sé nú komið á dagheimili.  X gerir ekki nánari grein fyrir málsástæðum í nefndu máli. 

X segir að hennar sérstöku heimilisaðstæður felist í því að hún og eiginmaður hennar séu í láglaunastörfum.  Ef greiða þyrfti fyrir gæslu tveggja barna væri afskaplega lítið eftir til ráðstöfunar, því hafi þau hjónin orðið að grípa til þeirra ráðstafana að vinna á sitt hvorum vinnutímanum þannig að ekki þyrfti að greiða fyrir gæslu.  Hún hafi orðið að segja upp starfi sínu á I þann 1. desember 2005 eftir fæðingarorlof þar sem leikskólastjórinn hafi ítrekað krafið hana um svör um hvort hún kæmi aftur til vinnu.  Fæðingarorlofinu hafi ekki lokið fyrr en í byrjun febrúar 2006.  Áður en því lauk fór hún því að leita sér að vinnu.  Strax í byrjun febrúar hafi hún fengið 30% hlutastarf.  Og í mars hafi hún að auki fengið 50% næturvinnu og var þá komin með 80% vinnu.  Hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur á móti hlutastarfi fyrir þann tíma sem leið frá lokum fæðingarorlofs (6. febrúar) þar til hún fengi fulla vinnu.  X segist telja að ekki hafi verið gætt jafnræðis samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga við önnur mál og að undantekningarákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 um sérstakar heimilisástæður hafi átt að gilda í sínu tilviki.

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá A dags. 10. febrúar 2006.  Þar segir að X hafi verið starfsmaður á leikskóla hjá A.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi farið tvisvar í fæðingarorlof á tímabilinu og hætt eftir seinna fæðingarorlofið.

 


Niður­staða

 

1.

Sam­kvæmt 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um at­vinnu­leysis­tryggingar, veldur það missi bóta­réttar í 40 bóta­daga ef um­sækjandi um at­vinnu­leysis­bætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna.  Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglu­gerðar nr. 545/1997, um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta, en þar segir eftirfarandi: 

 

 

Ef um­sækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar, séu starfs­lok til­komin vegna einhverra eftir­talinna at­vika:

a.         Maki um­sækjanda hafi farið til starfa í öðrum lands­hluta og fjöl­skyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja bú­ferlum.

b.         Upp­sögn má rekja til þess að um­sækjandi, að öðru leyti vinnu­fær, hefur af heilsu­fars­á­st­æðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því til­skildu að vinnu­veitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ást­æður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknis­vott­orði þessu til stað­festingar.

Kjósi út­hlutunar­nefnd að beita heimild 4. tl. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar í öðrum til­vikum en að ofan greinir, skal hún til­taka sér­stak­lega í ákvörðun sinni þau at­vik og sjónar­mið sem ákvörðun byggist á.

 

2.

Kærandi sagði upp starfi sínu hjá I á A tveimur mánuðum áður en fæðingarorlofi lauk.  Að sögn kæranda þrýsti leikskólastjórinn ítrekað á um svör um hvort hún kæmi aftur til starfa eftir fæðingarorlof.  Kærandi sagðist hafa átt erfitt með að gera upp hug sinn og svara leikskólastjóranum um hvort hún hygðist koma aftur til starfa.  Henni hafi líkað vel í vinnunni á leikskólanum, en á móti kæmi að þau hjón séu bæði í láglaunastörfum og greiðsla fyrir daggæslu fyrir tvö börn hefði sett þau í fjárhagsleg vandræði.  Því hafi þau hjónin ákveðið að reyna að finna sér vinnu á sitt hvorum vinnutímanum svo þau gætu sjálf gæt barnanna og þyrftu ekki að greiða fyrir barnagæslu.  Vegna þrýstings frá leikskólastjóranum hafi hún séð sig nauðbeygða til að segja upp starfi sínu í desember þó fæðingarorlofið ætti ekki að enda fyrr en 6. febrúar.  Hún hafi fljótlega byrjað að leita sér að vinnu við hæfi.  Hún hafi strax í lok fæðingarorlofs fengið 30% vinnu og síðan í mars hafi hún fengið 50% næturvinnu.   Hún hafi sótt um hlutabætur á móti hlutavinnunni en verið sett á 40 daga bið.         

Kærandi minnist á að vinkona hennar hafi hætt í vinnu þar sem hún hafði misst dagmóður sína og komist strax inn á atvinnuleysisbætur. Án þess að leggja mat á fyrrnefnt tilvik, sem ekki hefur komið til kasta úrskurðarnefndarinnar, skal tekið fram að úrskurðarnefndin hefur almennt ekki talið sér heimilt að líta svo á að skortur á dagheimilisplássi eða kostnaður vegna barnagæslu geti verið gild ástæða til að segja upp starfi. Verður jafnræðisreglu stjórnsýslulaga því ekki beitt í þessu máli.  Kærandi í máli þessu hafði kost á að þiggja sína fyrri vinnu og að hennar sögn lágu fjárhagslegar ástæður að baki því að hún sagði upp starfi sínu. 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta eru ástæður þær sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum samkvæmt ofangreindu ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Það er einnig mat úrskurðarnefndar að undantekningartilvik  2. mgr.  7. gr. reglugerðar nr. 545/1997 eigi ekki við í máli kæranda og því séu ekki lagaskilyrði til að verða við beiðni kæranda um að fallið verði frá 40 daga niðurfellinu bótaréttar.

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta fyrir Norðurland eystra um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta fyrir Norðurland eystra frá 28. febrúar 2006 um að X skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga  í upphafi bótatímabils.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni