Ótímabundin niðurfelling bótaréttar. Hafnaði atvinnutilboði af fjárhagsástæðum. Ítrekun. Hafði áður fengið 40 daga niðurfellingu vegna starfsloka. Staðfest
Nr. 48 - 2006
Úrskurður
Hinn 17. október 2006 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 48/2006.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta ákvað á fundi sínum sem haldinn var þann 11. apríl 2006 að fella ótímabundið niður rétt X til atvinnuleysisbóta. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, og með vísan til þess að X hafnaði atvinnutilboði frá F frá 23. mars 2006. Í ákvörðun úthlutunarnefndar er tekið fram að um ítrekun hafi verið að ræða þar sem á árinu 2005 fékk hún 40 daga niðurfellingu bótaréttar vegna höfnunar á starfstilboði frá 15. júní 2005. Úthlutunarnefndin tók mál X fyrir á ný á fundi sínum þann 25. apríl sl. og staðfesti fyrri ákvörðun sína þar sem ekki höfðu legið gildar ástæður að baki höfnunar atvinnutilboðsins. Úrskurðarnefndin tók mál X fyrir á fundi sínum sem haldinn var þann 26. september 2006 og ákvað að fresta málinu til frekari gagnaöflunar.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 2. júní 2006. Í bréfinu segir hún að bótaréttur hennar hafi verið felldur niður þar sem úthlutunarnefndin taldi að hún hefði hafnað atvinnutilboðum tvisvar sem þó sé ekki rétt. Í fyrra skiptið hafi henni verið sagt upp störfum á meðan hún var ófrísk. Öllum starfsmönnum A ehf. sem hún vann hjá á þeim tíma hafi verið sagt upp störfum þar sem reksturinn hafi gengið illa. Uppsögn hennar hafi þó verið dregin til baka vegna þungunarinnar en hún og yfirmaður hennar hafi komist að samkomulagi um að hún myndi vinna þar til hún færi í fæðingarorlof og lyki síðan störfum. Er hún hafi komið úr fæðingarorlofi hafi verið búið að leggja starf hennar niður og loka flestum verslunum fyrirtækisins. Aðeins ein verslun hafi verið eftir og þar hafi einungis móðir eigandans starfað. Fyrirtækinu hafi síðan verið lokað. Ekki hafi reynst unnt að fá vottorð frá vinnuveitandanum þar sem hann sé búsettur í erlendis. Henni hafi síðan boðist starf í leikskóla og hafi það verið fyrsta starfið sem hún hafi hafnaði og hafi það verið af fjárhagslegum ástæðum. Henni hafi verið boðnar kr. 120.000 í mánaðarlaun. Útborguð laun hefðu þá verið kr. 99.000 á mánuði. Henni hafi ekki þótt skynsamlegt að þiggja starfið. Betur hafi komið út að spara kr. 43.000 kostnað vegna dagmóður á mánuði. Ef hún hefði þegið starfið hefði hún haft lægri fjárhæð til ráðstöfunar en ella. Hún hafi sagt starfsmanni vinnumiðlunar að hún vildi fyrst kanna málið áður en hún tæki tilboðinu. Starfsmaðurinn hafi ekki tekið þetta í mál og því hafi hún tekið tilboðinu án þess að hugsa það frekar. Síðan hafi hún séð að þetta myndi ekki ganga og hafi hún hafnað tilboðinu. X segist fara þess á leit að ákvörðun úthlutunarnefndar verði felld úr gildi.
Í gögnum málsins liggur fyrir atvinnutilboð, dags. 23. janúar 2006 frá F. Um var að ræða almenn störf við barnagæslu á leikskóla. Í tilboðinu segir að X stefni að því byrja að vinna eftir tvær vikur. Í dagpeningavottorði segir að X hafi ekki byrjað í því starfi sem hún hafi ráðið sig í.
Einnig liggur fyrir vinnuveitandavottorð dags. 12. maí 2005 frá A ehf. Samkvæmt vottorðinu starfaði X sem verslunarstjóri hjá fyrirtækinu tímabilið 4. maí 2004 til 14. janúar 2005. Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi farið í fæðingarorlof. Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 2 ákvað í kjölfarið að fella niður rétt X til atvinnuleysisbóta í 40 bótadaga vegna starfsloka hennar hjá A.
Niðurstaða
1.
Þann 1. júlí sl. tóku gildi ný lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en um mál þetta fer samkvæmt eldri lögum nr. 12/1997, þar sem atvik þess gerast á gildistíma þeirra.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laganna er skilyrði bótaréttar að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa.
Þetta skilyrði er áréttað frekar í 1. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997 en þar segir eftirfarandi:
,,Til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum þarf umsækjandi í atvinnuleit samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
a. Að vera reiðubúinn til að ráða sig til allra almennra starfa, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
b. Að vera fullfær til vinnu.
c. Að fylgja starfsleitaráætlun sem gerð hefur verið á vegum svæðisvinnumiðlunar, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, eða skrá sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun/skráningaraðila.
1. mgr. 13. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, hljóðar svo:
Það veldur missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrissréttinda nr. 55/1980.
5. mgr. 13. gr. laganna hljóðar svo:
Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti ákvæði 4. tölul. 5. gr.
Í 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er mælt fyrir um hvaða einstaklingar eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Ákvæði 4. tölul. 5. gr. gr. hljóðar svo:
Þeir sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
2.
Kærandi fékk tilboð um vinnu á leikskóla en hafnaði því þar sem hún sá fram á að hún kæmi verr út fjárhagslega vegna kostnaðar við dagmóður en ef hún þæði áfram atvinnuleysisbætur. Í fyrra starfi var henni ásamt öðrum starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp störfum vegna samdráttar í rekstri. Uppsögn hennar var dregin til baka þar sem hún var þunguð, en kærandi gerði samkomulag við atvinnurekandann um að hún ynni þar til hún færi í fæðingarorlof og hætti síðan. Að fæðingarorlofi loknu sótti hún um atvinnuleysisbætur. Úthlutunarnefndin ákvað í kjölfarið að fella bótarétt hennar niður í 40 bótadaga vegna starfsloka með vísan í 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997. Er kæranda var send ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar hennar í 40 bótadaga var henni á það bent skriflega 10. júní 2005 að hún gæti kært ákvörðun úthlutunarnefndar innan þriggja mánaða. Kærandi nýtti sér ekki þann rétt og stendur sú ákvörðun því óbreytt.
Í umsókn um atvinnuleysisbætur felst yfirlýsing um að umsækjandi óski eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan á atvinnuleit sinni stendur. Sú atvinnuleit má almennt ekki vera háð þeim fyrirvara að aðeins ákveðnar tegundir starfa eða ákveðinn vinnutími komi til greina þannig að önnur störf séu útilokuð, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 12/1997 þar sem segir að þeir sem eiga rétt til bóta samkvæmt lögunum skuli vera reiðubúnir til að ráða sig til allra almennra starfa. Að mati úrskurðarnefndar bar kæranda að þiggja framkomið atvinnutilboð frá F að viðlögðum bótamissi enda getur úrskurðarnefndin ekki nú endurskoðað fyrri ákvörðun úthlutunarnefndar frá árinu 2005. Verður ekki hjá því komist að beita ítrekunaráhrifum viðurlaga í 4. tölul. 5. gr. laga nr.12/1997.
Með vísan til ofangreinds er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 2 fyrir höfuðborgarsvæðið um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar kæranda staðfest með vísan til 1. mgr. 13. gr. sbr. 4. tölulið 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta frá 11. apríl 2006 um ótímabundna niðurfellingu bótaréttar X.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka